09 feb Kapítalismi og samkeppni
Kapítalismi er ekki hrífandi orð. En fram hjá því verður ekki horft að samhliða velferðarþjónustunni skapar hann eftirsóknarverð gæði fyrir fjöldann. Bankar eru svo musteri kapítalismans.
Samkeppni er ásamt eignarrétti forsenda kapítalisma. Það þýðir að því minni sem samkeppnin er því minni er kapítalisminn. Af sjálfu leiðir að hvergi er virk samkeppni mikilvægari en einmitt á markaði fjármálafyrirtækja.
Góð tíðindi
Samkeppni milli þriggja stærstu bankanna hefur lengi verið ófullkomin. Samt bólar stundum á henni.
Um miðjan nóvember greindi forstjóri Kviku banka frá því að frumkvæði bankans að nýrri og kostnaðarlítilli tæknilausn hefði haft umtalsverð samkeppnisáhrif með hærri innlánsvöxtum. Hann reiknaði með að frumkvæðið hefði skilað heimilunum um tíu milljörðum króna á einu ári.
Þetta er dágóð upphæð, sem skiptir heimilin máli, þótt hún sé ef til vill ekki stórt hlutfall af heildarumfangi bankanna.
Tíðindi af þessu tagi eru svo fá að þau hefðu verðskuldað meiri athygli en raun varð á. Þau sýna að samkeppni er möguleg.
Svo lengi sem
Eigendur Íslandsbanka þurfa nú að taka afstöðu til óska Kviku banka um samrunaviðræður. Það væri lítið umhugsunarefni fyrir almenning nema fyrir þá sök að ríkissjóður á enn ríflega tvo fimmtu hluta bankans.
Það er fullkomlega eðlilegt að eigendur bankanna sjái sóknarfæri í sameiningu og möguleika til þess að auka verðmæti hlutabréfa sinna svo lengi sem samkeppni er nægjanlega virk til að tryggja viðskiptavinum, heimilum og fyrirtækjum, eðlilega hlutdeild í væntum ávinningi.
Nýr banki yrði aukheldur að stórum hluta í félagslegri eigu ríkissjóðs og lífeyrissjóða. Að sama skapi myndi ávinningurinn styrkja eignastöðu félagslega hluta þjóðarbúsins.
Mögulega bætir samruni hag neytenda. Líkur á því hafa þó enn ekki verið leiddar í ljós.
Vandinn
Eini vandinn í þessu máli felst í hinu að ríkissjóður er ekki venjulegur eigandi að fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
Almennir hluthafar láta reyna á afstöðu Samkeppniseftirlitsins eftir að þeir hafa komist að niðurstöðu. Það eru eðlilegar leikreglur.
Ríkið á hins vegar að hafa skoðun á því samtímis hvort samruni sé hagkvæmur og samkeppni næg til að neytendur tapi ekki.
Þetta leiðir einfaldlega af því að samkeppni og neytendavernd eru kjarnaviðfangsefni ríkisins en ekki annarra hluthafa.
Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar benda hins vegar til þess að hún ætli ekki að leggja sjálfstætt mat á samkeppnisstöðuna.
Pólitík
Þessi afstaða þarf ekki að brjóta í bága við lög. Hún endurspeglar bara sameiginlega pólitík stjórnarflokkanna varðandi samkeppni og neytendavernd.
Lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum segja skýrt að það skuli ávallt vera markmið með sölu að efla virka og eðlilega samkeppni. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að fyrir fram skuli meta samkeppnisáhrifin.
Í bæði skiptin sem sala á bréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka hefur farið fram var þessi lagaskylda virt að vettugi. Athyglisvert er að eftirlitsaðilar hafa ekki gert athugasemdir við það, jafnvel ekki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Að þessu leyti er lagaumgjörðin of veik þegar ríkisstjórnir sitja, sem líta á samkeppni sem víkjandi markmið en ekki forsendu markaðsbúskapar. Slík sjónarmið þekkjast lengst til hægri og lengst til vinstri.
Skyldurækinn ráðherra
Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2018 segir að stofnist til nýrra yfirráða við sölu á eignarhlut þyrftu stjórnvöld þegar við undirbúning slíkra ákvarðana að taka afstöðu til þess hvort í henni felist skerðing á samkeppni, sem leitt geti til íhlutunar eftirlitsaðila.
Í því ljósi ætti að vera ákvæði í eigendastefnu ríkisins, sem gerði fulltrúum skattborgaranna á hluthafafundum fjármálafyrirtækja að gera fyrir fram rökstudda grein fyrir mögulegum samkeppnisáhrifum ákvarðana um samruna.
Frá sjónarmiði almannahagsmuna er samkeppnin mikilvægari en hlutabréfaverðið. Þess vegna þurfa þeir sem fara með eignarhlut ríkisins að hugsa öðruvísi en aðrir hluthafar. Það er fylgifiskur opinbers eignarhalds.
Skyldurækinn ráðherra samkeppnismála myndi núna taka málið upp á borð ríkisstjórnar og óska eftir að eigendastefna ríkisins yrði gerð skýr og afdráttarlaus um þessi efni áður en fulltrúar ríkisins taka afstöðu.