02 des Sálarlíf í kreppu
Félagslegar afleiðingar kreppu eru þekktar. Fjárhagsáhyggjum og atvinnumissi fylgja enda margvíslegir erfiðleikar. Allt hefur þetta áhrif á sálarlíf þjóðar. Það ætti þess vegna að vera sérstakt kappsmál stjórnvalda núna að styðja við fólk og fjölskyldur ekki aðeins með markvissum efnahagsaðgerðum heldur um leið með því að mæta öðrum dökkum birtingarmyndum kreppunnar. Mikilvægur liður í því er til dæmis að auka möguleika fólks á að sækja sér meðferð hjá sálfræðingum.
Á næstu vikum verða fjárlög ársins 2021 samþykkt. Þar hefur þingheimur tækifæri til að fjármagna nýsamþykkt lög um niðurgreiðslu sálfræðimeðferðar og annarrar klínískrar samtalsmeðferðar sem taka eiga gildi 1. janúar. Frumvarpið var lagt fram af þingflokki Viðreisnar en naut stuðnings þingmanna úr öllum flokkum og samþykkt samhljóða. Það var þannig skýr vilji þingsins að tryggja aðgengi fólks að þessari tegund heilbrigðisþjónustu. Í þessari lagasetningu felst mikilvæg réttarbót, ekki síst fyrir ungt og tekjulágt fólk sem og fólk á landsbyggðinni þar sem aðgengi að úrræðum hins opinbera er stundum lakara. Þrátt fyrir skýran pólitískan vilja og þrátt fyrir ný lög er ekki gert ráð fyrir eyrnamerktu fjármagni í þessa þjónustu í fjárlagafrumvarpinu.
Það er óskandi að fjárlögin verði ótvíræð um það markmið að ætla að standa vörð um líðan og geðheilbrigði á tímum sem þessum. Það markmið er og hefur alltaf verið mikilvægt, en í þungri atvinnuleysiskreppu og óvissu sem heimsfaraldur hefur í för með sér hefur mikilvægið aldrei verið augljósara.
Það mun til lengri tíma reynast þjóðhagslega hagkvæmt að gera fólki kleift að leita sér þessarar heilbrigðisþjónustu með niðurgreiðslum hins opinbera. Í því felst jákvæð og heilbrigð nálgun um velferð og líðan þjóðar. Vilji þingsins liggur skýr fyrir, sálfræðifrumvarp Viðreisnar er orðið að lögum. Nú þarf ríkisstjórnin að fylgja þessum vilja þingsins eftir í verki með því að veita landsmönnum öllum stuðning til þess að geta leitað sálfræðiþjónustu óháð efnahag.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.