03 nóv Skýrt viðbragð
Fjármálastjórn sveitarfélaga er stanslaust viðbragð við aðstæðum. Undanfarin ár hafa verið áhugaverð fyrir alla. Við höfum þurft að bregðast við ýmsum áskorunum, allt frá falli WOW á vormánuðum 2019 með vaxandi atvinnuleysi og samdrætti í ferðaþjónustu, heimsfaraldri sem stóð í tvö ár og nú við stríði í Evrópu, verðbólgu í hærri hæðum en við höfum mjög lengi séð í öllum hinum vestræna heimi og þar af leiðandi hækkandi verði á öllum okkar aðföngum.
Fram undan er óvissa og það má fastlega gera ráð fyrir því að komandi ár verði róstusöm. Það virðist allavega ekki ætla að vera nein lognmolla fram undan, engin góðærisár sjáanleg. Í þeirri fjárhagsáætlun sem við leggjum fram í Reykjavík gerum við ráð fyrir vexti en við stígum einnig ákveðið á bremsuna hvað varðar reksturinn. Þess vegna erum við núna að leggja ríka áherslu á hagræðingu.
Skýr stefna lýsir leið
Grundvöllur að þeirri hagræðingu og viðbragði sem nú verður farið í er lagður með fjármálastefnu Reykjavíkurborgar 2023-2027. Við viljum sjá festu og fyrirsjáanleika í fjármálastjórn með langtímastefnumótun fyrir hvern málaflokk, þar sem lýst er áherslum og markmiðum sem rúmast innan þess fjárhagsramma, til að forðast fyrirvaralitlar breytingar. Mælanleg markmið eru lögð til grundvallar sem snúa að rekstrarniðurstöðu, hlutfalli launakostnaðar, veltufé frá rekstri, lántökuhlutfalli, skuldaviðmiði og lágmarksstöðu handbærs fjár.
Skýr krafa um hagræðingu
Gerð er krafa um hagræðingu sem nemur um þremur milljörðum króna í rekstri árið 2023 eða 1,9% sem hlutfall af veltu. Megináhersla er á að ná jafnvægi í rekstri borgarinnar, minnka launaútgjöld og fara í verkefnamiðaðar hagræðingaraðgerðir. Það þýðir að við skoðum hvað við getum hætt að gera, hvað við viljum leggja niður, sameina eða endurskipuleggja. Fjárfestingaráætlun hefur verið lækkuð um níu milljarða frá fyrri fimm ára áætlun.
Með ákveðnum og stöðugum aðhaldsaðgerðum næstu þrjú til fjögur ár teljum við okkur geta jafnað okkur eftir áföll undanfarinna ára. Borgin okkar verður því bæði í vexti og aðhaldi á næstu árum.
Metum arðsemi fjárfestinga
Áhersla er lögð á að allar fjárfestingar verði metnar m.t.t. arðsemi og langtímaáhrifa þeirra á borgarsjóð, umhverfi og samfélag. Sérstaklega þarf að huga að áhrifum fjárfestinga á rekstur borgarinnar. Uppbyggingarverkefni þarf því að greina vel. Reykjavík er borg í miklum vexti og til að borgin nái að þróast áfram þarf að vera fjárhagslegt svigrúm fyrir innviðafjárfestingar.
Við spáum hægum bata og að hagræðingaraðgerðir í rekstri borgarinnar nái fram að ganga. Það er veigamikil áskorun að lækka launakostnað borgarinnar sem hlutfall af tekjum eins og sett er fram hér í þessari fjármálastefnu en afar mikilvægt markmið að ná. Við erum staðráðin í að byggja öflugt og þétt borgarlíf fyrir alla, með nógu framboði af húsnæði, sjálfbærum hverfum, heilnæmu umhverfi, skilvirkum samgöngum og fjölbreyttu atvinnulífi.