27 jan Ríkisstýrð hækkun
Ekki sér fyrir endann á verðhækkunum á matvöru og það má því miður búast við því að á mörgum heimilum þurfi að herða sultarólina áður en birtir til aftur. Því er sinnuleysi stjórnvalda dapurlegt og enn verra er að hluta hækkananna má beinlínis rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar sem hefur þar gætt hagsmuna annarra en heimila landsins.
Einstaka ljósa punkta má finna. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur hætt við að leggja fram frumvarp sem leyfir afurðastöðvum í sláturiðnaði að eiga með sér ólögmætt samráð. Ráðherra hætti við vegna alvarlegrar gagnrýni umsagnaraðila, sérstaklega Samkeppniseftirlitsins og Neytendasamtakanna sem sögðu málið einfaldlega aðför að neytendum.
Þetta eru góðar fréttir og óskandi að þær séu til marks um stefnubreytingu hjá stjórnvöldum og aukinn áhuga á hag heimilanna. Aðrar fréttir gefa þó aðra mynd.
Útboðsgjald sem innflytjendur þurfa að greiða til að fá að flytja inn búvörur án tolla frá ríkjum Evrópusambandsins, svokallaðir tollkvótar, hefur hækkað endurtekið síðustu ár og er nú svo komið að það er farið að slaga upp í fullan toll með tilheyrandi hækkandi verði–þvert á hagsmuni heimilanna. Þessi þróun eyðileggur samkeppni sem tollasamningurinn við Evrópusambandið átti að búa til á íslenskum matvörumarkaði.
Eins og mál hafa þróast virðist útboðsfyrirkomulagið vera dulbúin verndaraðgerð fyrir innlenda framleiðslu. Ýmsir innlendir framleiðendur kaupa kvóta í stórum stíl og geta þannig hindrað samkeppni við eigin vörur og stýrt verði. Eftir sitja heimili landsins með neikvæð áhrif einokunarinnar; hærra matarverð og minna úrval.
Nú virðist þolinmæðin gagnvart þessum skollaleik á þrotum enda einfaldlega ekki á byrðar heimilanna bætandi á tímum himinhárra krónuvaxta, verðbólgu og almennrar dýrtíðar. Þannig gerðu VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandið og Félag atvinnurekenda bókun við nýlega kjarasamninga sína með ósk um að stjórnvöld færu í vinnu við að afnema og lækka
tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla væri enda ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega.
Rétt fyrir jól óskaði Samkeppniseftirlitið eftir upplýsingum um eftirlit með útboði tollkvóta, hverjir tækju þátt í því og á hvaða forsendum. Einnig spurði Samkeppniseftirlitið um áhrif fyrirkomulagsins á verðlag og hvort það virkaði sem hvati til innlendra framleiðenda til betri rekstrar og nýsköpunar. Hvort fyrirhugaðar væru breytingar á fyrirkomulaginu. Og svo í ljósi þess að þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem Samkeppniseftirlitið gerir slíkar athugasemdir, hvort og þá hvernig stjórnvöld hafi nýtt sér fyrri tilmæli eftirlitsins.
Samkeppniseftirlitið óskaði eftir svörum ráðuneytisins eigi síðar en 16. janúar. Þau hafa ekki borist.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2023