04 sep Stór skref eru svarið við kreppunni
Markmið stjórnvalda og samfélagsins alls núna er að verja heilbrigði, efnahag og líðan þjóðarinnar. Verkefnin eru stór og staðan er þung. Það eru hins vegar jákvæð teikn á lofti því það virðist ástæða til að ætla að þessi kreppa verði ekki löng. Það þarf að slökkva eldinn sem logar.
Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir mikilli niðursveiflu 2020-2021. Þessi spá hefur þýðingu um hvernig aðgerðir geta best leyst vanda þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem hafa orðið fyrir því að innkoma þeirra hefur horfið. Spár gera ráð fyrir 10% atvinnuleysi í haust sem er ekki veruleiki sem við eigum að venjast hér á landi. Ríkisstjórnin hefur nú þegar lagt fram allnokkrar aðgerðir, margar alveg ágætar en skrefin hafa hins vegar verið of lítil, takturinn of hægur og aðgerðirnar hafa ekki reynst henta eins og ætlunin stóð til. Ef ríkisstjórnin er að veðja á að áfallið sé tímabundið eins og fjármálaráðherra hefur sagt, hvers vegna þá að draga aðgerðir á langinn? Hvers vegna ekki að bregðast strax við?
Miðað við þau gögn sem liggja fyrir er eðlilegt að stjórnvöld stígi stór skref til að draga úr högginu á heimili og fyrirtæki og geri það sem þau geta til að draga úr óvissu. Í stuttu máli má segja sem svo að núna ætti einfaldlega að nálgast verkefnið þannig að allar aðgerðir sem eru hvetjandi um að verja og skapa störf séu af hinu góða. Það er ekki bara það mannlega í stöðunni heldur er það ábyrgt efnahagslega. Það á að auðvelda fólki að skapa sér tækifæri og tekjur, lækka álögur á vinnuveitendur og skapa fyrirtækjum hvata til að ráða fólk. Endurreisn atvinnulífsins er háð því að þeir sem misst hafa vinnuna fái sem fyrst aftur atvinnutækifæri. Staða ríkissjóðs núna þolir að mun stærri skref séu tekin. Og það getur reynst samfélaginu og um leið ríkissjóði dýrkeypt að gera of lítið. Samstaða og velferð þjóðarinnar er í húfi. Atvinnuleysi er samfélaginu dýrkeypt og afleiðingar margvíslegar. Þess vegna þarf kraftmiklar aðgerðir strax til að stuðla að því fólk haldi störfum og hjálpi fyrirtækjum að standa af sér tímabundið áfall.
Þegar við stóðum frammi fyrir fyrstu aðgerðum vegna kórónu-faraldursins hafði það allt um góðan árangur að segja að þjóðin stóð saman. Þar hafði þýðingu að þremenningarnar sýndu á spilin, sögðu þjóðinni hver staðan væri og hvers vegna þau lögðu til erfiðar aðgerðir. Ákvarðanirnar hafa oft verið þungbærar en almannavarnarteymið hefur lagt sig fram um að útskýra aðgerðirnar og forsendurnar að baki. Í gær sagði forsætisráðherra hins vegar í þingsal að hún teldi áhugavert að heyra að það þyrfti að útskýra hlutina fyrir fólki. Af orðum hennar að dæma virðist sem hún telji það óþarfa. Stjórnin hefur verið óskýr í svörum og stundum ósamstiga um aðgerðir. Hún opnaði landið í sumar án þess að greiningar virtust liggja fyrir um áhrifin og það sama gerðist aftur þegar hún lokaði landinu. Þess vegna hafa myndast andstæðar fylkingar í landinu, þegar sameiginlegur óvinur er hin bráðsmitandi veira.
Auðvitað er staðan sú að enginn kostur er auðveldur, en þá skiptir hins vegar öllu að stjórnvöld séu skýr um aðgerðir og ástæður að baki. Og útskýri einmitt fyrir fólki hver nálgunin er og hvers vegna ákveðnar aðgerðir í efnahagsmálum eru lagðar til en aðrar ekki. Til dæmis hvers vegna stjórnin segist veðja á að kreppan sé tímabundin en ætlar samt ekki að bregðast við í samræmi við það heldur hefur dreift aðgerðum sínum á næstu árin, sem gerir þær veikari, hægari og ólíklegri til að hjálpa fólki í þeim vanda sem það á einmitt núna.