10 ágú Auðlindasátt
Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er að skapa sátt um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og tryggja að almenningur njóti sanngjarns afraksturs þeirra. Þetta er sérstaklega mikilvægt hér á landi þar sem efnahagur okkar Íslendinga byggir mjög mikið á náttúruauðlindum sem eru flestar í almenningseign.
Norðmenn hafa náð góðum árangri á þessu sviði með uppboðum á olíuréttindum og fiskeldisleyfum. Markaðslausnir eru notaðar og þjóðarsjóðurinn fær arðinn.
Almennt ríkir sátt um afrakstur orkuauðlindanna hér á landi en hagnaður af þeim kemur til almennings að mestu í formi arðgreiðslna í sameiginlegan sjóð landsmanna frá fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, Rarik, Landsneti og Orkuveitu Reykjavíkur svo nokkur dæmi séu nefnd.
Öðru máli gegnir um sjávarauðlindirnar okkar
Skoðanakannanir sýna óánægju almennings með framkvæmd kvótakerfisins og hve afrakstur fiskveiðiheimilda og fiskeldisleyfa er rýr fyrir almenning og hvað veiðiheimildir og arðurinn af þeim hefur færst á fáar hendur. Mikil umræða hefur verið um það hvernig kvótinn hefur færst milli kynslóða kvótahafa.
Rúm 56 prósent landsmanna eru frekar ósátt eða mjög ósátt við fiskveiðistjórnunarkerfið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun vann fyrir matvælaráðuneytið. Rúm 83 prósent landsmanna telja auðlindagjöld eiga að vera hærri
Þetta gerist þrátt fyrir að stjórn fiskveiða hefur áratugum saman fært þjóðinni mikil auðæfi úr sjávarauðlindinni og tryggt sjálfbærni hennar. Útgerðarfyrirtækin hafa staðið sig almennt vel í að þróa skip og veiðitækni og vinnslustöðvarnar eru margar á heimsmælikvarða.
Auðlindanefndin
Jóhannes Norðdal fyrrverandi seðlabankastjóri var formaður auðlindanefndar um aldamótin. Hann segir frá því í síðasta kafla ævisögu sinnar að hann hafi verið beðinn að taka að sér formennsku í nefnd sem átti að fjalla um auðlindir í þjóðareign og mögulega gjaldtöku af nýtingu þeirra.
Nefndin gerði tillögur um hagkvæma nýtingu auðlindanna og hvernig mætti tryggja eðlilega og sanngjarna hlutdeild samfélagsins í auðlindarentunni. Gerðar voru tillögur um tímabundin afnot auðlinda gegn hæfilegu gjaldi.
Tillögur nefndarinnar voru tvíþættar. Lögð var til álagning sérstaks auðlindagjalds og að ákveðinn hluti aflaheimilda yrði fyrndur árlega og endurseldur á markaði.
Jóhannes lagði áherslu á að „leitað yrði nýrra leiða til að byggja álagningu veiðigjalds á markaðslegu mati á virði auðlindarentunnar“ svo vitnað sé í bókina hans.
Fyrningarleiðin
Ekki náðist samkomulag í nefndinni um að fara fyrningarleiðina annars vegar eða innheimta veiðigjald sem hluta af auðlindarentu hins vegar. Jóhannes segir í ævisögu sinni að framhjá deilum um veiðigjöld og mati á auðlindarentu væri hægt að komast með fyrningarleiðinni eins og hún er kölluð í skýrslu auðlindastefnunefndarinnar.
Skoðun Jóhannesar á málinu var að allar aflahlutdeildir (kvótar) yrðu fyrndar um ákveðna lága prósentu á ári hverju. Þær gengju aftur til ríkisins en yrðu jafnóðum seldar aftur til útgerðarfyrirtækjanna á uppboði eða opnum markaði. Þannig mundi útgerðin sjálf verðleggja auðlindarrentuna í frjálsri samkeppni.
Jóhannes var á þeirri skoðun að þessi leið myndi stuðla að þróun virkra markaðsviðskipta með aflahlutdeildir sem mundi bæði auka sveigjanleika sjávarútvegsins og gefa skýrar vísbendingar um það hvers virði auðlindin væri útgerðinni.
Í dag, um 23 árum síðar, er enn verið að deila um veiðigjöld, útreikning þeirra og viðmið.
Ég er sammála Jóhannesi Nordal í þessum efnum og tel að sátt náist ekki nema að gjöldin verði byggð á markaðslegum forsendum.
