28 mar Stöðvum þrettándu vaxtahækkunina
Næstu dagar munu hafa úrslitaáhrif á stöðu efnahagsmála hér á landi, en þá kemur ríkisstjórnin til með að leggja fram og ræða þýðingarmikla fjármálaáætlun á þinginu. Eftir skörp skilaboð frá Seðlabankanum í síðustu viku liggur ljóst fyrir að ætli ríkisstjórnin að taka ábyrgð á þeim bráðavanda sem dynur á íslenskum heimilum vegna verðbólgunnar dugir ekkert hálfkák. Stöðva þarf linnulausan hallarekstur ríkissjóðs undanfarin ár. Sá hallarekstur var hafinn fyrir faraldur. Mikilvægt er að senda skýr skilaboð um að ætlunin sé að draga saman seglin. Seinkun á birtingu fjármálaáætlunar er vonandi merki um að ríkisstjórnin ætli að taka hlutverk sitt alvarlega í þessu efni.
Margir freistast nú til þess að gagnrýna ríkisstjórnina vegna efnahagsstjórnar síðastliðin ár og stöðunnar sem upp er komin. Viðreisn hefur, ásamt seðlabankastjóra, Samtökum atvinnulífsins og fleirum, bent á það um langa hríð að taka verði í handbremsuna í ríkisútgjöldum sé ætlunin að mæta verðbólgunni. En það þýðir lítið að líta í baksýnisspegilinn úr þessu. Til þess er staðan of alvarleg. Heimilin í landinu eru undir. Ákvarðanir sem teknar verða næstu daga og vikur munu einfaldlega hafa úrslitaáhrif á það hvernig verðlag þróast hér á landi. Viðreisn mun beita sér fyrir öllum þeim hugmyndum sem gagnast heimilunum í landinu í þeirri baráttu. Hér duga engir flokkadrættir.
Tökum seðlabankastjóra alvarlega
Verðbólgan kemur langmest niður á heimilunum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem munu bera skarðan hlut frá borði verði ekkert að gert. Matarkarfan verður sífellt dýrari og afborganir af lánum líka. Við það getur Viðreisn ekki unað. Seðlabankastjóri hefur ítrekað kallað eftir því að ríkisstjórnin spili með í því markmiði að ná niður verðbólgu en engu að síður eru útgjöld ríkisins enn of mikil.
Það þarf aðhald. Viðreisn hefur viðrað ýmsar tillögur í því skyni. Til að mynda um ráðningarbann hjá hinu opinbera, að undanskildum heilbrigðis- og menntastofnunum, á meðan böndum er komið á verðbólguna. Einnig væri útgjaldaregla sem ýtir undir aðhald og aga við stjórn ríkisfjármála hjálpleg í þessum aðstæðum. Þá höfum við talað fyrir niðurfellingu tolla svo fjölskyldur finni ekki jafn mikið fyrir verðhækkunum á matvöru og tímabundna niðurfellingu tryggingagjalds svo minni fyrirtæki geti ráðið úr sínu. Viðreisn er reiðubúin að veita öllum góðum hugmyndum sem auðvelda líf fólks og koma böndum á verðbólgu brautargengi.
Skammtíma- og langtímalausnir
Allir vita svo hvað Viðreisn telur lausnina við efnahagssveiflum hér á landi til langrar framtíðar, því þetta þarf ekki að vera svona. Unga fólkið á ekki að þurfa að reyna, kynslóð fram af kynslóð, sannleiksgildi sögunnar af afa og ömmu sem misstu allt verðskyn í verðbólgufári þegar það eina sem hægt var að gera við krónuna var að eyða henni. Við áttum okkur hins vegar á að ekki er raunhæft markmið að ætla sér að leysa gjaldmiðlamál þjóðarinnar strax í dag þótt þá vegferð þurfi að hefja sem fyrst í þágu almannahagsmuna. Svo við lendum ekki í þessari verðbólgu- og vaxtahringekju aftur og aftur.
Þangað til þurfum við að snúa bökum saman til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar, heimilunum til hagsbóta, og fara í hagræðingu í ríkisrekstrinum. Skiljum seðlabankastjóra ekki einan eftir í súpunni.
Í þeim efnum mun ekki standa á Viðreisn.