30 jún Sumarið er tíminn
Hún er dökk, myndin sem alþjóðastofnanir hafa síðustu daga dregið upp af efnahagshorfum í heiminum. Þegar kemur að efnahagslegum afleiðingum COVID-19 faraldursins situr Ísland á öðrum og mun verri stað en við gerum varðandi útbreiðslu veirunnar sjálfrar.
Íslandi er spáð meiri efnahagslegum samdrætti fram til loka ársins 2021 en nokkru öðru landi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), óháð því hvort gert er ráð fyrir að faraldurinn taki sig upp að nýju eða ekki. Þar skiptir hlutfallslegt umfang ferðaþjónustunnar mestu máli. Þrátt fyrir þessa miklu niðursveiflu er umfang efnahagsaðgerða stjórnvalda hér minna en í löndunum í kringum okkur. Staðreyndin er sú að opinberar fjárfestingar eru enn lítið meira en í meðallagi þegar horft er til síðustu áratuga. Þar að auki hefur stærstur hluti þessara aðgerða verið í formi lána til fyrirtækja sem hafa ekki enn komist til framkvæmda. Þessi staða veldur sérstökum vonbrigðum þar sem smæð íslensks samfélags ætti að gera okkur kleift að bregðast hraðar við en mun fjölmennari þjóðum.
Blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði hafa samt verið flottir. Það er það sem gerist, eða gerist ekki, utan sviðsljóssins sem er áhyggjuefni. Sá vandræðagangur sem verið hefur á viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum er auðvitað bara framhald af almennum vandræðagangi ríkisstjórnarinnar. Mikilvæg mál hafa orðið bitbein stjórnarflokkanna sjálfra á meðan önnur hafa komið óskiljanlega seint fram og því ekki fengið nægilega ítarlega meðferð á þingi.
Efnahagssamdrátturinn hér á landi var hafinn fyrir COVID-19. Ríkisstjórnarrútan mallaði hins vegar í hlutlausum enda hlustuðu bílstjórarnir þrír ekki á háværar viðvörunarraddir, ekki síst okkar í Viðreisn. Þegar ekki dugði lengur að þykjast hvorki heyra né sjá voru viðbrögðin þau að stíga hraustlega á bensíngjöfina en gleyma að setja í gír. Sumarið er tíminn, söng Bubbi hér um árið. Hann var að syngja um ást og þrá. En sumarið 2020 er sumarið sem ríkisstjórnin verður að hætta að taka undir í viðlaginu og söngla „og þér finnst það í góðu lagi“ því þetta er alls ekki í lagi.