17 mar Leyndó í beinni útsendingu
Nýjustu vendingar í málefnum Lindarhvols eru sennilega þær furðulegustu hingað til. Hjá ríkisstjórnarflokkunum hefur farið gríðarleg orka í að koma í veg fyrir að almenningur fái að sjá greinargerð sem einn ríkisendurskoðandi vann um Lindarhvol, en hún stangast í veigamiklum atriðum á við skýrslu sem annar ríkisendurskoðandi gerði um sama mál.
En í vikunni fékk meirihlutinn í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd algerlega brilljant hugmynd. Ný og frumleg nálgun sem á bæði að svala kröfu almennings um aukið gagnsæi, en um leið að viðhalda leyndinni tryggilega. Sigurður Þórðarsson, settur ríkisendurskoðandi, verður boðaður fyrir nefndina á opinn fund en greinargerðin verður áfram sveipuð leyndarhjúpi.
Gagnsæið er orðið svo mikið og upplýsingagjöfin svo yfirþyrmandi að halda á fund í beinni útsendingu um trúnaðarmál sem þingmennirnir vilja opinbera en ætla samt ekki að gera það.
Settur ríkisendurskoðandi á að sitja fyrir svörum um eitthvað sem engin veit hvað er og ekki má tala um -og alls ekki spyrja um – þótt ríkisstjórnarflokkunum finnist að samtalið eigi að fara fram fyrir opnum tjöldum í trúnaði. Þetta opinbera trúnaðarsamtal í beinni útsendingu um trúnaðargögnin fer fram eftir helgi þar sem sá sem situr fyrir svörum má alls ekki svara vegna trúnaðar.
Þegar ég vann í sjónvarpinu voru svona trúnaðarmál sem ræða þurfti opinberlega afgreidd þannig að gesturinn var blörraður og röddinni breytt.
Í tilfelli Alþingis er annar kostur í boði og hann er talsvert betri. Afléttum trúnaði af greinargerðinni og ræðum opinberlega, efnislega og án trúnaðar, í beinni útsendingu, hvernig farið var með fjármuni almennings. Hundruð milljarða. Almenningur á rétt á því.
Þessi fyrirhugaði farsi stjórnarmeirihlutans um leyndardóma Leyndarhvols er með þeim lélegri á dagskrá Alþingis í manna minnum.