26 okt Enn til varnar málamiðlun í gjaldeyrismálum
Jóhann Páll Jóhannsson skrifar á Kjarnann andsvar við svari mínu við grein hans. Ég þakka honum það. Málefnaleg umræða um gjaldeyrismál er mjög af hinu góða, að mínu mati.
Fyrst finnur Jóhann að notkun minni á gæsalöppum í millifyrirsögnum í svargreininni. Af minni hálfu var um stílbragð að ræða sem átti að fanga kjarna hvers atriðis sem tekið var fyrir í svargreininni. Ekki var þarna um beinar tilvitnanir í grein Jóhanns að ræða. Það mátti misskilja. Mér er bæði ljúft og skylt að biðja Jóhann afsökunar á því.
Ég er sáttur við þá punkta sem Jóhann hefur sett fram og tel þá, ásamt andsvörum mínum, ágæta samantekt á kostum og göllum ólíkra leiða í gjaldeyrismálum. Fremur en að svara grein Jóhanns vil ég því nota þetta tækifæri til að taka saman þessa kosti og galla ólíkra leiða, lesendum til glöggvunar.
Krónan, kostir og gallar
Kostir krónunnar hafa mikið verið ræddir. Ljóst er að sjálfstæður gjaldmiðill skapar ákveðinn sveigjanleika í hagstjórn sem getur komið sér vel. Sérstaklega auðveldar sjálfstæður gjaldmiðill leiðréttingu mistaka, t.d. í gerð kjarasamninga, og að takast á við áföll. Mögulegt er að lækka raunlaun og bæta samkeppnisstöðu með því að leyfa gengi að falla. Rétt er þó að hafa í huga að þetta „meðal“ við hagstjórnaráskorunum er því miður þannig að erfitt er að stjórna skammtastærðinni, eins og Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri hefur bent á. Þannig er hætta á að krónan falli mun meira en nauðsynlegt er til að leiðrétta raunlaun, með tilheyrandi kjararýrnun. Þetta upplifðu Íslendingar m.a. 2001 og 2008.
Gallarnir eru að sjálfstæð mynt veldur hærri viðskiptakostnaði, dregur úr samkeppni, skapar óvissu um viðskiptakjör útflutningsfyrirtækja, ýtir undir verðbólgu og leiðir til hærra vaxtarstigs. Öll þessi vandamál verða þeim mun meiri því minna sem myntsvæðið er. Færri og minni vondar fréttir þarf til að hreyfa við gengi lítils gjaldmiðils en stórs.
Evran, kostir og gallar
Kostir aðildar Íslands að evrusvæðinu eru að gallar krónunnar hætta að vera vandamál. Viðskiptakostnaður lækkar gagnvart evrusvæðinu, óvissa um viðskiptakjör hverfur og gengissveiflur gagnvart öðrum löndum innan myntsvæðisins hætta að hafa áhrif á verðlag. Vextir lækka og samkeppni á mörkuðum svo sem fjármálastarfsemi og tryggingum verður möguleg.
Gallarnir er að sveigjanleiki krónunnar hverfur. Mistök í hagstjórn eða áföll verða ekki leyst með lækkun gengis og þar með raunlauna. Reyna mundi verulega á sveigjanleika vinnumarkaðar ef hagstjórnarvandamál eiga ekki að leiða til atvinnuleysis. Einnig er það nokkuð samdóma álit sérfræðinga að aðild að ERM II og upptaka evru sé ekki möguleg nema með aðild að Evrópusambandinu. Það yrði ekki gert nema með víðtækri pólitískri sátt, sem virðist nokkuð fjarlægur möguleiki í dag.
Málamiðlunin, kostir og gallar
Málamiðlunin felst í tengingu gengis krónunnar við evru með gagnkvæmum samningum við Evrópusambandið. Slík tenging hefur nær alla sömu kosti og galla og upptaka evru. En hún krefst ekki aðildar að Evrópusambandinu og væri því möguleg strax, ef pólitískur vilji er fyrir hendi hér á landi og innan Evrópusambandsins. Á hinn bóginn er varanleiki slíkrar lausnar einungis tryggður meðan báðir aðilar eru í stakk búnir til að verja fyrirkomulagið. Ég tel það mögulegt, þó aðrir efast.
