24 nóv Læknismeðferð hafnað
Á Íslandi virðist engin mannlegur máttur geta bjargað okkur frá ofurvöxtunum, heldur miklu frekar náttúruöflin. Það sannaðist reyndar líka í faraldrinum þegar stöðvun heimshagkerfisins varð til þess að íslenskt vaxtarstig færðist nær þeim raunveruleika sem nágrannalöndin búa að jafnaði við.
Stjórnlaus hringrás hárrar verðbólgu og okurvaxta kaffærir ekki bara heimili og fyrirtæki. Ríkinu blæðir einnig. Vaxtagjöld ríkisins á þessu ári verða heilir 106 milljarðar. 106 milljarðar! Ísland borgar hlutfallslega meira í vexti en nágrannalöndin. Af Evrópusambandsríkjunum greiðir einungis Ítalía hærri vaxtagjöld en við, sé miðað við hlutfall af landsframleiðslu.
Skuldir íslenska ríkisins eru með öðrum orðum miklu dýrari en langflestra Evrópuríkja. Rétt eins og íslensk heimili eru vaxtapíndari en evrópsk. Það vita allir hvers vegna þetta er. Þetta er ekki óheppni, náttúrulögmál eða almennt hæfileikaleysi í lántöku. Óhjákvæmilegt vantraust á agnarsmárri krónu er helsta skýring þess að við borgum svívirðilega háa vexti. Þetta er eins og krónískur sjúkdómur sem tekur sig upp aftur og aftur.
Ríkissjóður borgar næstum jafnmikið í vexti og það kostar að reka framhaldsskóla landsins. Við setjum á næsta ári 136 milljarða í samgöngumál og borgum á sama tíma 106 milljarða í vexti. Ef við gætum lækkað vaxtakostnað ríkisins um helming þá gætum við nánast fjármagnað alla löggæslu landsins með sparnaðinum. Eða allt menningar, lista, íþrótta og æskulýðsstarf á vegum ríkisins.
Í þessu ljósi sætir það furðu að forsætisráðherra skuli slá út af borðinu tillögu formanns starfsgreinasambandsins um að óháðir erlendir aðilar rýni kosti og galla þess að annar gjaldmiðill verði tekinn upp á Íslandi. Það segir okkur þá sögu að við ríkisstjórnarborðið er takmarkaður vilji til þess að taka á helstu orsök þess að séríslenskir okurvextir kæfa nú samfélagið.
Stjórnvöld vita af sjúkdómnum en hafna læknismeðferð.