28 júl Sýndarleikur með stjórnarskrá
Nú er loks að bregða til tíðinda í stjórnarskrármálum. Væntanlegar breytingar verða sjálfsagt boðaðar með fjölmiðlaímyndarfundaherferð að hætti ríkisstjórnarinnar. En það er lítil von til að þær snúist um það sem stór hluti þjóðarinnar hefur ítrekað kallað eftir: Jöfnun atkvæðisréttar óháð búsetu. Óháð öllu nema því sjálfsagða réttlæti að hver einasta kosningabæra manneskja fái að eiga eitt heilt atkvæði. Í öðru lagi trúi ég að margir hafi ímyndað sér að það ætti loksins og af marggefnu tilefni að drífa í því að gulltryggja tímabundna úthlutun aflaheimilda í stjórnarskránni til að festa eignarhald þjóðarinnar óumdeilanlega í sessi. Ekki bara í orði, heldur á borði.
Mörgum hefur áreiðanlega verið farið eins og mér, að vona að hér yrði lagður grunnur að raunverulegum breytingum í þágu almannahagsmuna. Auðvitað felst samt vísbending um að svo verði ekki, í því að það má ekki nefna tillögur Stjórnlagaráðs í þessari vinnu frekar en snöruna í hengds manns húsi. Ef einhverjar breytingar sjá dagsins ljós, verða þær lægsti mögulegi samnefnarinn sem íhaldsríkisstjórnarflokkarnir þrír geta komið sér saman um. Til dæmis að kjörtímabil forseta Íslands verði sex ár í stað fjögurra og að hann sitji mögulega í mesta lagi tvö kjörtímabil. Er þetta breyting sem helst brennur á fólki?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra henti svo inn trompi í vikunni. Hún tók eftir því að meðal ríflega 200 umsagna sem bárust í samráðsgátt stjórnvalda, og sneru nota bene langflestar að því að gagnrýna áralanga hunsun stjórnvalda á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs frá 2012, þá var umsögn um að réttast væri að miða kosningarétt við árið sem fólk verður átján ára, en ekki afmælisdag. Þarna er nú mál sem hægt er að taka góðan tíma í að ræða – svo góðan að ekki gefst tími til að vinna aðrar mikilvægari breytingar. Ríkisstjórnin ætlar sér í sýndarbreytingar þrátt fyrir ákall um annað.
Nema jafnvel það að miða kosningarétt við fæðingarár sé of stór biti fyrir þessa ríkisstjórn. Það skyldi þó aldrei vera?