Af hverju ekki fljótandi krónu?
Sé fyrirkomulag gjaldeyrismála í heiminum skoðað og borið saman við fólksfjölda kemur í ljós að kostir sjálfstæðrar myntar eru forréttindi sem fyrst og fremst fjölmennar þjóðir leyfa sér. Litlar sjálfstæðar myntir eru sjaldgæfar. Mynd 1 sýnir samantekt höfundar á fyrirkomulagi gjaldeyrismála og fólksfjölda fyrir lönd heimsins.
Myndin sýnir að lang flestar minni þjóðir nota annað hvort gjaldmiðil annarra ríkja eða tengja gjaldmiðil sinn við aðra gjaldmiðla. Einungis meðal stórþjóða er fljótandi gengi algengasta fyrirkomulag gjaldeyrismála. Hverju sætir? Svarið blasir við. Aðrar þjóðir hafa komist að því að kostnaður sjálfstæðrar myntar réttlæti ekki ábatann.
Einföld grundvallarlögmál leiða til þess að óstöðugleiki er fylgifiskur smæðar. Minni frávik í einum geira lítils og fábreytts hagkerfis þarf til að hreyfa samtöluna fyrir hagkerfið allt en í stóru fjölbreyttu hagkerfi. Því meiri óstöðugleiki því meiri sveiflur í gengi, því meiri sveiflur í gengi því meiri kostnaður af sjálfstæðri mynt.
Við virðumst stundum gleyma því hvað er stórt og hvað er lítið í þessari umræðu. Frændur okkar Norðmenn eru með sjálfstæða mynt, norsku krónuna. Gengi hennar hefur verið mun stöðugra en gengi íslensku krónunnar, þrátt fyrir að norska hagkerfið sé á margan hátt ekki ósvipað því íslenska. Íslenska hagkerfið er hins vegar lægra hlutfall af því norska en hagkerfi Hafnarfjarðar er af íslenska hagkerfinu. Er hugmyndin um Hafnfirska krónu góð? Mundi það bæta lífskjör og framtíðarhorfur Hafnfirðinga?
Þeir aðilar sem af alvöru hafa skoðað möguleika Íslands í gjaldeyrismálum hafa allir komist að þeirri niðurstöðu að eini gjaldmiðillinn sem raunverulega komi til greina að tengja gengi krónunnar við sé evran. Evrusvæðið er lang stærsta viðskiptablokkin sem Ísland á viðskipti við. Einnig skapar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sterkan innri markað fyrir vinnuafl, sem mundi auðvelda tengingu Íslands við evrusvæðið. Jóhann, og margir aðrir, hafa bent á að hagsveiflur á Íslandi og á evrusvæðinu séu ekki í takt. Því gæti tengin sem þessi orðið okkur spennitreyja í hagstjórn. Ekki er hægt að neita því. (Benda má á að augljósasti valkostur Hafnfirðinga í gjaldeyrismálum er íslenska krónan, þrátt fyrir að hagur Hafnarfjarðar og Íslands ganga ekki alltaf í takt.)
Vandamálið er þetta. Sá óstöðugleiki sem krónan skapar hefur reynst Íslandi mjög dýr. Íslensk útflutningsfyrirtæki þurfa að geta staðið af sér löng tímabil hás raungengis með háum raunlaunum og erfiðri samkeppnisstöðu. Þetta hefur stuðlað að einhæfni útflutningsatvinnuveganna hér á landi. Það sem helst þrífst eru greinar sem byggja á ódýrum aðgangi að íslenskum auðlindum. Á þessu þarf að verða breyting ef mögulegt á að vera að tryggja sambærileg kjör fyrir komandi kynslóðir og þeim bjóðast í nágrannalöndunum. Lausnin getur ekki að eilífu verið að ganga bara á næstu auðlind. Umfang þeirra er endanlegt.
Ég er þeirrar skoðunar að gjaldmiðlamálin séu brýnt mál sem verði að ræða strax. Ég er einnig þeirrar skoðunar að ekki eigi að spyrða það við aðrar og flóknari spurningar, s.s. aðild að Evrópusambandinu. Af þeim sökum tel ég hugmynd okkar Stefáns Más þess virði að ræða.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar.