12 jún Velkomin í lifandi sumarborg
Það verður fjölbreytt mannlíf og skemmtilegir viðburðir í miðborginni í allt sumar. Undanfarin ár hefur miðborgin verið langstærsti viðkomustaður erlendra ferðamanna en þeir verða augljóslega færri í ár. Því ákvað borgarráð að styðja við mannlíf, grósku og rekstrarskilyrði í miðborginni með því að gera hana að áhugaverðum áfangastað í sumar, bæði fyrir borgarbúa og landsmenn alla. Fyrsti viðburðurinn var fyrir viku, með hressandi danskennslu á Arnarhóli, og má búast við fjölmörgum slíkum viðburðum í sumar.
Sumarborgin var sett af stað, ekki síst vegna þeirra takmarkana sem nú eru á fjöldasamkomum. Það verður ekki hægt að halda fjölmennar borgarhátíðir í ár. Þess í stað var ákveðið að styðja íbúaráð allra hverfa í Reykjavík til að efla hverfisanda, mannlíf og menningu í sumar. Hverfaráðin munu sjálf ákveða hvaða uppákomur verða í hverfunum í sumar og verður skemmtilegt að sjá fjölbreytnina og hugmyndaauðgina sem mun gera alla Reykjavík að lifandi borg í sumar.
Sumargöturnar opnuðu líka fyrir viku, þar sem skapað er rými fyrir fólk til að koma saman og njóta miðborgarinnar. Lífgað verður upp á sumargöturnar til að taka sem best á móti gestum og gangandi og ýta undir fjölskrúðugt mannlíf. Fjölda bílastæðahúsa er að finna í miðborginni, fyrir þá sem vilja koma akandi, en með því að bæta aðgengi gangandi og hjólandi er fólk hvatt til að stíga út úr bílunum, rölta á milli verslana og njóta þess að sýna sig og sjá aðra.
Annað árið í röð verður sumaropnun í sex leikskólum í borginni, svo að foreldrar reykvískra leikskólabarna geti sjálfir ákveðið hvenær þeim hentar að fara í sumarfrí. Í ár verða sumaropnunar-leikskólar einnig nýttir til að koma til móts við foreldra sem eiga skert sumarleyfi vegna ástandsins. Sumarborgin 2020 verður því alveg frábær og eru allir landsmenn boðnir í borgina til að njóta.