14 jan Köld skilaboð heilbrigðisráðherra
„Ég hlustaði á vinkonurnar í saumaklúbbnum tala um barneignir en gat ekki sagt þeim að ég væri að fara í glasafrjóvgun í þriðja sinn. Eða var það fjórða? Að hormónagjafirnar væru erfiðar. Vildi ekki meðaumkun eða eyðileggja notalega stund. Vildi ekki fara yfir alla dagana og næturnar sem fóru í grát, angist, vonleysi. Ekki segja þeim að þráin eftir barni væri að tæra okkur upp. Vildi ekki segja þeim að ég gæti ekki farið með þeim í vinkonuferðina langþráðu þar sem allur okkar sparnaður færi í glasafrjóvgun. En svo varð ég ólétt í fimmtu tilraun og ég og litla fjölskyldan mín föðmuðum heiminn. Og hann okkur.“
Þetta er aðeins ein frásögn af mörgum sem mér hefur borist á síðustu dögum frá alls kyns fólki, konum sem körlum eftir óskiljanlega ákvörðun heilbrigðisráðherra um að takmarka valfrelsi fólks og möguleika á tæknifrjóvgun. Sögurnar eru sárar og lýsa þeim veruleika sem margir búa við. Margar þeirra enda sem betur fer á þann veg að allt erfiðið hefur borgað sig og að með hjálp tækninnar hafi fjölskyldan stækkað.
Ráðamenn gera fólki erfiðara fyrir
Reglugerð Svandísar um að draga úr greiðsluþátttöku ríkisins við tæknifrjóvgun olli mér miklum vonbrigðum. Heilbrigðisráðherra hefur varist gagnrýni á breytingarnar með fyrirsjáanlegum hætti um að nú sé verið að styrkja fyrsta tilraun um heil 5% (sem eru 24.000 krónur af 480.000) sem ekki var gert áður. Á sama tíma tekur ríkið nú engan þátt í kostnaði við þriðju og fjórðu meðferðirnar, fyrir þá sem á þurfa að halda. Um er að ræða mikinn kostnaðarauka fyrir meirihluta þeirra sem fara í slíkar meðferðir, enda er algengast að það þurfi meira en eina tilraun til þess að aðgerð heppnist. Algengt er að einstaklingar greiði á bilinu 480.000 – 1.200.000 krónur, fyrir eina til fjórar meðferðir, oftast til að geta eitt barn. Eftir þessar breytingar fer kostnaður við fjórar meðferðir í 1.732.000 krónur og hækkar þar með um rúma hálfa milljón.
Ég er fylgjandi því í mörgum málum að við horfum til Norðurlandanna, ekki síst þegar kemur að velferð og félagslegum þáttum. Það gildir í þessu máli líka. Þar er grunnreglan sú að ríkið aðstoðar fólk við að eignast sitt fyrsta barn og eru fyrstu þrjár meðferðir að fullu niðurgreiddar auk þess sem tekið er þátt í kostnaði við uppsetningar á fósturvísum og tæknisæðingu. Okkar nágrannalönd sjá að það er þjóðhagslega hagkvæmt að hjálpa fólki í frjósemisvanda við að eignast börn, en það virðast íslenskir ráðamenn hins vegar ekki gera – og ætla sér nú að gera fólki enn erfiðara fyrir. Og það þegar fæðingatíðni hér á landi er komin niður í 1.7 barn.
Eiga bara þeir ríku séns?
Ég hef heyrt marga segja að það séu ekki mannréttindi að fá að eignast barn og að ríkið eigi ekki að borga undir slíkt. Í þessu felst ákveðið miskunnarleysi, samhliða skilningsleysi. Og það er að mínu mati fremur kaldrifjað að segja við manneskju, sem þráir ekkert annað en að eignast barn, að hún sé einfaldlega með sjúkdóm sem samfélagið hefur ákveðið að taka engan þátt í, á meðan við niðurgreiðum alls kyns aðra kvilla. Þetta þýðir að núverandi fyrirkomulag, með lítilli niðurgreiðslu, er kerfi hinna efnameiri. Þeim er gert kleift að fara þessa leið, og þeir sem ekki hafa efni á því, sitja eftir. Ófrjósemi er ekki val. Hún veldur miklum þjáningum og sárum vonbrigðum. Þráin eftir barni er tilfinning, sem aðeins þeir sem hafa upplifað vonbrigðin við að fá ekki langþráðan draum sinn uppfylltan, skilja. Það að fara aftur og aftur í frjósemismeðferð er ekki einfalt mál. Konur leggja bæði andlega og líkamlega mikið á sig til þess að fá ósk sína um þungun uppfyllta og sem betur fer gengur það oft eftir með hjálp tækninnar. Kostnaðurinn er mikill en hingað til hefur greiðsluþátttakan af hálfu ríkisins verið lítil sem engin. Einhver möguleiki hefur verið á að fá endurgreiðslur frá stéttarfélögum, en þá er aðeins um brotabrot af upphæðinni að ræða. Sérfræðingar á þessu sviði hafa fullyrt að það vanti upp á skilning yfirvalda á sjúkdómum ófrjósemi, og ég held að það sé rétt hjá þeim.
Köld skilaboð til sjúklinga
Hin kalda staðreynd er sú að ákvörðun heilbrigðisráðherra hefur slæm fjárhagsleg og tilfinningaleg áhrif á stóran hóp fólks, sér í lagi þá sem eru í miðju ferli og jafnvel búin með fyrstu tvær meðferðirnar. Fréttir hafa borist af einstaklingum sem hafa nú þegar hætt við að fara þessa leið vegna ákvörðunar ráðherra. Svör ráðherra eru þau að þetta sé hennar forgangsröðun og frekari stuðningur við ófrjósemisaðgerðir falli ekki undir hennar markmið um heilbrigðisþjónustu. Samtímis er lítið mál fyrir ríkisstjórnarflokkana þrjá að samþykkja hátt í fimm milljarða veiðigjaldalækkun eða setja hundruðir milljóna í uppskiptingu ráðuneyta.
Þessar breytingar eru einnig enn eitt dæmið um það að ríkisstjórnin hafi það á dagskrá sinni að þrengja að allri þjónustu sem ekki er veitt af hinu opinbera, dæmin um það síðustu mánuði eru mýmörg. Valfrelsi sjúklinga er skert, og í þessu tilviki jafnvel afnumið með öllu. Hér á landi er þessi þjónusta ekki í boði hjá hinu opinbera. Þetta eru því köld skilaboð heilbrigðisráðherra með stuðningi Sjálfstæðisflokksins til þeirra þúsunda einstaklinga sem eiga við ófrjósemisvanda að stríða. Það á ekki að skipta neinu máli hvar þjónustan er veitt, heldur verður sá einstaklingur sem þarfnast aðstoðar ávallt að vera í forgrunni. En í þessu tilviki er kerfið því miður aðlagað að forgangsröðun hins pólitíska skiptimarkaðar ríkisstjórnarinnar í enn eitt skiptið. Ég vildi að það kæmi mér á óvart.
Höfundur er þingmaður og formaður Viðreisnar. Greinin birtist á kjarninn.is þann 14. janúar 2019