Langtímaplan

Þorsteinn Pálsson

“Ég dáist að Arsenal. Þar á bæ ákvað fólk greinilega að vinna eftir einhverju langtímaplani. Gefa Arteta smátíma til að búa til lið.“

Þetta er tilvitnun í ummæli Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands í Fréttablaðinu um síðustu helgi. Þessi snotru orð lét forsetinn falla í garð Arsenal þótt hann sjálfur haldi með Manchester United.

Það er hvorki ætlun mín að skrifa um enska boltann né draga forsetann inn í pólitík. Ég hnaut bara um þetta orð: Langtímaplan.

Langtímastjórn

Á íslenskan mælikvarða er ríkisstjórnin orðin langtímastjórn. Heilbrigðismálin hafa frá fyrsta degi verið mikilvægasta viðfangsefni hennar.

Stöðug umræða um vandræði heilbrigðisþjónustunnar sýnir að samasemmerki kemur ekki sjálfkrafa á milli hugtakanna: langtímastjórn og langtímaplan.

Á öðru ári stjórnarsamstarfsins staðfesti heilbrigðisráðherra krabbameinsáætlun til 2030 og Alþingi samþykkti heilbrigðisáætlun til 2030. Í hvorugri áætluninni var verkefnum raðað í tímasetta forgangsröð og hvorug áætlunin var fjármögnuð.

Þessi skjöl áttu því lítið skylt við langtímaplan nema ártalið á forsíðu. Kannski skorti þáverandi heilbrigðisráðherra metnað. Hitt er líklegra að við ríkisstjórnarborðið hafi allir verið sammála um að engin leið væri fyrir jaðarflokka stjórnarinnar að ná saman um alvöru langtímaplan.

Málamiðlunin var að gera bara ekkert langtímaplan.

Samanburður

Áhugavert er að bera þetta saman við verklag tveggja danskra ríkisstjórna við tíu ára varnarmálaáætlun.

Í mars í fyrra gerði minnihlutastjórn sósíaldemókrata samkomulag við tvo stuðningsflokka og tvo stjórnarandstöðuflokka um varnarmálaáætlun til 2033. Á þeim tíma eiga framlög til varnarmála að hækka í áföngum í tvö prósent af þjóðarframleiðslu.

Ný meirihlutastjórn ákvað að hækka ekki skatta í þessu skyni. Í fyrsta áfanga felst fjáröflun til þessarar langtímaáætlunar í kerfisbreytingu með afnámi lögbundins frídags, kóngsbænadagsins. Þetta er orðið mikið hitamál.

Þrír af flokkunum, sem stóðu að sáttinni um varnarmálaáætlun og eru nú í stjórnarandstöðu, vilja halda í kóngsbænadaginn. Til þess að geta áfram talist aðilar að sáttinni verða þeir að koma fram með raunhæfan valkost um fjármögnun. Það hafa þeir gert.

Þarna nálgast menn viðfangsefnið með markvissum og ábyrgum hætti þótt tekist sé á um fjármögnunarleiðir.

Tímabært frumkvæði

Í þessu ljósi var áhugavert að lesa grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar í Fréttablaðinu fyrir tveimur vikum um nýja nálgun varðandi framkvæmd heilbrigðisáætlunar til 2030.

Þar sagðist hún hafa í hyggju að leggja fram þingsályktunartillögu um að ljúka þeim þætti hennar, sem skilinn var eftir fyrir fjórum árum. Tilgangurinn væri að leita eftir pólitískri samstöðu um að setja verkefni í tímaröð, tengja þau við fjármálaáætlun, ákveða hlutdeild heilbrigðisþjónustu í þjóðarútgjöldum og finna leiðir til fjáröflunar.

Mikilvægt er að eins verði tekið á krabbameinsáætluninni.

Engir kraftaverkamenn, hvorki í ráðuneytinu né inni í einstökum stofnunum, munu leysa þetta verkefni með skyndiaðgerðum.

Frumkvæðið í umræðunni er tímabært og lýsir skilningi á vandasömu langtíma viðfangsefni heilbrigðisráðherrans.

Fullreynt

Viðfangsefnið er hins vegar ekki einfalt.

Sumir flokkar telja að ekki þurfi að stækka sneið heilbrigðisþjónustunnar í þjóðarkökunni. Svo deila aðrir um hvort stækka eigi sneiðina með sköttum eða tilfærslum frá öðrum útgjaldaliðum eins og vaxtagjöldum, sem eru þau hæstu meðal vestrænna þjóða og kalla á kerfisbreytingu.

Eftir sex ár er fullreynt að jaðarflokkarnir í ríkisstjórninni finna ekki sameiginlega lausn á þessum úrlausnarefnum.

Þess vegna er eðlilegt að kanna möguleika á samstarfi um pólitíska hluta heilbrigðisáætlunarinnar með meiri þyngd á miðjunni, sem gæti aukheldur lifað ólík stjórnarmynstur á gildistímanum.

Dauður tími

Fram að kosningum eru bara tvö þing. Það er hæfilegur tími til samninga af þessu tagi.

Öllum þykir sjálfsagt að vinna að samgöngumálum með tímasettri og fjármagnaðri langtímaáætlun. Langtíma heilbrigðisáætlun kann að vera flóknari. En breið pólitísk samstaða um slíkt plan er jafn mikilvæg fyrir samfélagið.

Ríkisstjórnin treður bara marvaða til kosninga. Heilbrigðisráðherra gæti nýtt þann dauða tíma til þess að finna breiðan pólitískan grundvöll fyrir langtímaplan.

Ef vel tækist til mætti byrja að vinna eftir endurbættu plani strax í upphafi næsta kjörtímabils. Með því myndi ráðherrann marka djúp spor.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. janúar 2023