03 ágú Lánveiting með peningaprentun
Í nýlegri skýrslu um peningastefnu er kafli um myntráð þar sem kostir og ókostir við myntráðsfyrirkomulag eru tíundaðir. Svíarnir Fredrik NG Andersson og Lars Jonung mæla sterklega fyrir myntráði sem valkost í peningastefnu landsins í sinni greinargerð. Höfundar skýrslunnar komast að annarri niðurstöðu. Myntráðsfyrirkomulag skapi óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika. Ástæðan er einkum sú að lánveitandi til þrautavara er ekki tiltækur fyrir íslenskar fjármálastofnanir í myntráðsfyrirkomulagi.
Augljóslega er hægt að tryggja þrautavaralán með margvíslegum hætti þótt það sé ekki talið meðal verkefna hefðbundins myntráðs. Myntráð getur haft umframforða af gjaldeyri sem beita má við lausafjárstýringu bankakerfisins og ríkissjóður getur aflað lánsfjár með samningum um lánalínur eða dregið á t.d. kvóta hjá AGS ef nauðsynlegt er talið að bjarga banka í vanda. Svíarnir leggja til að stöðugleikasjóður gæti haft slíkt hlutverk.
Sá lánveitandi til þrautavara sem höfundar skýrslunnar telja svo nauðsynlegan fyrir fjármálastöðugleika, og myntráðsfyrirkomulag býður ekki upp á, hlýtur því að vera nokkuð sérstaks eðlis. Hér um ræðir aðila sem getur prentað í orðsins fyllstu merkingu ótakmarkað magn af peningum til að leggja til í banka sem verður fyrir áhlaupi. En útilokun á þessum möguleika er einmitt ein af grundavallar hugmyndum á bak við myntráðsfyrirkomulag sem leið til að tryggja verðgildi peninga. Einfaldasta leiðin til að veita traustan gjaldmiðil (e. sound money), er að baktryggja peninga með erlendum gjaldmiðli svo sem evru eða dal líkt og gert var með gullfætinum á sínum tíma. Með traustum gjaldmiðli er átt við peninga sem fólk treystir að haldi kaupmætti sínum gegnum þykkt og þunnt.
Peningar eru ávísun á þjóðarframleiðslu. Í litlu hagkerfi er þjóðarframleiðslan fábreytt og því þarf innflutningur að sjá fyrir flestum þörfum neytenda. Öðru máli gegnir um risahagkerfi eins og hið bandaríska. Umheimurinn hefur nánast óbilandi trú á framleiðslugetu Bandaríkjanna og hefur tekið við, fram að þessu að minnsta kosti, öllum ávísunum á bandaríska hagkerfið með glöðu geði. Stórfelld lausafjárfyrirgreiðsla bandaríska (og evrópska) seðlabankans hefur haft tiltölulega lítil verðbólguáhrif ennþá. Lágir vextir og mikið laust fé hefur aftur á móti auðveldað mikla hækkun hlutabréfa og leitt til meiri skuldasöfnunar á heimsvísu en áður hefur sést.
Ekki er hægt að heimfæra aðstæður í risahagkerfum á lítil opin hagkerfi eins og það íslenska. Bara möguleikinn á mikilli útgáfu ótryggðra seðla grefur undan verðgildi og trausti á gjaldmiðlinum. Traustur gjaldmiðill getur aldrei verið lakari undirstaða fyrir fjármálastöðugleika en veikur og og ótrúverðugur gjaldmiðill.
Að öðru leyti er lítið nýtt í umfjöllun skýrsluhöfunda um jákvæðar og neikvæðar hliðar myntráða og sumt orkar tvímælis í túlkun þeirra eins og gengur. Ógetið er um einn stóran kost myntráðs sem vert er að hafa í huga. Í myntráðsfyrirkomulagi er verðtrygging lánsfjár sjálfkrafa óþörf þar sem peningalegar eignir eru óbeint gengistryggðar. Sem dæmi um óheppileg áhrif verðtryggingar er að síðustu árin hefur íbúðaverð hækkað mjög á höfuðborgarsvæðinu en lítið sem ekkert á landsbyggðinni. En verðtryggð lán hafa hækkað hjá íbúum landsbyggðarinnar miðað við vísitölu, eins og hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins, þótt eignir hafi ekki hækkað. Í myntráðsfyrirkomulagi væri slíkt misvægi ekki fyrir hendi.
Ótti skýrsluhöfunda við að fjármálastöðugleika sé sérstaklega ógnað í myntráðsfyrirkomulagi er byggður á misskilningi. Eftir stendur að upptaka myntráðs getur tryggt efnahagslegar framfarir með mun einfaldari og ódýrari hætti en núverandi peningastefna. Besta fyrirkomulag peningamála fengist þó með fullri aðild að ESB og inngöngu í evrusvæðið.
Höfundur er hagfræðingur. Greinin birtist á Kjarnanum þann 3.8.2018.