02 jan Mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna
Mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna
Jólaævintýri Dickens er tímalaus klassík um nirfilinn Ebeneser Scrooge, ríkan einstæðing sem þolir ekki jólin. Á jólanótt vitja hans alls kyns draugar sem eiga að það sammerkt að ýta við karlinum og láta hann sjá fegurðina í jólunum. Líkt og draugarnir hans Skröggs hafa hinir ýmsu fortíðardraugar tekið hús á heimsbyggðinni á árinu sem er að líða. Fortíðardraugar þjóðernispopúlisma sem kynda undir úlfúð og grafa undan lýðræðisstoðum landa sinna eru víða. Vitjanir af þessu tagi hafa einnig birst okkur hér heima. Allir þessir draugar hafa sammerkt að þrá “gömlu góðu” tímana, hið fullkomna svart-hvíta líf, þar sem pólitískur rétttrúnaður var ekki einu sinni hugmynd. Skilaboðin er lituð af einangrunarhyggju, landamæramúrum og tortryggni gagnvart alþjóðasamstarfi og auknum kröfum um gegnsæi og jafnrétti. Að almannahagsmunir víki fyrir sérhagsmunum er ekkert tiltökumál.
Óvissutímar kalla á nýja hugsun og afstöðu
Eftir seinni heimsstyrjöld brugðust vestrænar þjóðir við breyttri heimsmynd. Með áður óþekktum hætti mynduðust bandalög um viðskipta- og efnahagssamvinnu og sameiginlegar hervarnir. Þetta var tími ótta og jafnvægis. Eftir fall Berlínarmúrsins tók við tími óttaleysis og nýrrar vonar með alþjóðavæðingu í viðskiptum. Nú, þremur áratugum síðar, hriktir í stoðum þess alþjóðakerfis sem hefur verið umgjörð samvinnu vestrænna þjóða í svo langan tíma. Framtíðin er alltaf óráðin. En engum getur dulist að framundan eru meiri óvissutímar í samskiptum þjóða en flestir núlifandi Íslendingar hafa þekkt. Allar þjóðir eru með einhverjum hætti öðrum háðar. Jafnvel eyþjóð nyrst í Atlantshafinu er ekki eyland í þeim skilningi.
Það er ekki óeðlilegt að dægurmál í nærumhverfinu taki hug okkar og mestan tíma. En við megum þó ekki vera svo upptekin við þau efni að hitt gleymist hvernig við komum ár okkar fyrir borð í samfélagi þjóðanna. Sú ákvörðun mun hafa langmest áhrif á fullveldið, lífskjör almennings og nýsköpun íslenskrar menningar, tækni og vísinda.
Hvað hefur breyst?
Það er einkum þrennt sem breytt hefur óttaleysinu eftir kalda stríðið í óvissa tíma.
Í fyrsta lagi er það neikvæð afstaða forseta Bandaríkjanna til þess alþjóðakerfis sem þau höfðu forystu um að mynda og Ísland hefur verið virkur þátttakandi í bæði á sviði varnarmála og efnahagssamvinnu. Svo vægt sé til orða tekið hefur forseti Bandaríkjanna sáð efasemdum um forystuhlutverk þeirra í samtökum vestrænna lýðræðisþjóðanna en einnig innan eigin raða. Vilji þau ekki vera kjölfestan í því samstarfi þarf að styrkja hana með öðrum hætti. Ella er hætta á að illa fari.
Í öðru lagi hefur þjóðernisleg einangrunarhyggja eflst í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Bandaríkin sem áður sáu hag í því að stuðla að sameiningu Evrópu sjá nú tækifæri í að sundra henni. Breska þjóðin ákvað að rjúfa hin nánu efnahagslegu tengsl við önnur Evrópuríki til þess að losna undan málamiðlunum við smærri ríki álfunnar. Efnahagslegum og viðskiptalegum hagsmunum smáþjóða stendur ógn af þessari þróun. Það er veruleikinn sem blasir við.
Í þriðja lagi er það áhyggjuefni að innan nokkurra ríkja Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins hefur þeim stjórnmálaöflum vaxið fiskur um hrygg sem markvisst grafa undan meginstoðum lýðræðissamfélagsins eins og dómstólum og fjölmiðlum. Jafn réttur karla og kvenna, réttindi hinsegin fólks, flóttafólks og annara minnihlutahópa er dreginn í efa og fræjum tortryggni og upplausnar sáð. Þetta eru kunnugleg stef.
