24 sep Pólitísk og fagleg stjórn
Að stýra sveitarfélögum, sem stjórnmálamaður í meirihluta, snýst annars vegar um að koma að sinni pólitísku sýn. Á sviði stjórnmálanna geta því oft komið upp deilur og átök um áherslur. Hins vegar snýst það um að tryggja fagleg vinnubrögð í rekstri sveitarfélagsins.
Hjá sveitarfélaginu og fyrirtækjum þess þarf að tryggja góða stjórnarhætti, þar sem stjórnin einbeitir sér að kjarnastarfsemi en týnir sér ekki í deilum og átökum. Að sitja í stjórn fyrirtækis í eigu sveitarfélags þýðir að sitja í samhentri og faglegri stjórn í þágu þess fyrirtækis. Pólitísk átök eiga heima á öðrum vettvangi.
Á síðustu tveimur árum höfum við hjá Reykjavíkurborg unnið að því að tryggja góða stjórnarhætti í öllum okkar rekstri. Við höfum skýrt umboð og ábyrgð, einfaldað boðleiðir og skerpt á hlutverki lykileininga. Við viljum að ákvarðanataka verði betri og áreiðanlegri, með því að einfalda, skýra og skerpa stjórnkerfið.
Í stjórn Faxaflóahafna, þar sem ég sit, höfum við farið í mikla vinnu við að rýna eigendastefnu og stofnsamning Faxaflóahafna til þess að skerpa á hlutverki og ábyrgð stjórnar í umboði eigenda sinna. Í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar höfum við einnig látið góða stjórnarhætti leiða starf stjórnar.
Að gefnu tilefni lagði ég það til, á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir ári, að farið yrði í að endurskoða byggðasamlög á höfuðborgarsvæðinu með góða stjórnarhætti að leiðarljósi. Sameiginleg verkefni okkar undir hatti byggðasamlaga eru Sorpa, Strætó, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og sameiginlegur rekstur skíðasvæða.
Nú er þessi vinna langt komin undir stjórn SSH, þar sem stofnsamningar hafa verið rýndir og verkefni byggðasamlaganna rædd, í vinnu sem allir kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar á höfuðborgarsvæðinu áttu aðkomu að. Nú er verið að meta næstu skref í átt að framtíðarstjórnskipulagi samlaganna, þar sem skilvirkni og hagræði verður haft að leiðarljósi auk góðra stjórnarhátta.
Við viljum innleiða góða stjórnarhætti innan þessara stjórna til að skapa skýran ramma fyrir stjórnirnar til að starfa innan. Þá geta þær unnið að þeim verkefnum og ákvörðunum sem þarf á hverjum tíma, í trausti skilgreindra verkferla og að unnið sé eftir faglegum vinnubrögðum. Slíkt eykur traust á ákvörðunum stjórnar og fyrirbyggir baktjaldamakk og slæm vinnubrögð.
Það er til mikils að vinna að klára endurskoðun á byggðasamlögum höfuðborgarsvæðisins fyrir hag allra íbúa svæðisins.
Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2020