07 nóv Jafnvægi, forgangsröðun og ábyrgð
Á undanförnum tveimur áratugum hefur kaupmáttur launa sveiflast þrisvar sinnum meira á Íslandi en á hinum norrænu löndunum. Á sama tíma hafa lítil og meðalstór fyrirtæki glímt við ófyrirsjáanlegt og ósamkeppnishæft starfsumhverfi.
Þessar kosningar snúast fyrst og fremst um að skapa meira jafnvægi og betri kjör fyrir vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki. Til að ná þessu markmiði mun Viðreisn beita sér gegn skattahækkunum á þessa hópa og tala fyrir aukinni forgangsröðun, hagræðingu í ríkisfjármálum og styrkingu samkeppnisinnviða. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar sem hefur hagsmuni vinnandi fólks og fyrirtækja að leiðarljósi.
Önnur hver króna
Árið 2023 voru um 1.600 milljarðar greiddir í skatta til ríkis og sveitarfélaga og 300 milljarðar króna í lífeyrissjóðina. Þetta er næstum önnur hver króna af allri verðmætasköpun á Íslandi. Svo miklar álögur á fólk og fyrirtæki kalla eðlilega á kröfur almennings til sterkra innviða og aðgengilegrar þjónustu. Síðast en ekki síst kalla þessar álögur á heimtingu á skynsamlegri meðferð fjármuna af hálfu hins opinbera.
Markmið Viðreisnar er einfalt; þjónusta við fólkið í landinu og innviðir eiga að standast samanburð við það besta annars staðar á Norðurlöndunum. Raunveruleikinn á Íslandi er hins vegar allt annar. Skattfé sem ætti að fara í samgönguinnviði og bætt heilbrigðis- og menntakerfi fer nefnilega í að borga vexti af lánum ríkis. Vaxtakostnaður er fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins.
Biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu lengjast, unga fólkið stendur sig illa í alþjóðlegum samanburði menntunar og eldra fólk liggur á göngum Landspítalans. Löggæsla er vanfjármögnuð og vegir og brýr liggja undir skemmdum um land allt.
Skattahækkanir koma ekki til greina
Þeir skattar sem almenningur greiðir á Íslandi eiga að geta staðið undir betri þjónustu og sterkari innviðum. Stefna Viðreisnar í skattamálum er einföld. Skattahækkanir á vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki koma ekki til greina. Markmiðið til lengri tíma á að vera að leita leiða til að lækka skatta án þess að slegið sé af kröfum um aukna velferð á Íslandi.
Stórt lífsgæðamál
Stóra lífsgæðamálið á Íslandi er að nýta skattfé fólks og fyrirtækja betur og um leið skapa nýjan hagvöxt. Það verður best gert með hagkvæmari rekstri opinberra stofnana, betri forgangsröðun, aukinni samkeppni á markaði og samtali við þjóðina um nýja og betri atvinnustefnu. Viðreisn vill atvinnustefnu sem miðar að því að auka framleiðni sem endurspeglast mun í auknum kaupmætti launa og meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Með því verður jafnvel hægt að draga úr álögum á fólk og fyrirtæki til framtíðar og vinna á innviðaskuld og bæta þjónustu fyrir fólkið í landinu.
Ný ríkisstjórn mun taka við eftir tímabil stöðnunar og pólitískrar ósamstöðu. Áralöng óeining innan ríkisstjórnar hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fólkið í landinu. Nýrrar ríkisstjórnar bíður að skapa ný tækifæri og fara betur með skattfé fólks og fyrirtækja. Viðreisn mun gera það með jafnvægi, ábyrgð og forgangsröðun að leiðarljósi. Breytum þessu saman.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024