Hveiti og rauðir hundar

Þorsteinn Pálsson

Aðalatriðið er þetta. Það læknast enginn af rauðum hundum, þótt hann velti sér upp úr hveiti, og verðbólgan læknast ekki, þótt reynt sé að fela eitt og eitt af einkennum hennar.“

Þetta er tilvitnun í ritgerðasafn Péturs Benediktssonar bankastjóra, Milliliður allra milliliða, sem út kom 1959. Jóhannes Nordal segir í Lifað með öldinni að það sé „áreiðanlega skemmtilegasta rit sem skrifað hefur verið um efnahagsmál á Íslandi.“

Stóra spurningin

Háir vextir eru eitt af einkennum verðbólgu. Orð gamla Landsbankastjórans komu upp í hugann í síðustu viku þegar forystumenn SA og stórra launþegafélaga reyndu með fjölmiðlaþrýstingi að koma í veg fyrir ákvörðun Seðlabankans um hækkun vaxta.

Það er ekki unnt nú fremur en fyrir sextíu árum að fela verðbólgu með töfrabrögðum.

En í tengslum við vaxtahækkunina spurðu nokkrir forystumenn verkalýðsfélaga þeirrar augljósu og krefjandi spurningar: Hvers vegna þarf þrefalt hærri vexti á Íslandi en á Norðurlöndum til að vinna bug á svipaðri verðbólgu?

Þessa spurningu vilja forystumenn SA ekki ræða.

Grýlusaga

Þingmaður Viðreisnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, flutti spurningu forystumanna verkalýðsfélaganna inn á Alþingi. Hún bað forsætisráðherra einfaldlega að gera þjóðinni grein fyrir ástæðum þessa.

Það er til marks um mikil umskipti að forsætisráðherra viðurkenndi í fyrsta skipti að ástæðan væri íslenska krónan. Sem sagt kerfisvandi fremur en hagstjórnarmistök. En í samræmi við afstöðu forystumanna SA var boðskapur hennar samt að það væri baggi, sem íslenskt launafólk yrði að bera vegna stærra samhengis.

Stærra samhengi útskýrði forsætisráðherra með hræðslukenningu um að atvinnuleysi væri sjálfkrafa fylgifiskur öflugri gjaldmiðla.

Veruleikinn er hins vegar sá að atvinnuleysi er ekki vandamál á öðrum Norðurlöndum né í þeim ríkjum Evrópusambandsins, sem við jöfnum okkur til. Atvinnuleysisvandinn hefur svo minnkað í verst settu ríkjum álfunnar.

Í þessari tilvísun í stærra samhengi er því ekkert hald, bara grýlusaga.

Feluleikur

Forsætisráðherra sér enga leið betri en að launafólk og lítil fyrirtæki beri þennan kostnað vegna krónunnar, sem hún telur hins vegar sjálfsagt að stærri fyrirtæki utan krónuhagkerfisins sleppi við.

Í staðinn ítrekaði forsætisráðherra að ríkisstjórnin væri tilbúin til að greiða fyrir kjarasamningum með auknum ríkisútgjöldum. Þau eru fjármögnuð með lánum, sem launþegar næsta kjörtímabils borga svo með nýjum sköttum.

Þessi aðferð hefur alveg sömu verðbólguáhrif og launahækkanir. Seðlabankinn þarf að beita vöxtum gegn verðbólguáhrifum af hallarekstri ríkissjóðs rétt eins og verðbólguáhrifum launahækkana.

Hringrás með efnahagsvanda af þessu tagi er gamaldags pólitískur feluleikur.

Misrétti

Það er virðingarvert skref þegar forsætisráðherra viðurkennir að gjaldmiðillinn valdi því að vextir á skuldir launafólks þurfi að vera margfalt hærri hér en á öðrum Norðurlöndum.

En forsætisráðherra skuldar launafólki svar við spurningunni: Hvers vegna vill hún að íslenskt launafólk og lítil íslensk fyrirtæki beri svo miklu þyngri vaxtabagga en launafólk í grannlöndunum?

Forsætisráðherra þarf líka að útskýra fyrir launafólki af hverju hún takmarkar áhrif vaxta­ákvarð­ana Seðlabankans við fjölskyldur og einstaklinga með þung íbúða­lán. Hún lætur hins vegar seðlabönkum Bandaríkjanna og Evrópu eftir að stýra þenslustigi útflutningsframleiðslunnar, sem að mestu stendur utan krónuhagkerfisins.

Með því að skipta hagkerfinu upp með þessum hætti stendur forsætisráðherra fyrir misskiptingu, sem er undirrót vaxandi óréttlætis. Hún þarf að skýra út hvers vegna ríkisstjórn hennar er reist á þeirri hugmyndafræðilegu undirstöðu að viðhalda þessu óréttlæti. Hvað græðir launafólk á því?

Þá og nú

Framfaraskrefin í hagsögu landsins, sem skilað hafa launafólki varanlega bættum kjörum, hafa jafnan komið í kjölfar frjálslyndra kerfisbreytinga.

Skemmtilegasta bókin um efnahagsmál var einmitt gefin út í aðdraganda þeirra kerfisbreytinga, sem Viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir og náðu meðal annars til alþjóðlegs gjaldmiðlasamstarfs.

Þá eins og nú byggðist málflutningur þeirra sem voru á móti breytingum mest á því að ala á ótta með grýlusögum. Að því leyti hefur lítið breyst.

Stóri munurinn frá 1959 er sá að þá voru það stjórnarandstöðuflokkar en nú eru það ríkisstjórnarflokkar, sem nota grýlusögur gegn frjálslyndum kerfisbreytingum og framförum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. desember 2022