05 feb Meira gagnsæi og ábyrgð
Vegna nálægðar okkar hvers við annað og vegna þess hve samofin sveitarfélög eru lífi og starfi okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu þurfum við að reka verkefni saman í gegnum byggðasamlög. Í rekstri þessara félaga eigum við ekki að láta stjórnmál leiða okkur áfram, heldur góða stjórnarhætti.
Nýlega hafa komið fram alvarlegar ábendingar Innri endurskoðunar Reykjavíkur, vegna gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu. Vegna þeirra er mikilvægt að hefja strax endurskoðun stofnsamninga og eigendastefnu allra byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu hjá landshlutasamtökunum okkar, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Á síðasta aðalfundi SSH hvatti ég til slíkrar endurskoðunar sem myndi leiða til betri stjórnarhátta og eftirlitsumhverfis og benti meðal annars á að núverandi fyrirkomulag ýtir undir óstöðugleika og áhættu. Stöðugar breytingar á stjórnum gerir það til dæmis að verkum að þekking og innsýn stjórnar er takmörkuð en völd starfsmanna aukast á kostnað stjórnar.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær, í þverpólitískri sátt, að beina því til SSH að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti allra byggðasamlaganna. Tryggja þarf hagsmuni og aðkomu þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að byggðasamlögunum og bera ábyrgð á rekstri þeirra. Í endurskoðun á stofnsamningum og eigendastefnu þarf einnig að skerpa hlutverk, umboð og ábyrgð stjórna byggðasamlaganna. Nú þegar er verið að móta nýja eigandastefnu Reykjavíkurborgar og nýja eigendastefnu í stjórn Faxaflóahafna, í þverpólitísku samstarfi og getur sú vinna verið ákveðinn grunnur fyrir byggðasamlögin.
Í mörg horn er að líta, eins og hvort setja þurfi skýrar hæfisreglur um þá sem kosnir eru til stjórnarstarfa, líkt og Innri endurskoðun leggur til. Einnig er sjálfsagt að horfa til lýðræðislegs umboðs, í samræmi við ábendingar Innri endurskoðunar, og skoða hlut stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í samræmi við íbúafjölda og meirihlutaeign. Reykjavíkurborg þarf að vera leiðandi í því samtali til að tryggja hagsmuni borgarbúa allra.