Á slíkum óvissutímum þurfa þjóðir að taka afstöðu. Hvaða hagsmuni og hvaða gildi þarf að verja? Og með hverjum viljum við vinna að því? Hagsmunum smáþjóða er betur borgið í fjölþjóðasamvinnu en með tvíhliða samningum. Þess vegna þurfum við að meta í nýju ljósi hvernig áfram verði unnið að hagsæld þjóðarinnar og með hvaða þjóðum við viljum skipa okkur í sveit. Viljum við fylgja Bretum út af innri markaði Evrópusambandsins eða standa með öðrum Norðurlöndum innan Evrópusamvinnunnar?
Sjálfstæðisflokkurinn var áður kjölfesta og forystuafl fyrir pólitískri og efnahagslegri samvinnu við aðrar þjóðir. Nú er hann klofinn í tvær fylkingar þar sem takast á þjóðernisleg einangrunarhyggja og frjálslynd viðhorf um alþjóðasamstarf.
VG og forverar þess stóðu áður gegn hverju skrefi sem stigið var í þessum efnum. Nú hefur flokkurinn gert sátt um að taka stjórnskipulega ábyrgð á fortíðinni gegn því að ræða ekki þær nýju áskoranir sem Íslands stendur andspænis í framtíðinni. Það er vissulega framför, áhugaverð fyrir sagnfræðinga, en ekki það sem komandi kynslóðir eru að kalla eftir.
Þetta bandalag er í hnotskurn stærsti pólitíski vandinn á Íslandi um þessar mundir. Bandalag kyrrstöðu sem ýtir jafnframt undir óvissu um alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Þrátt fyrir að alþjóðasamstarf hafi aukið réttlæti og jafnað aðstöðumun í samfélaginu – og mun gera það enn frekar með nýjum gjaldmiðli.
Fortíð eða framtíð?
Árið sem nú líður hjá var að mörgu leyti ár andstæðna. Ár öfganna. Ár framfara á sama tíma og víða er vegið að grunnstoðum lýðræðis og mannréttinda. Árið þar sem hin pólitíska víglína hér heima breyttist; úr vinstri-hægri yfir í frjálslyndi-íhaldssemi. Lína sem alltaf er að skýrast betur og betur. Árið þar sem aldrei hefur verið jafn kalt yfir sumartímann, en tveggja stafa hitatölur mælst í desember. Árið þar sem Liverpool er á toppi úrvaldsdeildarinnar á jóladag og Keith Richards hætti að drekka. Ár þar sem ýmsir vilja smætta vandamálin í „við“ og „þið“ og gjáin heldur áfram að stækka. Ár þar sem skotgrafirnar verða dýpri og ógnin verður háværari.
En gleymum ekki ljósinu í samfélaginu okkar. Samhygðinni og mennskunni. Við megum ekki hætta að berjast fyrir hugsjónum okkar, og sitja þegjandi hjá. Við verðum að þora að tala um það sem er bannað, taka afstöðu og tala fyrir málefnalegri umræðu. Við þurfum því að kalla helstu fræðimenn okkar að borðinu til að meta stöðu landsins í þessari breyttu heimsmynd sem blasir við. Um leið þurfum við að auka umræðu um þetta mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna. Mynda nýja kjölfestu um framtíðarhagsmuni Íslands í fjölþjóðlegri samvinnu. Og reyna hvað við getum að kveða niður þá fortíðardrauga sem standa í vegi fyrir því að takast á við breytta veröld. Við sjáum ekki allt fyrir. En við megum ekki fresta því að takast á við framtíðina.
Við börðumst ekki fyrir frelsi þjóðarinnar stjórnmálamannanna vegna. Fullveldið notum við best ef við getum gefið öllum þeim sem vettlingi geta valdið frelsi, ekki aðeins innan landsteinanna heldur einnig utan þeirra, til að láta frumkvæði og sköpunargleði njóta sín í hvívetna í þágu samfélagsins.
Lærum af fortíðinni, virðum fegurðina í fjölbreytileika nútímans og fögnum því sem framtíðin ber í skauti sér. Þá – rétt eins og Skröggur karlinn – getum við sem upplýst samfélag náð sátt um það hvert við viljum stefna í framtíðinni.
Landsmönnum öllum óska ég gleðilegrar hátíðar og farsæls komandi árs.
Höfundur er formaður Viðreisnar. Greinin birtist í áramótablaði Morgunblaðsins.