Sleggjudómur

Þorsteinn Pálsson

Banka­stjóri Seðla­bankans mætti fyrir þing­nefnd í síðustu viku, sem ekki er í frá­sögur færandi. Hitt er um­hugsunar­efni að það sem helst þótti tíðindum sæta var stað­hæfing hans um að verð­bólga á Ís­landi væri marg­falt hærri ef við værum með evru.

Engu er líkara en banka­stjórinn hafi gleymt því eitt augna­blik að um þriðjungur þjóðar­fram­leiðslunnar er á höndum fyrir­tækja sem nota evrur eða dollara.

Að­gerðir bankans í peninga­málum ná ekki til þessa hluta hag­kerfisins. Fyrir vikið eru það einkum minni fyrir­tæki og kaup­endur fyrstu í­búða, sem bera allan þunga að­halds­að­gerða í peninga­málum.

Ó­sam­kvæmni

Um­mæli banka­stjórans eru ekki byggð á saman­burðar­at­hugun. Engin töl­fræði í gagna­safni bankans rennir stoðum undir stað­hæfinguna. Hún er því hreinn sleggju­dómur.

For­ysta banka­stjórans í peninga­stefnu­nefnd hefur ekki gefið til­efni til gagn­rýni. Nefndin hefur að­eins tekið fag­legar á­kvarðanir. Þar hefur banka­stjórinn staðið sig vel.

Í­trekaðir sleggju­dómar í póli­tískri um­ræðu grafa aftur á móti undan trú­verðug­leika hans.

Þetta kristallast vel í því sam­hengi að banka­stjórinn lýsti engum á­hyggjum af því á fundi þing­nefndarinnar að á­hrifa­vald bankans næði ekki til þeirra sem nota evrur og dollara.

Eina rök­rétta á­lyktunin, sem draga má af þögninni um þá stað­reynd, er sú að banka­stjórinn telji að sá hluti þjóðar­bú­skaparins, sem notar evrur og dollara, valdi alls ekki þenslu, þver­öfugt við sleggju­dóminn.

Mis­munun

Önnur skýring kann þó að vera á þessari ó­sam­kvæmni. Hún er sú að ríkis­stjórninni finnist ein­fald­lega rétt að nota fjöl­mynta­kerfið til að í­vilna sumum en í­þyngja öðrum.

Í raun virkar fjöl­mynta­kerfið eins og þrepa­skiptur tekju­skattur. Mis­munurinn er bara sá að þeir sem best standa að vígi eru í lægsta vaxta­skatt­þrepi en hinir sem lakar standa, minni fyrir­tæki og ein­staklingar, eru í því hæsta.

Al­þingi tekur þessa pólitísku á­kvörðun alveg eins og það á­kveður tekju­skatts­þrepin. Skatta­stefna ríkis­stjórnarinnar byggist á jöfnuði en gjald­miðla­stefnan á ó­jöfnuði. Þannig má segja að peninga­stefnan eyði jöfnunar­á­hrifum skatta­stefnunnar.

Þetta er pólitík en ekki hag­fræði. Seðla­banka­stjóri hefur rétti­lega gætt þess að gagn­rýna ekki ríkis­stjórnina fyrir þessa pólitík. Hins vegar er hann í stöðugu pólitísku stríði við þá flokka í stjórnar­and­stöðu, sem vilja að gjald­miðla­stefnan byggist á hug­myndinni um land jafnra tæki­færa og stuðli fremur að jöfnuði en ó­jöfnuði.

Fyrir­mynd

Gylfi Zoega hag­fræði­prófessor lét ný­lega af setu í peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans. Hann skrifaði grein í Vís­bendingu um þessa mis­munun og sagði þar að á Ís­landi væru þrjár þjóðir.

Niður­staða hans er skýr: „Af­leiðing þessarar skiptingar þjóðarinnar eru þær að vaxta­breytingar Seðla­bankans koma einungis við fyrsta hópinn, fólkið sem lifir og hrærist í krónu­kerfinu, en ekki við stærstu út­flutnings­fyrir­tækin eða aðra sem eru fyrir utan krónuna.“

Í um­ræðu­þættinum á Sprengi­sandi um síðustu helgi sagði prófessorinn að hann hefði lengi verið þeirrar skoðunar að Ís­land ætti að stíga loka­skrefið til fullrar aðildar að Evrópu­sam­bandinu. Hann hefði hins vegar ekki látið þær skoðanir í ljós fyrr en nú vegna setu sinnar í peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans.

Þarna hefur Seðla­banka­stjóri góða fyrir­mynd. Þeir sem fara með fag­legt á­kvörðunar­vald í peninga­málum lýsa ekki pólitískri sýn á leik­reglurnar fyrr en þeir láta af störfum.

Betra verk­færi

Mál­efna­leg um­ræða um þetta stóra við­fangs­efni er mikil­væg. Gjald­miðillinn ræður svo miklu um af­komu heimila og sam­keppnis­stöðu fyrir­tækja.

Evran mun ekki sjálf­krafa leysa þau efna­hags­legu vanda­mál, sem heitast brenna á fólki. Menn byggja bæði vönduð og ó­vönduð hús þótt allir noti sama tommu­stokk. En af hinu hlytist ekkert nema vondur hræri­grautur ef bygginga­meisturum væri gert að nota þrjár eða fjórar mis­munandi mæli­einingar.

Verð­bólgan hverfur ekki með evru. Sterkur gjald­miðill auð­veldar okkur bara að ná mark­miðum um stöðug­leika og að gera Ís­land að landi jafnra tæki­færa.

Við höfum reynslu af þátt­töku í al­þjóð­legu gjald­miðla­sam­starfi. Hún sýnir að þá vegnar okkur betur.

Það er slæmt þegar Seðla­banka­stjóri lítur á það sem pólitískt hlut­verk sitt að kæfa nauð­syn­lega um­ræðu um þessa brota­löm í þjóðar­bú­skapnum. Hitt er sýnu verra þegar það er gert með sleggju­dómum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars 2023