02 okt Leynist svarið kannski bara í Færeyjum?
Staða heimilanna núna er í grunninn réttlætisspurning. Á Íslandi búa tvær þjóðir; sú sem lifir í krónuhagkerfinu og svo sú sem gerir upp í evrum og dollurum. Heimilin og litlu fyrirtækin tilheyra krónunni. Evran er fyrir stóru fyrirtækin. Það er gott að stórfyrirtækin geti starfað í öruggara umhverfi og notið betri lánskjara en þetta öryggi á auðvitað að vera markmiðið fyrir þjóðina alla.
Íslensk heimili eiga að geta notið sama öryggis og atvinnulífið og íslenskir bændur eiga að geta notið sömu lánskjara og íslenskur sjávarútvegur.
Þau sem halda því fram að íslenskur veruleiki sé einhvern veginn þannig að hann þoli ekki stöðugan gjaldmiðil þurfa þá að svara því hvað það er hjá frændum okkar í Færeyjum sem gerir að almenningur er í góðri sambúð við danska krónu sem er tengd við evru. Í Færeyjum er mikill hagvöxtur, sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein, ferðaþjónustan er vaxandi, íbúum hefur fjölgað umfram íbúðauppbyggingu; allt eins og á Íslandi. Vaxtakjörin þar eru hins vegar langtum betri. Sambúðin við evru hentar Færeyjum bara ljómandi vel.
Á sama tíma er íslenskur veruleiki sá að eftir 14 stýrivaxtahækkanir í röð nálgast Ísland rússneskt vaxtastig. Þessar vaxtahækkanir duga ekki til. Verðbólga er enn og aftur á uppleið. Og í vikunni má búast við 15. vaxtahækkuninni.
Tugþúsundir landsmanna finna fyrir þessum veruleika á húsnæðislánunum sínum. Það er pólitísk ákvörðun í þessu samhengi að halda sig við krónuna. Spurningin þar er: Hvers vegna er réttlætanlegt að heimilin taki á sig kostnaðinn sem fylgir íslensku krónunni? Staða fólks til að mæta vaxtahækkunum er ekki jöfn, hvorki hvað varðar tekjur né um á hvaða æviskeiði það er statt. Háir vextir eru sérstaklega þungir fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur, fólk sem er með tiltölulega nýleg lán á sama tíma og nauðsynleg útgjöld heimilis eru hlutfallslega mikil.
Eitt stærsta velferðarmálið er að koma heimilunum út úr vítahring krónunnar.