Krónan var það, heillin

Íslensk þjóðsaga seg­ir frá sam­tali tveggja kerl­inga þar sem önn­ur sagði frá fá­gæt­um fiski sem rak á fjör­ur. Hún mundi ekki nafnið en eft­ir að hin hafði romsað upp úr sér alls kon­ar fisk­heit­um þekkti hún loks eitt og sagði: Ýsa var það, heill­in.

Það hef­ur margt verið sagt og skrifað vegna vinnu­bragða meiri­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is við breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um sem samþykkt­ar voru af stjórn­ar­meiri­hlut­an­um í vor. Gagn­rýn­in hef­ur komið víða að; m.a. úr at­vinnu­líf­inu, frá verka­lýðshreyf­ing­unni, Neyt­enda­sam­tök­un­um, Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu og mat­vælaráðuneyt­inu sem vann frum­varpið áður en stjórn­ar­meiri­hlut­inn greip til sinna ráða.

Gagn­rýn­in snýr helst að því að kjöt­fram­leiðend­um var veitt víðtæk und­anþága frá sam­keppn­is­lög­um og ekki er gerð krafa um eign­ar­hald eða stjórn bænda í fram­leiðenda­fé­lög­um líkt og í upp­haf­legu frum­varpi ráðuneyt­is­ins. Þannig geta fyr­ir­tæki sem starfa á þess­um markaði og stunda fjöl­breytta starf­semi, til dæm­is við inn­flutn­ing land­búnaðar­af­urða og jafn­vel rekst­ur sem ekki fell­ur und­ir land­búnað, fallið und­ir und­anþág­una. Þá er ekki kveðið á um fjár­hags­leg­an aðskilnað fram­leiðenda­fé­laga frá ann­arri starf­semi.

Málið hef­ur vakið at­hygli Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA, ESA, enda ekki á hverj­um degi sem stjórn­völd kippa sam­keppn­is­lög­um úr sam­bandi án hald­bærra raka og án þess að fram­kvæmt sé mat á áhrif­um breyt­ing­anna. Íslensk­ur land­búnaður þarf að búa við sam­keppn­is­hæft um­hverfi. Líkt og víðar kall­ar sérstaðan á sér­tæk­an stuðning og að ein­hverju leyti rýmri regl­ur. Við sjá­um hins veg­ar flest að órök­stutt af­nám frá al­menn­um regl­um sam­keppn­is­rétt­ar er ekki far­sæl leið. Sam­keppn­is­lög gegna mik­il­vægu hlut­verki, ekki síst á fákeppn­ismarkaði eins og þeim sem við búum alla jafna við hér á landi.

Síðan er hitt að ekki hef­ur verið sýnt fram á að skort­ur á heim­ild­um til sam­ein­ing­ar afurðastöðva hafi verið helsti vandi land­búnaðar­ins. Þvert á móti voru slík­ar heim­ild­ir þegar fyr­ir hendi gegn sam­bæri­leg­um skil­yrðum og eru í ná­granna­ríkj­un­um um að sam­keppn­is­yf­ir­völd geti gætt að hags­mun­um bænda og neyt­enda. Þá hef­ur komið fram í máli for­svars­manna afurðastöðva að fjár­magns­kostnaður sé stærsta hindr­un­in í rekstr­in­um. Him­in­há­ir ís­lensk­ir vext­ir leggj­ast líka mjög þungt á bænd­ur sem þurfa marg­ir að taka há lán fyr­ir nauðsyn­leg­um búnaði til rekst­urs­ins.

Fjár­málaráðherra sagði í fjöl­miðlum á dög­un­um að breyt­ing­arn­ar eigi að tryggja afurðastöðvum sam­bæri­leg rekstr­ar­skil­yrði og þekkj­ast á öðrum Norður­lönd­um. Það er veru­lega illa geymt leynd­ar­mál að þar mun­ar mestu um marg­falda vaxta­byrði hér á landi. Hvernig væri nú að viður­kenna í eitt skipti fyr­ir öll að fá­gæta fisk­teg­und­in er bara ýsa? Við þurf­um ekki meiri ein­ok­un held­ur bara betri gjald­miðil.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júli 2024