Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson

Á vordögum samþykkti Alþingi að Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri skyldi samkvæmt lögum landsins vera miskunnsami Samverji samfélagsins eins og sá í dæmisögunni.

Hann ræður nú einn eigin álagningu, afurðaverði til bænda og útsöluverði til viðskiptavina sinna.

Matvælaráðherra lýsir opinberlega bjargfastri trú sinni á hið nýja lögmál. Það felst í því að kaupfélagsstjóranum sé einum treystandi til að gæta hagsmuna náunga sinna, bænda og neytenda.

Uppreisn gegn almennri skynsemi

Samkvæmt lögmáli matvælaráðherra á kaupfélagsstjórinn að hagræða svo í rekstri án fækkunar starfsfólks að afkoma samsteypu hans batni, bændur fái hærra afurðaverð og neytendur lægra útsöluverð.

Hér verður ekki efast um snoturt hjartalag kaupfélagsstjórans í garð bænda og kærleika hans í garð neytenda. Í veruleikanum á þetta nýja lögmál hins vegar ekkert skylt við dæmisöguna.

Reynsla kynslóðanna segir okkur að varla sé unnt að finna verra skipulag en að lögbinda einkarétt á verðákvörðunum í helstu viðskiptum, sem rétthafinn á í.

Matvælaráðherra hefur lesið bók bókanna á haus. Lögmál hennar er uppreisn gegn almennri skynsemi.

Uppreisn gegn almennu siðferði

Nú er það svo að lögmálið um frjálsa samkeppni er ekki svo heilagt að ekki megi í undantekningartilvikum finna rök fyrir frávikum. Við viljum viðhalda landbúnaði þótt hann standist ekki ýtrustu kröfur um hagkvæmni.

Samkeppni er forsenda frjálsrar verðmyndunar. Þegar samkeppnisreglur eru teknar úr sambandi í siðuðu samfélagi fellur frjáls verðmyndun brott eftir sama lögmáli og nótt fylgir degi.

Siðlegu afnámi samkeppnisreglna fylgir að verðmyndun er falin óháðum aðila. Sá böggull fylgir skammrifi, nema í lögmáli matvælaráðherra.

Lögmál hennar er því ekki bara uppreisn gegn skynsemi heldur líka gegn almennu siðferði.

Vaxtabyrði en ekki skortur á einokun

Fjármálaráðherra segir að lögmál matvælaráðherra eigi að tryggja afurðastöðvum sambærileg rekstrarskilyrði og á öðrum Norðurlöndum. En er það svo?

Forstjóri fyrirtækisins, sem kaupfélagsstjórinn hefur nú bætt við samsteypu sína, segir hins vegar að reksturinn hafi að öllu leyti gengið vel nema þegar kemur að vaxtabyrðinni.

Með öðrum orðum: Vandi afurðastöðvanna er ekki skortur á einokun heldur þrefalt þyngri vaxtabyrði en á öðrum Norðurlöndum.

Þverstæðan er þessi: Við ríkisstjórnarboðið og í þingflokksherbergjum stjórnarflokkanna eru allir á einu máli um að það sé andstætt lögmálinu að tryggja bændum og afurðastöðvum samkeppnishæf skilyrði á fjármagnsmarkaði.

Raunverulegi vandinn er sem sagt heilagur og ósnertanlegur eins og indversk kýr. Þess vegna er einokun.

Undantekningin er regla

Þetta nýjasta meistaraverk þingmanna stjórnarflokkanna er að sönnu alvarlegt. Hitt er þó miklu alvarlegra að það er ekki lítil afmörkuð undantekning. Það er nær því að vera hluti af meginreglu í hugmyndafræði þeirra. Tökum dæmi:

Dæmi eitt

Samkvæmt meginreglu íslenskra laga, sem byggð er á löggjöf evrópska efnahagssvæðisins, er öllum frjálst að taka lán í þeirri mynt sem hver og einn telur hagkvæmast.

Stjórnvöld hafa hins vegar undantekningarheimild til að banna frjáls lánaviðskipti til að tryggja fjármálastöðugleika.

Þar sem krónan stenst ekki öðrum gjaldmiðlum snúning er undantekningarheimildin frá frjálsum viðskiptum gerð að meginreglu, nema menn hafi tekjur í erlendri mynt.

Vandann sem fylgir þessum ójöfnuði má leysa. Það er bara andstætt lögmálinu, sem þingmenn stjórnarflokkanna trúa á.

Samkvæmt því eru takmarkanir á frelsi í lánaviðskiptum betri en jöfn aðstaða allra. Jafnstaða bænda og útvegsbænda á fjármálamarkaði heitir pólitískur ómöguleiki.

Dæmi tvö

Önnur undantekning frá meginreglu frjálsra viðskipta eru gjaldeyrishöftin á lífeyrissjóðina. Þau jafngilda ríflega heilli þjóðarframleiðslu og eru umfangsmestu gjaldeyrishöft sem þekkjast hjá þjóðum, sem búa við markaðshagkerfi.

Þessi undantekning frá meginreglu frjálsra viðskipta er gerð til að halda uppi verðgildi krónunnar.

Í raun virka gjaldeyrishöftin eins og skattlagning á lífeyrisþega.

Með öðrum orðum: Eldra fólk er skattlagt eftir krókaleið til að koma í veg fyrir enn meiri óstöðugleika ósamkeppnishæfrar krónu.

Athyglisvert er að þingmenn stjórnarflokkanna, jafnvel sjálfstæðismenn undir hugmyndafræðilegri leiðsögn Óla Björns Kárasonar, vilja fremur skattleggja eldra fólk með þessum hætti en tryggja öllum sömu möguleika til frjálsra viðskipta á fjármálamarkaði.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 11. júlí 2024