13 okt Við ákveðum þetta saman
Rekstur innviðafyrirtækja er samofinn starfsemi sveitarfélaga. Í Reykjavík eru nokkur slík sem flestir þekkja og eru í daglegu tali kölluð B-hlutafyrirtæki. Þetta eru t.d. Orkuveitan ásamt dótturfélögum, Félagsbústaðir og Faxaflóahafnir. Mikilvægt er að í rekstri þessara fyrirtækja látum við góða stjórnarhætti leiða okkur áfram.
Góðir stjórnarhættir
Almenn eigandastefna borgarinnar var samþykkt síðastliðið vor og unnin í þverpólitískri sátt. Henni er gert að tryggja gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun B-hlutafyrirtækja borgarinnar þannig að það ríki almennt traust á stjórn og starfsemi. Þá er sérstaklega fjallað um upplýsingagjöf milli eiganda og fyrirtækis um rekstur og stefnumörkun ásamt ábyrgðarskilum milli eiganda, stjórnar og stjórnenda. Eigandastefnan er ekki úr lausu lofti gripin heldur tekur hún mið af leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti fyrirtækja í opinberri eigu ásamt leiðbeiningum viðskiptaráðs.
Hlutverk, umboð og upplýsingaskylda
Almenn eigandastefna borgarinnar rammar inn með skýrum hætti markmið eiganda. Þar eru nokkrir þættir sérstaklega dregnir fram, s.s. að Reykjavíkurborg er formlega skilgreind sem virkur eigandi og hlutverk, umboð og ábyrgð eiganda er skilgreint og afmarkað gagnvart borgarráði og borgarstjórn, þar á meðal valdheimildir og mörk þeirra og upplýsingagjöf. Tekið er á forsendum fyrir eignarhaldi Reykjavíkurborgar í fyrirtækjum sem eru sérstaklega skilgreindar og háðar mati af hálfu eiganda.
Annað sem tekið er á er að tryggður er skýrleiki á umboði stjórna fyrirtækjanna og að meginstefnumörkun þeirra sé háð samþykki eigenda. Þá eru einnig skýrar kröfur gerðar til skipulags og stjórnarhátta, sem tryggir gegnsæi og áreiðanleika, ásamt fagmennsku og skilvirkni í störfum stjórna og stjórnenda, s.s. afmörkun á hlutverki, umboði, ábyrgð og stjórnarháttum.
Hver ákveður hvað
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir ritar grein í Morgunblaðið 10. október þar sem hún spyr: „Hver ákvað þetta?“ Spurningin er góð og svarið er einfalt. Það er ekki búið að ákveða neitt. Ragnhildur rekur í sinni grein yfirferð Innherjans á fréttum frá Orkuveitunni þar sem farið er yfir áform Carbfix um hlutafjáraukningu ásamt áformum Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu vegna frekari fjárfestingar til að leggja svokallaðan Landshring. Ragnhildur Alda spyr hvort það sé ekki pólitísk ákvörðun að eitt af dótturfélögum Orkuveitunnar fari í hlutafjáraukningu þar sem fagfjárfestum er boðið upp í dans við að leggja ljósleiðara um allt land og svarið við þeirri spurningu er: svo sannarlega er það pólitísk ákvörðun að taka slíka stefnumótandi ákvörðun eins og rakið er hér að ofan í tengslum við eigandastefnu borgarinnar. Það er alveg ljóst að fyrirtæki í 100% opinberri eigu fara ekki í einkavæðingarferðalag án aðkomu og umræðu eiganda. Það er því heilmikil pólitísk umræða fram undan í borgarráði og borgarstjórn þar sem við öll í borgarstjórn ákveðum þetta saman.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2022