Við getum ekki að alltaf treyst á að vera heppin

 

 – Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Tækifærin til að gera betur fyrir Ísland blasa við okkur. Tækifæri næstu ríkisstjórnar til að starfa fyrir fólkið í landinu.

En núverandi ríkisstjórn náði sér á ofboðslega gott flug í sumar – eftir að hún fór að vinna eins og hún sé öll í stjórnarandstöðu. Og með fullri virðingu fyrir okkur sem erum í stjórnarandstöðu þá eru það ráðherrarnir sem eiga vinninginn þegar kemur að því að kæfa mál ríkisstjórnarinnar. Auðvitað má brosa að opinberum rifrildum og skriðtæklingum í samherja. En þetta ástand þýðir að mikilvæg verkefni þurfa að bíða næstu ríkisstjórnar.

Staðan núna er að bara vextirnir af skuldum ríkisins kosta 110 milljarða í ár. 110 milljarða. Þessi ævintýralegi vaxtakostnaður hefur auðvitað áhrif á þjónustu við fólk í landinu. 

Fjármálaráðherra birtist svo eins og töframaður með orð eins og afkomubati og frumjöfnuður. Staðan sé frábær, ef þú bara lætur skuldirnar hverfa. Og samt talar Sjálfstæðisflokkurinn eins og honum einum sé treystandi fyrir peningaveskinu. 

– Þú getur horft á ræðuna hérna: Texti ræðunnar heldur áfram hér fyrir neðan

Fólkið í landinu veit að það er ekki hægt að gleyma skuldunum sínum. 

Mig langar til að segja ykkur tvær sögur fólks sem ég talaði við í sumar. 

Ég talaði við mann sem sem keypti sína fyrstu íbúð fyrir tveimur árum. Afborganir eru orðnar hærri en það sem fjölskyldan ræður við. Hann sagðist heppinn. Heppinn að eiga foreldra sem geta hjálpað. Þannig væri ekki staðan hjá öllum.

Stýrivextir eru að nálgast rússneskt vaxtastig. Tugþúsundir finna fyrir því, eins og þessi maður. Vaxtahækkanir bitna harðast á ungu fólki og barnafjölskyldum. Millistéttinni. Fjárlagafrumvarpið geymir því miður engin svör fyrir þetta fólk. Viðreisn mun aftur leggja fram tillögur til að styðja við þennan hóp. Tillögur um vaxtabætur og húsnæðisbætur til að verja barnafjölskyldur og fyrstu kaupendur. 

Fólkið í landinu bíður eftir lausnum. Ekki bara í efnahagsmálum heldur bíður það eftir allri grunnþjónustu. Vörumerki þessarar ríkisstjórnar eru biðlistar. 

Um daginn talaði ég svo við konu sem hafði greinst með brjóstakrabbamein. Hún sagði mér hvað hún væri þakklát fyrir góða þjónustu og stuðning í heilbrigðiskerfinu. Bætti svo við að sennilega hefði hún verið heppin, svona væru ekki allar sögur. Samt býr hún á Íslandi þar sem við eigum frábæra lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. 

Hvernig má þetta þá vera? Jú, hún heyrir í fréttum að fólk er beðið um að hafa ekki samband við heilsugæsluna, að stór hluti þjóðarinnar er ekki með heimilislækni, að það eru biðlistar alls staðar, eftir þjónustu fyrir börnin okkar, okkur sjálf og foreldra.  

Í heilbrigðismálunum bíður nýrrar ríkisstjórnar stórt verkefni. Það snýst um opinbera fjárfestingu og um umbætur, um tækifæri til að gera betur og að skapa von. Við segjum skýrt að íslenskt heilbrigðiskerfi á að verða fyrirmynd og standa jafnfætis öðrum Norðurlöndum.

Verkefnin varða efnahag og velferð, nútíð og framtíð. Og í dag stendur eftir stór lífskjaraspurning: 

Hvers vegna þarf margfalt hærri vexti  til að kæla verðbólgu á Íslandi en annars staðar? Það er verkefni stjórnmálanna að rýna hlutverk krónunnar þar. Þeir flokkar sem verja óbreytt ástand verða að svara því hvers vegna almenningur á að taka á sig kostnaðinn af margfalt meiri vaxtahækkunum sem alltaf fylgja krónunni. 

Þessi vandi verði ekki leystur í þessu óveðri en við þurfum  líka að horfa til framtíðar. Forysta snýst um meira en að bregðast við. Við þurfum forystu um bætt lífskjör næstu kynslóðar. 

Þegar við heyrum að núna sé ekki rétti tíminn til að horfa fram á við þá segir Viðreisn: Það er alltaf rétti tíminn til að búa í haginn. 

Við getum ekki að alltaf treyst á að vera heppin.