Nýtt dómsmál í 70 ára afmælisgjöf

Bæjarstjórinn í Kópavogi fór mikinn og fagnaði 4,5 milljarða króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu í ársreikningi bæjarins fyrir skemmstu og hældi sér af bestu niðurstöðu í heil 17 ár. Sú niðurstaða var þó reyndar ekki tilkomin vegna hagræðingar í rekstri, heldur af öðrum ástæðum. Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði voru 900 milljónum hærri og þjónustutekjur einnig 900 milljónum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun. Þá námu eins skiptis tekjur af lóðaúthlutun í Vatnsendahvarfi 3,1 milljarði sem ekki voru inni í áætlunum.

Það var því látið líta út fyrir að fyrir ábyrgan rekstur og miklar hagræðingar þá væri rekstrarniðurstaðan 4,5 milljarðar.  Það er auðvitað blekking og auk þess var rekstrarkostnaður í reynd 300 milljónum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og vaxtaberandi skuldir hækkuðu. Já, það má lesa þetta aftur. Vaxtaberandi skuldir HÆKKUÐU á sama tíma og bæjarbúar greiddu hærri álögur en þeir gerðu ráð fyrir skv. áætlunum sveitarfélagsins.

Og svo var Adam ekki lengi í Paradís. Fagnaðarlæti bæjarstjórans voru ekki þögnuð þegar innviðaráðuneytið kvað upp úrskurð þar sem ákvörðun Kópavogsbæjar um úthlutun lóða og byggingarrétta í Vatnsendahvarfi var felld úr gildi því hún færi í bága við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Um er að ræða sex lóðir að verðmæti um 2,7 milljarða (af 3,1) en búið er að gera lóðaleigusamninga og þinglýsa þeim á lóðirnar. Það þýðir að stór hluti af þessum rekstrarafgangi er í fullkomnu uppnámi. Þetta er verulega vond staða sem meirihlutinn í Kópavogi ber alla ábyrgð á og það sem stendur eftir í rekstrarreikningi bæjarins fyrir árið 2024 er aukinn rekstrarkostnaður, auknar álögur og hækkandi skuldir.

Nýju Vatnsendamáli er því í reynd startað á 70 ára afmæli bæjarins og digurbarkalegar yfirlýsingar bæjarstjórans í Kópavogi, um að meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafi tekist að skila bestu afkomu sveitarfélagsins í 17 ár, reyndust fullkomlega ótímabært sjálfshól.

Greinin birtist fyrst í Kópavogsblaðinu 14. maí 2025