25 nóv Breytum þessu
Vextir, verðbólga og biðlistar. Þetta eru málefnin sem brenna á heimilum landsins í aðdraganda kosninga og þetta eru áskoranir sem Viðreisn hefur skýr svör við, bæði til skemmri og lengri tíma. Samtöl fulltrúa Viðreisnar við fólk víðs vegar um landið undanfarnar vikur og mánuði sýna líka svo ekki verður um villst að það er engin eftirspurn eftir neikvæðri kosningabaráttu sem snýst um að reyna að „taka pólitíska andstæðinga niður“. Fólk vill lausnamiðuð stjórnmál þar sem hagsmunir almennings eru í fyrirrúmi. Þetta hefur frá upphafi verið leiðarljós Viðreisnar og verður áfram.
Í vikunni birti stéttarfélagið Viska greiningu sem sýnir að kaupmáttur ungs fólks á aldrinum 30-39 ára hefur staðið í stað í tvo áratugi á Íslandi og á sama hefur ójöfnuður á milli kynslóða aukist meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Unga fólkið á Íslandi virðist þannig í allt annarri og verri stöðu í samanburði við eldri kynslóðir. Þetta er nöturleg staðfesting á því sem allir vita. Viðvarandi verðbólga og sturlað vaxtaumhverfi á Íslandi hefur lagt sérstaklega þunga byrði á herðar ungum fjölskyldum sem eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið.
Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að núverandi staða er afleiðing þess að stjórnvöld hafa ekki ráðið við að tryggja hér mikilvægan stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Risasveiflurnar sem íslenskum heimilum er boðið upp á aftur og aftur eru ekki náttúrulögmál. Það er íslenska krónan sannarlega ekki heldur. Þetta þarf alls ekki að vera svona.
Við munum einhenda okkur í að takast á við vaxtaokrið.
Á sama tíma og við í Viðreisn höfum verið óþreytandi í því að gagnrýna þann óþarfa aukakostnað sem krónan leggur á heimili landsins treystum við okkur í það verk að byggja hér upp stöðugleika til lengri tíma en nokkurra mánaða, hvaða gjaldmiðil sem við notum. Stöðugleika sem leyfir okkur að lækka vexti til framtíðar og hjálpar okkur að áætla fram í tímann.
Ef við fáum til þess umboð munum við einhenda okkur í að takast á við vaxtaokrið og taka til í rekstri ríkisins til þess ná niður verðbólgu og forgangsraða útgjöldum í þágu heimila og atvinnulífs. Við munum setja geðheilbrigðismál og menntamál í forgang og efla löggæslu landsins. Við viljum líka leyfa þjóðinni að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort klára eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Og síðast en alls ekki síst þá tekur Viðreisn skýr skilaboð um vanda unga fólksins alvarlega og þar er verk að vinna.
Það er ekki eftir neinu að bíða. Breytum þessu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2024