Í bóndabeygju

Þorsteinn Pálsson

Fyrir tveimur árum voru fluttar fréttir af því að íslenskir bændur fengju lægstu laun í Evrópu fyrir dýrasta kjöt álfunnar.

Þetta tvöfalda Evrópumet sagði talsverða sögu um nauðsyn umbreytinga.

Forystumenn bænda kölluðu þá og aftur nú á liðsinni stjórnvalda.

Tengsl

Í samráðsgátt stjórnvalda má lesa einu hugmyndina, sem fæddist við ríkisstjórnarborðið: Að afnema samkeppnisreglur í kjötframleiðslu og auka miðstýringu.

Á síðustu öld var þjóðarbúskapurinn smám saman leystur úr viðjum miðstýringar og hafta. Stærsta skrefið var stigið með inngöngu á innri markað Evrópusambandsins. Árangurinn sést í meiri verðmætasköpun, góðri afkomu fyrirtækja og bættum hag neytenda.

Landbúnaðurinn kaus að standa utan við þessa vegferð samfélagsins. Allir voru sammála um að umbera þá ósk. Nú horfum við á atvinnugrein í eins konar sjálfheldu. Kannski má segja að hún sé í bóndabeygju.

Það eru sterk tengsl milli stefnunnar og stöðunnar.

Næsta skref

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka samkeppnisreglur úr sambandi skiptir kannski ekki ein og sér öllu máli. Hún er bar eitt lítið skref í sömu átt og áður.

Hitt er meira undrunarefni að enginn þingmaður þriggja ólíkra ríkisstjórnarflokka skuli velta fyrir sér hugmyndafræði og sköpunarmætti athafnafrelsis og frjálsra viðskipta í þessu sambandi.

Þegar samkeppnisreglur hafa verið afnumdar gengur frjáls verðmyndun ekki upp. Miðstýrð verðlagning er því óhjákvæmilegt næsta skref. Það er bara spurning um tíma.

Miðstýringin vindur alltaf upp á sig.

Eftir sem áður

Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið hafa bent á að gildandi samkeppnisreglur heimila samvinnu og samruna fyrirtækja.

Í þessu tilviki þarf bara að sýna fram á að slík ráðstöfun styrki samningsstöðu bænda gagnvart fyrirtækjunum og bæti hag neytenda. Vinnslufyrirtækin treysta sér ekki til þess.

Jafnvel þótt horft sé fram hjá hagsmunum neytenda styrkir þessi aðgerð ekki einu sinni stöðu bænda. Þetta er því ekki lausn á vanda landbúnaðarins. Eftir sem áður mun draga í sundur með honum og öðrum atvinnugreinum.

Mismunurinn

Með miðstýrðum tíu ára opinberum framleiðsluáætlunum, sem kallast búvörusamningar, hefur tekist að fækka bændum verulega. Það hefur leitt til aukinnar framleiðni. Það má kalla árangur. En samt breikkar alltaf bilið milli landbúnaðar og annarra atvinnugreina og kjör bænda versna í samanburði við aðra.

Sjávarútvegurinn var líka miðstýrð atvinnugrein, sem rekin var á opinberu fiskverði eftir reiknilíkani sem kallaðist núllstefna. Fyrirtækin þraukuðu svo á reglubundnum bjargráðum stjórnvalda.

Síðustu þrjá áratugi hefur sjávarútvegurinn aftur á móti starfað á grundvelli markaðslögmála að mestu. Fyrirtækjum hefur fækkað og framleiðnin stenst heimssamanburð. Þegar spurt er um afkomu kemst enginn með tærnar þar sem sjávarútvegurinn hefur hælana.

Þetta er munurinn á miðstýringu og frjálsum markaðsbúskap.

Þessi mikla umbreyting í sjávarútvegi varð ekki án fórna. Á landsbyggðinni heyrast þó aðeins hjáróma raddir um að snúa til baka.

Blindgata

En þá segja einhverjir að ólíku sé saman að jafna því að sjávarútvegurinn selji afurðir sínar á heimsmarkaði. Þetta er kórrétt.

Klípan er þessi: Bændur eru orðnir svo fáir að áframhaldandi hagræðing með miðstýrðum tíu ára áætlunum um enn hraðari fækkun þeirra endar varla nema í blindgötu.

Án hagræðingar yrði blindgatan svo styttri.

Bjartsýni

Frá Landbúnaðarháskólanum berast hins vegar bjartsýnisraddir. Þar færa menn rök fyrir nýjum tækifærum og stóraukinni framleiðslu bæði í garðyrkju og kornrækt og jafnvel kjötframleiðslu.

Þessi bjartsýni krefst hins vegar umbreytinga. Nýsköpunin verður ekki hagkvæm nema með meira athafnafrelsi og aðgangi að stærri markaði.

Hún er því tálsýn meðan engar aðrar hugmyndir koma upp á ríkisstjórnarboðið en opinber miðstýring, aftaka samkeppnisreglna og ríkari tollvernd.

Til að auka framleiðni eru bara tvær leiðir færar: Önnur er að hraða meir en áður miðstýrðri fækkun bænda. Hin er aukið athafnafrelsi og stærri markaður. Hvorug leiðin er þrautalaus.

Til þessa hefur leiðin skipt meira máli en takmarkið. Þeirri hugsun þarf að snúa við.

Landbúnaðurinn getur aftur orðið lyftistöng fyrir landsbyggðina, en tæplega að óbreyttri stefnu. Umbreytingar krefjast langs aðlögunartíma. Tími nýrrar hugsunar er því runninn upp.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2022