Frítt í strætó fyrir Garð­bæinga!

Það var dapurlegt að fá neikvæð viðbrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar við tillögu okkar og Garðabæjarlistans um að Garðabær tæki þátt í verkefninu um næturstrætó. Fyrir liggur að Reykjavík, Mosfellsbær og núna síðast Hafnarfjörður ætla að taka aftur upp þjónustu um næturstrætó úr miðborg Reykjavíkur. Fulltrúar meirihlutans og framsóknar höfnuðu þátttöku í kostnaði við næturstrætó sem nú ekur öllum sem kjósa úr miðbænum og alla leið til Hafnarfjarðar.

Það er í okkar huga ekki bara öryggismál að fólk eigi tryggan og ódýran valkost til þess að komast heim að næturlagi, hvort sem fólk var að skemmta sér eða vegna annarra erinda eins og til dæmis að komast heim frá næturvinnu, heldur er líka mikilvægt að bregðast við langri bið eftir leigubíl sem getur sett fólk í ótrygga stöðu.

Þetta er einkar hagfelld niðurstaða fyrir Garðbæinga, því strætó mun stoppa í Garðabænum og því munu Garðbæingar komast með strætó heim til sín með næturstrætó þegar keyrt er í gegnum bæinn. Það má því segja að það verði frítt í strætó fyrir Garðbæinga, en kostnaður greiddur af Hafnfirðingum.

Greinin birtist fyrst á Vísi 5. september 2023