01 maí Göngugötur allt árið
Árið 1931 var Laugavegurinn gerður að einstefnu í vesturátt og samtímis varð Hverfisgata að einstefnu í austurátt. Þetta var fullkomlega rökrétt í vinstri umferð og fyrirkomulagið hélst óbreytt þegar skipt var yfir í hægri umferð fyrir um hálfri öld. Þetta veldur því reyndar að umferðin í kringum Hlemm er enn dálítið ankannaleg, enda í raun blanda af hægri- og vinstri umferð.
Rekstur verslana sem gripu fólk á leið í bæinn reyndist ganga betur en rekstur verslana sem blöstu við fólki á leið úr honum og því varð Laugavegurinn blómlegri verslunargata en Hverfisgatan, þrátt fyrir að Hverfisgatan ætti í raun að hafa betri burði til þess að bera gott götulíf, hún er jafnan bjartari og liggur í minni halla en Laugavegurinn.
Hverfisgatan hefur batnað mikið frá því að hún var tvíbreið einstefnu-hraðbraut á seinustu öld. Ég gríp mig í því að fara nú oft Hverfisgötuna frekar en Laugarveginn þegar ég geng eða hjóla niður í bæ. Ég er ekki einn.
En þar sem Hverfisgatan er ekki lengur einstefna er ekki lengur þörf fyrir að hafa umferð niður Laugaveginn. Laugavegurinn ætti einfaldlega að vera eins og Strikið í Kaupmannahöfn: göngugata allt árið. Við höfum ekki margar götur á Íslandi sem geta auðveldlega búið til þetta andrúmsloft, en Laugavegurinn er ein þeirra. Við eigum að opna Laugaveginn fyrir gangandi fólki, allt árið um kring.
Höfundur skipar 2. sæti Viðreisnar í Reykjavík. Grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. maí 2018.