14 nóv Innan þjónustusvæðis
Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu hugsum ekki bara um það sem eitt atvinnusvæði, heldur í raun sem eitt búsetu- og þjónustusvæði. Á höfuðborgarsvæðinu er fjölbreytt atvinnulíf, menningarlíf og mannlíf sem við öll njótum, þvert á hreppamörk. Við nýtum líka útivistarsvæðin saman. Reykvíkingar eða Garðbæingar stoppa ekki við bæjarmörkin í Heiðmörk og segja „hingað og ekki lengra“.
Sveitarfélögin sem hér eru þurfa að taka stærri skref til þess að koma til móts við þennan veruleika. Það eru mörg sóknarfæri í slíku samtali, bæði fyrir íbúa og atvinnulífið.
Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær lagði ég til að byrjað yrði á að skoða hvernig sveitarfélögin geti aukið þjónustu við íbúa og opnað þau gæði sem við þegar bjóðum fyrir fleirum með því að bjóða upp á aðgangskort, þvert á sveitarfélög, fyrir sundlaugar, menningarhús og bókasöfn.
Höfuðborgarkort
Höfuðborgarbúar njóta nú þegar menningar og sundlauganna þvert á sveitarfélög og geta fengið bækur lánaðar á milli bókasafna í gegnum bókasafnakerfið Leitir. En þeim er ekki gert auðvelt fyrir.
Ég hef trú á að fleiri myndu kaupa aðgangskort sem myndi gilda fyrir allt höfuðborgarsvæðið, frekar en einungis í einu sveitarfélagi. Með slíkri samvinnu erum við augsýnilega að auka þau gæði sem í kortunum felast.
Fyrir svona samvinnu þarf ekki að ganga mjög langt. Það þarf ekki að sameina öll sveitarfélögin í eitt risasveitarfélag, þar sem hátt í tveir þriðju íbúa landsins myndu búa. Það þarf ekki heldur að stofna enn eitt byggðasamlagið með stjórnum og flókinni stjórnsýslu. Rekstur sundlauganna, menningarhúsanna og bókasafnanna yrði enn í höndum hvers sveitarfélags fyrir sig.
Það eru fordæmi fyrir sundlaugar
Við höfum fordæmi fyrir samstarfi á öllum þessum sviðum. Mörg sveitarfélög hafa t.a.m. gert samning við eina líkamsræktarstöð og hafa korthafar hennar einnig aðgang að sundlaugum, þvert á sveitarfélög. Ef hægt að gera slíkan samning við einkaaðila, þá hljóta sveitarfélögin líka að geta gert samstarfssamning sín á milli.
… og menningarhús
Það er verið að skoða stofnun áfangastofu fyrir höfuðborgarsvæðið samkvæmt sóknaráætlun SSH og nýrri ferðamálastefnu Reykjavíkur. Góð reynsla er af því að bjóða upp á eitt „borgarkort“ fyrir ferðamenn, þar sem innifalinn er aðgangur að öllum menningarhúsum Reykjavíkur, sem hægt væri að útvíkka fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Slíkt samstarf væri hægt að útvíkka enn frekar til að ná líka til íbúa höfuðborgarsvæðisins.
… og bókasöfn
Bókasöfnin okkar eru að þróast í takt við nýja tíma og bjóða upp á mun meira en bara bækur. Bókasöfnin eru að verða staðir til að koma saman, skapa, grúska, halda fundi og læra eitthvað nýtt. Það er ekkert sem segir að þau sem nýta sér þessar þjónustu bókasafnanna, eins og saumaklúbbar eða vinahópar, þurfi að búa í sama sveitarfélagi.
Með því að opna þessi aðgangskort, þvert á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, er hægt að einfalda líf íbúa, auka valfrelsi þeirra og bæta upplifun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020