02 des Opið fyrir framboð í leiðtogakjör Viðreisnar í Reykjavík
Kjörstjórn Viðreisnar í Reykjavík tilkynnir að opnað hefur verið fyrir framboð til oddvita Viðreisnar í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninga sem fara fram 16. maí 2026.
Framboð þurfa að berast kjörstjórn ekki síðar en á hádegi, kl. 12:00, föstudaginn 16. janúar á netfangið rvkprofkjor@vidreisn.is eða reykjavik@vidreisn.is.
Að loknum framboðsfresti mun kjörstjórn yfirfara framboð og undirbúa framkvæmd leiðtogavalsins.
Kjörgeng eru öll sem kjörgeng eru til sveitarstjórnarkosninga skv. lögum, eiga lögheimili í Reykjavík, munu hafa náð 18 ára aldri á kjördegi þann 16. maí 2026 og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 15 dögum fyrir upphaf prófkjörs.
Kjörstjórn hvetur alla félagsmenn sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til oddvita að senda inn framboð, þar sem fram koma upplýsingar um nafn, kennitölu, netfang, símanúmer, mynd af frambjóðanda og mest 350 orða kynning á frambjóðanda. Sú kynning verður birt á vef Viðreisnar þegar að framboðsfresti lýkur og öll framboð hafa verið staðfest af kjörstjórn.
Leiðtogavalið sjálft fer fram laugardaginn 31. janúar, og munu félagsmenn í Reykjavík fá sendar upplýsingar um framkvæmd kosningar þegar nær dregur. Rétt til atkvæðagreiðslu hafa allir félagar í Viðreisn, 16 ára og eldri, sem lögheimili eiga í Reykjavík og hafa skráð sig í Viðreisn a.m.k. 2 dögum áður en kosning hefst
Viðreisn í Reykjavík leggur ríka áherslu á gagnsæi, lýðræðislega þátttöku og opið ferli þar sem allir félagsmenn geta tekið virkan þátt í ákvarðanatöku. Kjörstjórn hvetur því eindregið þau sem hafa áhuga á forystuhlutverki í borginni, til að nýta tækifærið og skila inn framboði innan tilskilins tímamarka.
Reglur Viðreisnar varðandi prófkjör og röðun á lista er að finna hér: https://vidreisn.is/reglur-um-rodun-a-lista/