10 sep Framtíðin er björt
Margir hafa tjáð sig um COVID-ástandið á Íslandi að undanförnu. Sumir tala um stríðsástand og að við séum að ganga í gegnum mestu efnahagslægð síðustu hundrað ára. Að mínu mati þarf ekki að mála skrattann á vegginn með þessum hætti.
Höfum það í huga að Ísland er meðal tíu ríkustu þjóða í heimi miðað við fólksfjölda, af um 200 þjóðum. Ísland er meðal efstu þjóða hvað varðar lífsgæði og öryggi. Við erum með mennta-, samgöngu-, velferðar- og heilbrigðiskerfi auk menningarstarfsemi sem er í efstu sætum meðal landa heims. Höfum í huga að um 90% landsmanna hafa vinnu, mikil gróska er í flestum verslunargreinum, hugbúnaðargeirinn blómstrar og matvælaiðnaðurinn stendur vel.
Í þróunarlöndunum mun COVID, að mati sérfræðinga, leiða til aukinnar fátæktar, hungurs og heilsubrests sem við þurfum ekki að horfa upp á. Að mínu mati er óþarfi að ýkja ástandið, allra síst þarf að láta eins og að við séum komin 100 ár aftur í tímann. Fyrir hundrað árum voru Íslendingar að jafna sig á alheimsveiru og heimsstyrjöld og Ísland var eitt fátækasta land í Evrópu.
Að mati Seðlabankans er hagkerfið að taka um 8% dýfu í ár, sem samsvarar hagvexti síðustu tveggja ára. Þetta þýðir að við erum á sama stað með þjóðarframleiðsluna og árið 2017. Spá Seðlabankans sýnir að við verðum komin upp um 8% á næstu tveimur árum. Ferðamennirnir koma aftur til lands sem verður betur búið undir þá en áður.
COVID-dýfan er að hafa mjög slæm áhrif á ýmsan atvinnurekstur og fjárhag margra heimila, en ástandið í landinu okkar hefur mjög sjaldan verið betra síðastliðin 100 ár. Horfum því björtum augum til framtíðar og hættum að auka kvíða fólks að óþörfu.