Auðlindir í aldanna rás
Íslendingar hafa um aldaraðir notið þess að hafa öflugar náttúruauðlindir. En við höfum verið dugleg við að gefa þær.
Frá fimmtándu öld veiddu enskir, þýskir og franskir sjómenn á Íslandsmiðum óáreyttir og ókeypis. Norskir hvalfangarar veiddu hvali að vild á 19. öldinni og síðan komu norskir síldarbátar og veiddu í síld án þess að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Við gátum lítið gert til að stöðva þetta auðlindarán, fátæk þjóð með engin tæki til að stöðva ránið.
En við náðum síðan að stækka landhelgina okkar með mikilli baráttu. Fyrst í 3 mílur, svo í 12, síðan 50 og loks í 200 sjómílur. Þannig eignuðumst við fiskveiðiauðlindina okkar aftur.
Norskir fjárfestar keyptu vatnsréttindi í Þjórsá í upphafi tuttugustu aldar og Norðmenn hafa eignast fiskeldisleyfi í íslenskum fjörðum síðustu árin án þess að greiða markaðstengt gjald fyrir þau.
Aðgangur ferðamanna að náttúruperlum landins er í flestum tilfellum ókeypis í dag. Það hlýtur að koma að því að aðgangurinn verði verðlagður enda um eina verðmætustu auðlind landsins okkar.
Ókeypis afnot af veiðiheimildum
Þeir sem voru svo heppnir að veiða botnfisk í 36 mánuði fyrir árið 1984 eignuðust fiskimiðin okkar að eilífu þar sem veiðiheimildirnar eru ótímabundnar.
Spyrja má hvort ætlunin sé að þeir sem úthlutað var aflaheimildum í upphafi, erfingjar þeirra og aðrir þeir sem keypt hafa heimildirnar af þeim, skuli fá nánast ókeypis afnot af þessum verðmætu auðlindum í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð.
Afkomendur hinna heppnu munu eiga kvótann næstu aldirnar þar sem veiðiheimildirnar eru ótímabundnar. Spyrja mætti hvort það sé sanngjarnt gagnvart okkur hinum sem eigum engar veiðiheimildir en eigum þó kvótann sem er þjóðareign.
Verðmæti kvótans á markaði er í dag um 1500 milljarðar króna Hver meðalfjölskylda í landinu á þannig um 12 milljóna króna kvótaeign samkvæmt lögum en ekkert eins og kerfið er í dag.
Greiðsla fyrir auðlindaafnot
Fyrir veiðiheimildirnar eru greiddir um 7 milljarðar á ári í aflagjöld sem er undir 0,5% af verðmætinu. Þeir peningar duga ekki til að halda úti rannsóknum og eftirliti ríkisins með veiðunum
Kvótakerfið hefur almennt reynst vel við stjórnun fiskveiða en spurt er hvort afrakstur auðlindarinnar eigi ekki að koma í allri þjóðinni til góða í auknum mæli.
Afkoma sjávarútvegsins er um það bil þrefalt betri en annarra fyrirtækja í landinu mælt í ebitda-hlutfalli af veltu og arðsemi eiginfjár. Þegar ársreikningar sjávarútvegsfyrirtækjanna eru skoðaðir virðist vanta einn lið á kostnaðarhliðinni: „Greiðsla fyrir afnot af auðlind“.
Viðreisn vill sátt í sjávarútvegi
Viðreisn er eini flokkurinn á þingi sem er með skýra stefnu um að breyta þessu kerfi en tillögur flokksins byggja meðal annars á niðurstöðum auðlindanefndar Jóhannesar Nordal frá árinu 2000.
Stefna flokksins er sú að aflaheimildir verði tímabundnar en ekki til eilífðar eins og nú er. Viðreisn vill að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir fiskveiðiheimildirnar sem eru auðlind sem íslenska þjóðin á sameiginlega.
Viðreisn vill að í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og boðinn út sem nýtingarsamningur til 20 ára, með því yrði pólitískri óvissu eytt og fyrirsjáanleiki greinarinnar þar með meiri auk þess sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni væri staðfest.
Með þessum hugmyndum Viðreisnar fæst sanngjarnt markaðsverð fyrir kvótann sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar. Umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar enda er stöðug pólitísk óvissa mjög neikvæð fyrir sjávarútveginn.
Viðreisn vill sátt um sjávarútveginn. Útgerðarmenn ættu að fagna stefnu flokksins sem myndi eyða pólitískri óvissu í þessari mikilvægu atvinnugrein en í dag er þar aðeins hægt að gera áætlanir til fjögurra ára – til næstu kosninga.