18 nóv Bjargráð – ekki bólur
Síðastliðna viku hafa borist afar jákvæðar fréttir sem varða framtíðarhorfur heimsins. Tvö lyfjafyrirtæki, Pfizer og Moderna, hafa tilkynnt um árangur af þróun bóluefna gegn kórónuveirunni. Ísland hefur tryggt sér aðgang að báðum gegnum samstarf við Evrópuþjóðir. Ekki er hægt að undirstrika nægilega hve jákvæðar og mikilvægar þessar fréttir eru. Nú er í fyrsta skipti hægt að tímasetja hvenær yfirstandandi faraldri líkur og lífið getur færst aftur í eðlilegt horf.
Íslensk stjórnvöld hafa getað gripið til umfangsmikilla mótvægisaðgerða í skjóli sterkrar stöðu ríkissjóðs og umfangsmikils gjaldeyrisvaraforða. Aðgerðirnar hafa samt litast af óvissu um hvort og hvenær bóluefni fyndist. Aðgerðirnar hafa verið fjölbreyttar og áætlanir gert ráð fyrir að þær gætu staðið í nokkurn tíma. Nú þegar verulega hefur verið dregið úr þessari óvissu er mikilvægt að endurmeta þessar aðgerðir þannig að árangur þeirra verði sem mestur.
Fjármálaráð hefur ítrekað bent á þá hættu sem getur fylgt stórauknum umsvifum ríkisins. Séu slíkar aðgerðir til langs tíma er hætta á að þær nái yfir uppgangstímabil í hagkerfinu og valdi þenslu. Fjármálaráð hefur því lagt áherslu á að ríkið geri ráð fyrir reglulegri endurskoðun aðgerðanna til að forðast það. Undir þetta verður að taka.
Hjarðónæmi í okkar helstu viðskiptalöndum um og eftir mitt næsta ár mun opna að nýju fyrir þau viðskipti sem lokuðust þegar faraldurinn skall á. Nærtækustu tækifærin til að auka verðmætasköpun og skapa störf er að endurvekja þau viðskipti. Því ætti að endurskoða áætlanir stjórnvalda með það að markmiði að gera þessar atvinnugreinar í stakk búnar til þess að grípa aftur þau tækifæri sem hurfu með faraldrinum.
Þrátt fyrir samdrátt og mikla aukningu í atvinnuleysi hefur kaupmáttur haldist nokkuð stöðugur frá því faraldurinn hófst. Það þýðir að mörg fyrirtæki og einstaklingar finna lítið fyrir neikvæðum efnahagslegum afleiðingum faraldursins. Óþarfi er að grípa til aðgerða sem styðja þennan hóp. Almennar skattalækkanir sem og innspýting fjármagns inn í bankakerfið eru dæmi um slíkar aðgerðir. Raunar virðist innspýting fjármagns inn í bankakerfið fyrst of fremst hafa leitt til uppgangs og verðhækkana á fasteignamarkaði. Fjárfestingar hins opinbera sem ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir mitt næsta ár eru einnig því marki brennd að skapa fremur hættu á þenslu en að leysa aðsteðjandi vanda.
Sértækar aðgerðir, sem beinast að þeim fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir tjóni og þeim einstaklingum sem misst hafa vinnuna eru líklegri til að koma að gagni. Hlutabætur, tekjutenging atvinnuleysisbóta, hækkun bóta, menntunarúrræði og félagslegur stuðningur við atvinnulausa eru dæmi um aðgerðir í þágu þeirra sem líklegar eru að draga úr neikvæðum áhrifum kreppunnar. Gagnvart sjálfstætt starfandi einstaklingum og fyrirtækjum þarf að beita beinum stuðningi. Nágrannalönd okkar, t.d. Danmörk og Þýskaland, hafa þegar hafið slíkar aðgerðir. Þeim er ætlað að viðhalda getu fyrirtækja til að bregðast við þegar eftirspurn eftir framleiðslu þeirra tekur aftur við sér upp úr miðju næsta ári. Vísir að þessu er þegar til staðar, t.d. gagnvart listamönnum. Aðgerð af sambærilegri stærðargráðu gagnvart ferðaþjónustunni er líklega öruggasta leiðin til þess að tryggja að kreppan verði stutt.
Þessar aðgerðir þarf að fjármagna. Í því samhengi virðist augljósast að stefnu Seðlabankans verði breytt þannig að hann auki áherslu á að kaupa skuldabréf ríkis og sveitarfélaga til að auka rými þeirra til aðgerða, fremur en að fjármagna uppgang á fasteignamarkaði. Slík útfærsla magnbundinnar íhlutunar mundi auðvelda ríki og sveitarfélögum að grípa til nauðsynlegra aðgerða, nú þegar endamarkið er í augsýn.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar