Nærsýni má laga

Þorsteinn Pálsson

Fyrir tveimur vikum greindi Fréttablaðið frá því að Seðlabankinn hafi þrýst á ríkisstjórnina að ráðast í stóra skuldabréfaútgáfu erlendis í þeim tilgangi að styrkja gengi krónunnar.

Þetta bendir til þess að Seðlabankinn sé ekki eins viss nú eins og í vor um að geta fjármagnað halla ríkissjóðs.

Vissulega myndi ráðstöfun af þessu tagi styrkja gengið til skamms tíma. Sá styrkur ætti hins vegar ekki rætur í verðmætasköpun og myndi að sjálfsögðu hafa öfug áhrif á gengið þegar kæmi að skuldadögum.

Ef að líkum lætur yrði þetta ávísun á ýktari og dýpri sveiflu síðar. Hugmyndir af þessu tagi lýsa því hefðbundnum nærsýnisviðbrögðum.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar finnast fá plön um hvernig fjármagna á níu hundruð milljarða króna halla ríkissjóðs. Þar fer lítið fyrir langtíma stefnumótun.

Fyrir hverja er hún?

Meginhluti gjaldeyristekna landsins verður til við hagnýtingu fiskimiða, orku og náttúru. Öll veigamestu fyrirtækin í þessum þremur auðlindagreinum nota evrur eða dollara. Nýting íslenskra auðlinda stendur því fyrir utan krónuhagkerfi Seðlabankans.

Lífeyrissjóðir miða skuldbindingar sínar við verðtryggðar krónur af því að þær geyma verðmæti. Óverðtryggða krónan getur ekki gegnt því hlutverki. Slíkir gjaldmiðlar eru fánýtir.

Stærð lífeyrissjóðanna jafnast á við tvöfalda landsframleiðslu. Sýn stjórnvalda miðast þó enn við að troða þeim inn í hagkerfi, sem þeir eru löngu vaxnir upp úr. Nauðsynleg áhættudreifing er ógerleg í krónuhagkerfinu.

Seðlabankinn stýrir peningamálunum með vöxtum á óverðtryggðar krónur, sem aðeins eru notaðar til að skapa lítinn hluta gjaldeyristeknanna og duga ekki sem viðmið fyrir langtímaskuldbindingar velferðarkerfisins. Fyrir hverja er hún?

Helsta hindrun nýsköpunar

Ísland er eina landið í Evrópu, sem þurft hefur að þola gjaldmiðilshrun vegna kórónuveirukreppunnar.

Þrátt fyrir vaxtalækkun Seðlabankans eru fyrirtækin að greiða mun hærri vexti en í samkeppnislöndunum. Að sama skapi er erfiðara fyrir íslenskt atvinnulíf að hlaupa hraðar, eins og fjármálaráðherra talar af ráðvísi um að nauðsynlegt sé.

Allir stjórnmálaflokkar eru á einu máli um að á næsta áratug verður þunginn í nýrri verðmætasköpun að koma frá þekkingariðnaði. Styrkir hafa réttilega verið stórauknir í því skyni. En á endanum eru það almennu forsendurnar sem ráða úrslitum.

Flestallir, sem á þessu sviði starfa, segja að óstöðugur gjaldmiðill sé stærsta hindrunin í því langhlaupi, sem fram undan er. Sjálfbær hagvöxtur veltur á því að þessi hindrun hverfi. Samt á hún að standa.

Velferðarkerfið er áhættusjóður krónunnar

Lágt skuldahlutfall ríkissjóðs dugar ekki eitt og sér til þess að gífurleg lántaka hans verði sjálfbær næsta áratug. Vaxtabyrðin skiptir meira máli.

Á næsta áratug þurfa hagvaxtartölur að vera umtalsvert hærri en vextir á lánum ríkissjóðs. Það er eina leiðin til að vaxa út úr skuldavandanum. Annars þurfum við að vinna á hallanum annað hvort með því að hækka skatta eða skerða velferðarkerfið.

Óvissa um þetta er veruleg og meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Meðan stefnan er ekki skýr að þessu leyti verður velferðarkerfið að eins konar áhættusjóði fyrir krónuna.

Ef draga á úr þessari áhættu er upptaka evru eða tenging við hana óhjákvæmileg.

Langtímastefna

Að fjármálaeftirlitinu meðtöldu starfa 298 manns í Seðlabankanum. Ef bankinn ætti að vera jafn stór að tiltölu og allir 13 Seðlabankar Bandaríkjanna til samans ættu starfsmenn að vera 23. Þrátt fyrir þessa hlutfallslegu yfirburði Íslands er ekki unnt að stýra óverðtryggðu krónunni þannig að hún sé samkeppnishæf. Er ekki einfaldlega kominn tími til að horfast í augu við veruleikann og móta langtímastefnu í gjaldmiðilsmálum? Atvinnulífið verður á næsta áratug að hlaupa hraðar en nokkru sinni fyrr. Sú verðmætasköpun er aftur forsenda varðstöðu um velferðarkerfið. Hefur þörfin á stöðugum gjaldmiðli áður verið brýnni?

Flestir landsmenn vita að nærsýni má leiðrétta með gleraugum. Það er líka hægt að laga pólitíska nærsýni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. nóvember 2020