11 nóv Atkvæði á hálfvirði
Á Íslandi hefur alltaf verið mikill munur á atkvæðavægi kjósenda. Lengst af var munurinn margfaldur en breytingar á stjórnarskrá árið 1999 tryggðu að hann gæti ekki orðið meira en tvöfaldur. Það er löngu tímabært að taka næstu skref og jafna atkvæðavægið frekar. Í þeim tilgangi hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á kosningalögum. Af mörgum ástæðum er brýnt að það nái fram að ganga.
Mikilvægt réttlætismál
Enginn vafi er á því að jafnræði fólks til að hafa áhrif með atkvæðisrétti sínum er meðal grundvallaratriða lýðræðisins. Líkt og stendur raunar skýrum orðum í stjórnarskrá. Þess vegna er nauðsynlegt að leiðrétta það misvægi atkvæða sem enn ríkir milli kjósenda. Það er risastórt réttlætismál og í senn mikilvægur liður í því að tryggja pólitíska sátt í samfélaginu.
Þetta snýst þó ekki bara um jöfnuð milli kjördæma. Því jöfnuður milli þingflokka hefur heldur ekki náðst á síðustu árum. Með öðrum orðum hefur ekki tekist að úthluta þingsætum í samræmi við landsfylgi flokkanna. Í síðustu fernum kosningum hafa tveir stærstu flokkarnir þannig fengið einum þingmanni meira en þeir ættu að fá. Nú þegar flokkum hefur fjölgað allverulega eru jöfnunarsætin einfaldlega of fá til að jafna hlut þeirra á landsvísu.
Markmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar að gera vægi atkvæða milli kjördæma eins jafnt og stjórnarskrá heimilar. Hins vegar að tryggja að sem fyllst samræmi sé með þingmannatölu og atkvæðafylgi hvers þingflokks. Með öðrum orðum er markmið frumvarpsins að tryggja bæði kjósendajöfnuð og flokkajöfnuð. Það er gert með því að fjölga jöfnunarsætum og fækka kjördæmissætum, eins og hægt er innan ramma stjórnarskrár.
Ísland eftirbátur Evrópuríkja
Við eigum langt í land með að tryggja það jafnræði sem þykir boðlegt í nútímasamfélagi. Á Norðurlöndunum er nánast ekkert misvægi atkvæða og almennu mörkin í Evrópu eru langt undir því sem við þekkjum á Íslandi. Þar hafa ríkin líka tryggt nauðsynlegar umbætur. Nú er tímabært að Ísland fylgi þeirri þróun sem hefur verið ráðandi í kring síðustu áratugi.
Þessi sjónarmið komu meðal annars fram í umsögn sem Ólafur Harðarson, fyrrum stjórnmálafræðiprófessor, sendi stjórnskipunarnefnd Alþingis vegna frumvarpsins. Jafnframt nefndi Ólafur hversu mikilvægt væri að breyta kosningalögunum fyrir næstu Alþingiskosningar og mælti þess vegna með samþykkt frumvarpsins. Rétt eins og stærðfræðingurinn Þorkell Helgason gerði í sinni umsögn við frumvarpið.
Í umsögn Þorkels kom fram að búast megi við því að fjölgun jöfnunarsæta geri kerfið stöðugra og ónæmara fyrir smávægilegum atkvæðabreytingum. Því yrðu minni líkur á að hringekjan í síðustu Alþingiskosningum endurtæki sig. Loks benti Þorkell á að samþykkt frumvarpsins myndi létta róðurinn þegar kæmi að frekar endurbótum í gegnum stjórnarskrá.
Frumvarpið boðar nauðsynlegar og löngu tímabærar breytingar á kosningakerfinu, líkt og Ólafur og Þorkell nefndu í sínum umsögnum. Enn fremur sögðu þeir breytingarnar skýrar og vel útfæranlegar. Í umsögn Landskjörstjórnar var aðferðafræði frumvarpsins einnig sögð skýr. Þá var tekið fram að engar tæknilegar hindranir stæðu í vegi fyrir framkvæmd hennar.
Frumvarpið brýn réttarbót
Frumvarpið stígur stórt skref í átt að jöfnu atkvæðavægi. Raunar svo stórt að fullur jöfnuður milli flokka yrði nær örugglega tryggður. Niðurstöður úr kosningahermi sýna til dæmis að fullur jöfnuður næðist í 99 af hverjum 100 skiptum. Þó jöfnunarsætin yrðu fleiri myndu kjördæmaúrslit samt ekki raskast meira en nú, líkt og fram kom í umsögn Þorkels Helgasonar.
Sömuleiðis yrði atkvæðavægi kjósenda nær alveg jafnt. Frumvarpið getur að vísu ekki tryggt fullan jöfnuð milli kjördæma. Það er ekki hægt nema með því að afnema kjördæmaskiptingu í stjórnarskrá. Umræðu um það þarf að taka síðar í tengslum við endurskoðun stjórnarskrár. Þá vegferð styð ég líka heilshugar. Þær breytingar myndu samt skila sér of seint, ekki fyrr en í þarnæstu kosningum, eða jafnvel síðar miðað við stöðuna í dag. Málið þolir ekki slíka bið.
Í grunninn spurning um lýðræði
Brýnt er að gera þær breytingar sem hægt er innan almennra laga, eins og frumvarpið leggur til. Með samþykkt þess kæmi leiðrétting strax til framkvæmda. Þingmönnum ber skylda til að tryggja slíkar umbætur á kosningakerfinu. Því að öllu óbreyttu er jafn réttur kjósenda til pólitískra áhrifa ekki tryggður. Það á ekki að líðast í lýðræðissamfélagi eins og okkar. Nú reynir á þingheim að tryggja framgöngu málsins og sýna þannig stuðning sinn við lýðræðið.