30 mar Þjóðarsátt um eitthvað
Fá hugtök hafa jafn jákvæða skírskotun og þjóðarsátt. Það á rætur í velheppnaðri kerfisbreytingu fyrir 33 árum.
Aðgerðin fékk ekki heitið þjóðarsátt fyrir fram. Það gerðist þegar í ljós kom að hún skilaði góðum árangri bæði fyrir launafólk og fyrirtæki.
Þjóðarsáttin byggðist ekki á vinsældaaðgerðum eins og auknum millifærslum og skattalækkunum. Kjarninn í óskum forystumanna launafólks og atvinnurekenda snerist hins vegar um grundvallarumskipti í efnahagslífinu: Að fastgengi yrði fest í sessi í stað sveigjanlegrar gengisstefnu.
Þessu fylgdu nokkrar hliðarráðstafanir. Á grunni þessarar miðjuhugmyndafræði var unnt að tryggja stöðugleika og verja kaupmátt með hófsömum kjarasamningum í áratug.
Vinsældaaðgerðir
Þjóðarsáttarhugtakið hefur síðan skotið upp kolli með reglulegu millibili án þess að menn hafi velt mikið fyrir sér um hvað sáttin ætti að snúast.
Nú er hald flestra að þjóðarsátt felist í því að ríkissjóður taki á sig í einu eða öðru formi þær launakröfur, sem atvinnulífið segir að verðmætasköpun þjóðarbúsins standi ekki undir.
Vinsælar ráðstafanir af þessu tagi eru skammgóður vermir. Verðbólguáhrif af innistæðulausum launahækkunum koma fram strax. En séu vinsælar lausnir ríkissjóðs ekki að fullu fjármagnaðar, með óvinsælum aðgerðum, koma verðbólguáhrifin bara fram síðar.
Þetta er ein skýringin á því að við búum nú við jafn mikla verðbólgu og þær þjóðir sem glíma við orkukreppu.
Skekkjur
Þjóðarbúskapurinn blómstrar. En samt eru í honum skekkjur, sem valda misrétti og draga úr hagkvæmni. Afleiðingarnar koma meðal annars fram í minni hagvexti á mann en í grannlöndunum, óstöðugleika og ókyrrð á vinnumarkaði.
Á uppgangsárunum eftir seinna stríð vorum við með svokallað fjölgengi. Gengi krónunnar var misjafnt eftir því hvað menn voru að fást við. Nú notum við marga gjaldmiðla. Þetta veldur sams konar samkeppnisskekkju í atvinnulífinu.
Lengi vel greiddu fyrirtæki mismunandi vexti eftir pólitískum ákvörðunum. Nú búa venjuleg lítil og meðalstór fyrirtæki í allt öðru vaxtahagkerfi en útflutningsfyrirtækin. Seðlabanki Íslands stjórnar öðru en Seðlabankar Evrópu og Bandaríkjanna hinu.
Misréttið bítur svo enn fastar þegar kemur að ungu fólki. Það borgar með vöxtum þrjár íbúðir en fær eina. Í Danmörku borgar það eina og hálfa íbúð og fær eina eins og íslensk útflutningsfyrirtæki.
Pilsfaldakapítalismi
Eftir stríð vorum við með gjaldeyrishöft og innflutningshöft. Nú erum við ekki með innflutningshöft en rúmlega heila þjóðarframleiðslu í gjaldeyrishöftum vegna takmarkana á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða. Engin vestræn þjóð er með jafn umfangsmikil gjaldeyrishöft.
Þetta veldur því að gamla krónan er óhæfur mælikvarði á hagkvæmni og verðmætasköpun. Þess vegna verða útflutningsfyrirtækin að nota erlendar myntir.
Í annan stað valda þessi gjaldeyrishöft því að skattpeningar almennings í lífeyrissjóðum eru uppistaðan í eiginfé allra banka og allra helstu fyrirtækja í viðskiptum við bankana. Þetta er mesti pilsfaldakapítalismi á Vesturlöndum.
Þrjár leiðir
Hvað er til ráða?
Ein leið er að hjakka í sama farinu. Hitt er bara spurning um tíma hvenær það endar með ósköpum. Ríkisstjórnin er á þeirri vegferð.
Önnur leið er kerfisbreyting eins og 1960 og 1990 með félagslegum hliðarráðstöfunum. Nýr stöðugri gjaldmiðill, jafnari samkeppnisstaða, afnám fjármagnshafta og aukið einkafjármagn í atvinnulífinu. Viðreisn talar fyrir miðju-hugmyndafræði af þessu tagi.
Þriðja leiðin er að fara lengra til vinstri með millifærslum eins og í gamla daga. Þá verða útflutningsfyrirtækin í hagstæða vaxtahagkerfinu skattlögð til að færa peninga til ungra húsnæðiskaupenda í óhagstæða vaxtahagkerfinu. Samfylkingin kúventi frá kerfisbreytingaleið yfir í þessa millifærsluleið í haust sem leið.
Valið
Viðreisn og Samfylking skilgreina skekkjuna í hagkerfinu og misréttið eins, en velja ólíkar hugmyndafræðilegar lausnir.
Millifærsluleiðin er betri en að hjakka í sama farinu, en er samt arfavitlaus hagfræði. Það er skynsamlegra og haldbetra að ná fram bæði réttlæti og heilbrigðu efnahagsumhverfi með kerfisbreytingu.
Líklegt er að forsætisráðherra reyni fremur að þróa þjóðarsáttarumræðuna í átt að vinstri lausnum Samfylkingar en miðjuhugmyndafræði Viðreisnar. Spurningin er hversu langt sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru tilbúnir að fara í þá átt.
Svo gætu kjósendur bara valið leið í næstu kosningum.