Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson

„Á komandi kjörtímabili mun ýmislegt stórt gerast í ytri aðstæðum sem mun mögulega hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag.“

Þetta er tilvitnun í ummæli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í fréttum RÚV í byrjun vikunnar. Fyrir margra hluta sakir eru þau verð eftirtektar.

Ein sök er sú að hún reyndist farsæl í utanríkisráðuneytinu og tók ákvarðanir með næmum skilningi á þeim grundvallargildum, sem utanríkis- og öryggishagsmunir landsins byggja á.

Önnur sök er sú að hún hefur rétt fyrir sér með það að á næsta kjörtímabili mun þátttaka í alþjóðlegri efnahags- og varnarsamvinnu hafa afgerandi áhrif á hvort tveggja: Öryggi og lífsafkomu fólksins í landinu.

Vanmat á kjósendum

Þó að líklegt sé að þessi viðfangsefni muni fanga athygli manna meir en mörg önnur á nýju kjörtímabili voru þau lítið rædd í kosningabaráttunni.

Auk utanríkisráðherra voru það helst frambjóðendur Viðreisnar sem það gerðu. Aðrir ýmist þögðu eða dreifðu hræðsluáróðri gegn frekari alþjóðlegri samvinnu.

Hvers vegna er þetta svona? Á því geta verið ýmsar skýringar. Margir stjórnmálamenn virðast vanmeta kjósendur og tala bara við þá um einfalda hluti og það eitt sem gera má á morgun. Flokkur utanríkisráðherra var þar.

Umræða um utanríkismál kallar aftur á móti á meiri framtíðarsýn og stefnumótun til lengri tíma.

Tvær hliðar á sama peningi

Þegar fréttamaður spurði utanríkisráðherra til hvers hún væri að vísa með ummælum sínum var svarið skýrt og skorinort:

„Öryggis- og varnarmála og mögulega mikilla breytinga í alþjóðaviðskiptum með tilliti til nýs forseta í Bandaríkjunum.“

Margir hafa tilhneigingu til þess að líta á alþjóðlega samvinnu í efnahagsmálum annars vegar og varnar- og öryggismálum hins vegar sem tvo aðskilda hluti. Raunveruleikinn er allt annar.

Þegar Bandaríkin höfðu frumkvæði að varnarsamvinnu Evrópu og Ameríku á sínum tíma beittu þau sér samhliða fyrir innbyrðis efnahagssamstarfi Evrópuríkja. Æ síðan hafa þetta verið tvær hliðar á sama peningi.

Hættutímar

Enginn vill búa til óþarfa hræðslu. Hitt er háskalegt að loka augunum fyrir alvöru lífsins. Þegar utanríkisráðherra talar um hættutíma hefur hún lög að mæla.

Forysta utanríkisráðherra um aukna varnarsamvinnu og uppbyggingu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli var mikilvæg. Umræðan hefði þó mátt vera meiri, ekki síst um þau gildi, sem að baki búa.

Brýnt er að þessum samstarfsverkefnum verði markvisst fylgt eftir á nýju kjörtímabili. Reyndar þarf að útvíkka þau meðal annars vegna vaxandi ógna gegn innviðum og netöryggi.

Svo þarf að fylgja eftir þeirri opnun umræðunnar, sem Þórdís Kolbrún lýkur utanríkisráðherraferli sínum með. Ólík hugmyndafræði fráfarandi stjórnarflokka setti pottlok á umræðuna og byrgði þjóðinni framtíðarsýn.

Mikilvægi efnahags- og tollasamvinnu

Hitt atriðið, sem utanríkisráðherra bendir á, skiptir ekki minna máli. Viðskiptastefna nýs forseta Bandaríkjanna kallar á nýtt stöðumat. Trump boðar tollastríð gegn Kína og í einhverjum mæli gegn Evrópu.

Vonir margra eru við það bundnar að lítið sé að marka það sem Trump segir. En viðbrögð Íslands og annarra Evrópuþjóða geta ekki byggt á einhvers konar lottói um trúverðugleika hans.

Við erum aðilar að innri markaði Evrópusambandsins. Á hinn bóginn stöndum við fyrir utan tollabandalagið og myntbandalagið. Það er mikið umhugsunarefni á viðsjárverðum tímum.

Sú nýja veröld sem utanríkisráðherra segir réttilega að blasi við okkur kallar á dýpri umræðu um efnahags- og tollasamvinnu Íslands rétt eins og varnar- og öryggissamstarfið.

Hér er um að ræða viðfangsefni, sem hafa rík áhrif á hagsmuni landsins og afkomu fyrirtækja og heimila.

Heildarhagsmunir

Ný ríkisstjórn þarf að taka þessi viðfangsefni föstum tökum strax í byrjun.

Skýr framtíðarsýn og klárt gildismat skipta heildarhagsmuni landsmanna og samkeppnishæfni Íslands mestu máli.

Kaupfélag Skagfirðinga hefur í ýmsu reynst skagfirskum bændum vel. En þröng utanríkispólitísk hugmyndafræði stjórnenda þess hefur í of langan tíma haft of mikil áhrif á of marga forystumenn stjórnmálaflokka til tjóns fyrir bændur rétt eins og aðra landsmenn.

Nú er kominn tími meiri víðsýni.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 12. desember 2024