11 nóv Bakslag í jafnréttisbaráttunni?
Sem móðir þriggja barna er ég í hópi foreldra sem upplifa aukið álag heima á tímum faraldursins. Allir eru meira heima, skóli ýmist í fjarnámi eða skóladagurinn skertur og allar tómstundir hættar. Á sama tíma situr mamma á fjarfundum í eldhúsinu. Vinna við að skipuleggja daglegan veruleika barna er minni, skutlið farið og allt utanaðkomandi álag er léttara en verkefnin heima eru þyngri. Sóttvarnayfirvöld hafa lagt sig fram um að skólarnir fái að starfa og fyrir það er ég, eins og flestir foreldrar, þakklát. Það bætir líðan barna og auðveldar líf foreldra ungra barna. Allar mælingar á hinu ólaunaða starfi heima segja okkur að enn er það svo að f leiri verk á heimilinu eru unnin af konum. Þetta á vitaskuld ekki við um öll heimili og ég trúi því að hér hafi orðið góðar breytingar. En þessi staða er hluti af því bakslagi sem teikn eru á lofti um að hafi orðið.
Hættir ofbeldi eftir COVID?
Í gær tók ég þátt í pallborði, inni í eldhúsi, á ráðstefnunni Reykjavík Global Forum – Women Leaders þar sem umfjöllunarefnið var áhrif COVID-19 á jafnréttisbaráttuna. Stutta svarið er að staðan vegna heimsfaraldursins hefur bein og óbein áhrif á stöðu kvenna. Staða kvenna er vitaskuld ólík og viðkvæmir hópar standa veikar en aðrir. Efnahagskreppan er til dæmis talin verða þess valdandi að 47 milljón fleiri konur muni enda í sárafátækt fyrir 2021.
Áður en ég tók sæti á þingi vann ég sem saksóknari hjá ríkissaksóknara. Þar var ég aðallega með kynferðisbrotamál til meðferðar. Í starfinu varð ég meðvituð um að heimilið er sumum konum enginn griðastaður, heldur beinlínis hættustaður. Og konur verða núna fyrir meira of beldi einfaldlega vegna þess að þær eru meira heima. Í umræðunni er þetta of beldi svo samtvinnað COVID-19 að það er hætta á að einhverjir haldi að eftir heimsfaraldurinn muni þessi vandi bara hverfa. Ofbeldi inni á heimilum varð ekki til vegna COVID-19 heldur er aðeins að aukast vegna ástandsins. Er gefið að maður sem beitir konu sína ofbeldi muni hætta við það eitt að það kemst betri regla á vinnuna hans? Ég hef ekki sterka sannfæringu fyrir því.
Ísland, best í heimi?
Ísland trónir efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti. Það höfum við gert í rúman áratug. Af því getum við verið stolt. Þessi staða getur hins vegar leitt til að einhverjir trúi því að við séum komin í höfn. Ég var í hópi þeirra sem táruðust við að sjá Kamala Harris á sviði sem væntanlegan varaforseta Bandaríkjanna. Íslenskir heimsmeistarar í jafnrétti hafa samt bara upplifað konu sem forseta einu sinni og forsætisráðherra tvisvar. Enn hefur það aldrei gerst að hlutfall kynja sé jafnt á þingi. Er það tilviljun ein sem veldur því að karlar hafa alltaf í sögu Alþingis verið í meirihluta? Það hafa ekki setið fleiri konur en þrjár í Hæstarétti á meðan dómarar þar voru níu. Oftast hafa þær verið færri. Forstjórar í fyrirtækjum eru í miklum meirihluta karlmenn, þótt við séum með lög um kynjakvóta í stjórnum. Samt komast konur ekki á toppinn.
Staðan á Íslandi er góð í samanburði við önnur ríki. Þessar tölur segja okkur samt að jafnrétti hefur ekki náðst. Og þessi árangur náðist ekki bara með tímanum. Tíminn leiddi okkur ekki hingað. Biðin ekki heldur. Þessum breytingum var náð í gegn með baráttu. Öllum þessum skrefum var mætt með andstöðu. Við höfum sett framsækin lög um fæðingarorlof, lög um jafnlaunavottun og lög um kynjakvóta í stjórnum svo eitthvað sé nefnt. Við erum meðvituð um þýðingu þess að dagvistun sé aðgengileg. Stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega gæta að kynjahlutföllum. Og ég lít á samþykkisregluna sem grundvallarskilaboð um kynfrelsi kvenna.
Stór skref strax
Stjórnvöld einhverra ríkja sæta nú færis og ráðast að konum og réttindum þeirra. Það eru kjöraðstæður til að veikja mannréttindi þegar athyglin er á heimsfaraldri og þungri efnahagskreppu. Konur í Póllandi finna hins vegar að þær eru ekki einar í baráttunni. Við stöndum með þeim. En hvað ættu stjórnmálamenn að gera þegar viðvörunarljós blikka á heimsvísu hvað varðar stöðu kvenna? Í hinu norræna samhengi ættum við einfaldlega að byrja á því að vakna. Öll áhersla er eðlilega á efnahagsaðgerðum en það má ekki gleyma hver áhrif jafnréttis eru á samkeppnisstöðu og vaxtarmöguleika. Ríkisstjórnir víða um Evrópu hafa boðað grænar áherslur í efnahagsaðgerðum. Jafnrétti hefur jákvæð áhrif á hagkerfið, á lög og rétt og samfélagið allt. Jafnrétti er samofið efnahagslegri viðreisn. Hluti af því að koma sterk út úr kreppunni er að við tryggjum jafnréttismálin með í efnahagsaðgerðunum. Þar þurfum við að taka stór skref strax.