16 okt Til mikils að vinna
Formaður Framsóknar segir stundum fyrstur frá því, sem ríkisstjórnin er með á prjónunum. Þegar fyrstu bráðabirgðaráðstafanir hennar vour kynntar í mars sagði hann til dæmis að við myndum ekki leita inn í sams konar hagkerfi að nýju og breyting yrði á samskiptum við aðrar þjóðir.
Þessi yfirlýsing kveikti vonir um að stjórnarflokkarnir væru þá þegar byrjaðir að ræða kerfisbreytingar og aukna fjölþjóðasamvinnu til að örva hagvöxt. Eða auðvelda atvinnulífinu að hlaupa hraðar eins og fjármálaráðherra orðaði þá hugsun betur nýlega.
Fyrsta mál á dagskrá í verkefninu: Hlaupum hraðar
Hljótt hefur verið um þessi áform þar til formaður Framsóknar upplýsti í Morgunblaðsgrein um liðna helgi að ríkisstjórnin skoði nú að setja að nýju höft á milliríkjaviðskipti með matvæli, sem losað var um fyrir nokkrum árum.
Að sönnu er þetta vísir að kerfisbreytingu. Og athyglisvert er að samkvæmt þessari frásögn virðist Sjálfstæðisflokkurinn líka líta svo á að ný höft séu fyrst mál á dagskrá í verkefninu: Hlaupum hraðar.
Þessi forgangsröðun kann svo að skýra hvers vegna ekki er að finna von um næga stækkun þjóðarkökunnar í fjármálaáætluninni. Til þess að örva hagvöxt þurfum við að ryðja hindrunum úr vegi en ekki setja upp nýjar.
Málamiðlun um krónuna
Í síðasta helgarblað Morgunblaðsins var önnur og öllu áhugaverðari grein eftir Daða Má Kristófersson prófessor í hagfræði og varaformann Viðreisnar og Stefán Má Stefánsson fyrrum lagaprófessor. Hún ber yfirskriftina: Málamiðlun í gjaldeyrismálum.
Þar er, gagnstætt því sem rætt er við ríkisstjórnarborðið, fjallað um kerfisbreytingu til að tryggja stöðugleika krónunnar. Það er áhrifaríkasta leiðin til að örva hagvöxt á næstu árum og auðvelda fjármálaráðherra að hlaupa hraðar með atvinnulífinu.
Hugmynd þeirra er að vísu ekki alveg ný af nálinni. Stefán Már og Guðmundur Magnússon prófessor í hagfræði og fyrrum háskólarektor lýstu í sameiginlegri grein þegar haustið 2001 efasemdum um fráhvarf frá fastgengisstefnunni, sem lögfest var fyrr á því ári.
Í staðinn bentu þeir á ávinning af því að tryggja stöðugleika krónunnar í samstarfi við Evrópusambandið á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Önnur málamiðlunarhugmynd
Sumarið 2008 kynnti Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra hugmynd um að Ísland gæti óskað eftir inngöngu í Myntbandalag Evrópu og tekið upp evru á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en án þess að stíga lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu.
Þessi hugmynd gengur lengra en tillaga prófessoranna. En það breytir ekki hinu að hún var einnig hugsuð sem tilraun til málamiðlunar.
Eðlilega spyrja menn hvort málamiðlun sé til einhvers.
Flestir viðurkenna að óstöðug króna er hindrun í viðskiptum og að hún er Þrándur í Götu framleiðniaukningar og um leið bættra lífskjara. Og ekki fer á milli mála að hún ýtir líka undir mismunun og misskiptingu í þjóðfélaginu.
Hægt að hlaupa af stað strax
Vandinn er þessi: Þótt margir styðji fulla aðild að Evrópusambandinu, sem myndi tryggja Íslandi aðild að evru, eru aðrir hikandi. Í báðum hópum er þó víðtækur skilningur á mikilvægi stöðugrar myntar. Tillögur prófessoranna og Björns Bjarnasonar miða að því að brúa bilið.
Fyrirfram er ekki unnt að gefa sér hver afstaða Evrópusambandsins yrði. Ýmsir efast um áhuga þess. Formælendur beggja málamiðlunarhugmyndanna hafa þó fært rök fyrir því að það yrði bæði lögfræðilega og pólitískt erfitt fyrir Evrópusambandið að hafna viðræðum um þetta álitaefni.
Fallist Evrópusambandið á málamiðlun af þessu tagi er kosturinn við hana sá að unnt er að hlaupa af stað strax. Það er til mikils að vinna.
Þeir hlaupa seint hraðar
Málamiðlanir eru aftur á móti ekki líklegar til að hafa áhrif á hina, sem líta svo á að sérhagsmunir þeirra fáu og sterku, sem hagnast mest á sveiflum krónunnar, eigi að standa framar hagsmunum þjóðarheildarinnar.
Þeir munu líka seint hlaupa hraðar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. október 2020