06 maí Eitt námsgjald, einföldum kerfið og þjónustu við hælisleitendur
Haldnir voru tveir fundir í borgarráði í liðinni viku eftir tveggja vikna hlé í kringum páska. Það kemur alltaf jafn mikið á óvart hvað páskafrí og fimmtudagsfrídagar þessa árstíma hafa mikil áhrif á hjól atvinnulífsins. Allt dettur í hægagang og vorstemming svífur yfir borginni og ekki laust við að eftir gott frí sé erfitt að koma sér í gang aftur. Nú er hinsvegar allt komið á fullt, heil vinnuvika fram undan og verkefnin á fleygiferð eins og sést í fjölmiðlum þessa dagana. Fjölmörg mál biðu afgreiðslu borgarráðs en það var gleðiefni að borgin skilaði rekstrarafgangi árið 2018, barnafjölskyldur fengu kjaraleiðréttingu, auk þess sem samningur milli Reykjavíkurborgar og Útlendingastofnunar um þjónustu við einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar var samþykktur. Þau eru því drjúg vorverkin í borginni.
Ársreikningur borgarinnar
Ársreikningur borgarinnar var lagður fram í borgarráði. Rekstrarafgangur Reykjavíkurborgar nam 4,7 milljörðum króna árið 2018 og skilaði samstæða Reykjavíkurborgar, þ.e rekstur borgarinnar og fyrirtæki í eigu hennar, jákvæðri niðurstöðu upp á 12,3 milljarða króna. Við höfum lagt mikla áherslu undanfarið á framkvæmdir á vegum borgarinnar, þar sem við höfum forgangsraðað í þágu barna, því eftir hrun hefur verið uppsöfnum framkvæmdaþörf. Við höfum byggt skóla, leikskóla og framkvæmdir við íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal lýkur senn. Þá hófum við uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í SuðurMjódd auk endurnýjun leikskóla og skólalóða um alla borg. Það er ánægjulegt að sjá jafn góðan rekstrarafgang 2018 og raun ber vitni því á sama tíma var álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkað um 10% auk þess að gefa eldri borgurum og öryrkjum sérafslátt á árinu, aðgerðir sem allir borgarbúar hafa notið góðs af. Á sama tíma höfum við einnig gert og höldum áfram að gera stórátak í malbikun gatna og lagningu nýrra hjólastíga sem skilar sér beint í auknum lífsgæðum þeirra sem eiga leið um borgina okkar.
Þó ársreikningurinn komi vel út fyrir árið 2018 eru teikn á lofti um breytingar í efnahagslífi Íslendinga. Það er mikilvægt að búa sig vel undir það og borgin hefur því látið greina möguleg áhrif þess á borgarreksturinn. Við verðum áfram á vaktinni hvað þetta varðar á komandi vikum og mánuðum. Við unnum ítarlega sviðsmyndagreiningu síðastliðið haust til vera klár í breytingar í efnahagslífinu og verð ég að segja að borgin stendur ágætlega að vígi til að mæta breyttum tímum. Við verðum að vera á tánum því það er okkur ávallt leiðarstef að fara vel með almannafé og ráðstafa því ætíð með þarfir borgarbúa að leiðarljósi.