15 feb Friður um fákeppni
Um fjórðungur íslenskra lántakenda hefur tekið á sig vaxtahækkanir af fasteignalánum af fullum þunga. Nokkur þúsund heimili losna auk þess undan föstum vöxtum á óverðtryggðum lánum á þessu ári og eiga ekki von á öðru en að greiðslubyrði þeirra muni þyngjast hraustlega. Og fjölmörg heimili flýja núna aftur yfir í verðtryggð lán til þess að milda höggið af vaxtahækkunum.
Við þessar erfiðu aðstæður ættu heimilin að hafa áhuga á öllum tillögum sem geta aukið samkeppni milli banka og þannig bætt stöðu lántakenda. Þannig ættu stjórnvöld alveg sérstaklega að vera vakandi fyrir því að tryggja virka samkeppni og þannig hagsmuni neytenda.
Þegar fjármálaráðherra svaraði því hvernig honum litist á mögulegan samruna Íslandsbanka og Kviku sagði hann að honum litist ágætlega á samrunann. Hann minntist sérstaklega á að honum litist vel á allt sem væri til þess fallið að bæta lánskjör sem á að geta skilað sér líka til heimila og fyrirtækja. Hann sagði þó um leið að á hinni vogarskálinni er auðvitað minni samkeppni, færri aðilar á markaði en bætti svo við að það væru takmörk fyrir því hvað okkar samfélag bæri margar stórar fjármálastofnanir.
Íslenskur bankamarkaður hefur samt því miður alltaf verið fákeppnismarkaður. Þessi fákeppni bitnar á heimilunum og fyrirtækjum í landinu. Samkeppniseftirlitið hefur gengið svo langt að lýsa stöðunni þannig að þrír stærstu bankarnir séu í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Sú staða hefur ekki reynst sérstaklega hagstæð fyrir almenning. Hverjir eru það þá sem eru líklegastir til að njóta ábata af þeim samruna sem nú er verið að ræða? Það eru hluthafarnir.
Í því sambandi verður að taka með í reikninginn að ríkið á sjálft 42,5% hlut í Íslandsbanka. Íslenska ríkið gæti þess vegna beitt neitunarvaldi á samrunann á hluthafafundi. En þetta neitunarvald er hins vegar í höndum Bankasýslu ríkisins sem fjármálaráðherra boðaði með fréttatilkynningu að hann ætlaði að leggja niður og innleiða eitthvert annað fyrirkomulag. Nýtt fyrirkomulag hefur enn ekki litið dagsins ljós en umboðsvandi Bankasýslunnar blasir því við.
Bankasýslan hefur það verkefni samkvæmt lögum að fara með atkvæði ríkisins á hluthafafundum. Bankasýslan hefur líka það hlutverk að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði. Stofnunin þarf því að athuga hvort það verð sem hluthafar Íslandsbanka fái við samruna sé ásættanlegt – en þar þarf ekki síður að meta neikvæð áhrif á samkeppni. Þarna vegast sem sagt á hagsmunir um verð og samkeppni. Hagræðing og samkeppni. Almenningur hefur meiri hagsmuni af samkeppni en hlutabréfaverði.
Orð fjármálaráðherra um ágæti samrunans benda til að hann hafi þegar gert upp hug sinn. Almenningur finnur nú verulega fyrir hækkunum á matvöru, þungum áhrifum verðbólgu og hærri vöxtum. Þessi staða bitnar mest á ungum fjölskyldum.
Er mögulegt við þessar aðstæður að fákeppni sé tekin fram yfir virkari samkeppni? Eða að hærra hlutabréfaverð trompi hagsmuni heimila og fyrirtækja af samkeppni á bankamarkaði? Er það raunveruleikinn sem við viljum búa fjölskyldum á Íslandi?
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. febrúar