10 des Réttlátur sjóður fyrir alla
Reykjavíkurborg hefur að undanförnu fengið áskoranir nokkurra sveitarfélaga um að leysa ágreining sinn við ríkið vegna reglna um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með öðrum hætti en með málshöfðun. Það hefur borgin reynt, án árangurs. Eftir bréfaskriftir við ríkið í rúmt ár, þar sem ekki hefur orðið við óskum borgarinnar um viðræður, virðast aðrar leiðir ekki færar.
Ekki krafa á Jöfnunarsjóð
Það er engum blöðum um það að fletta að krafan beinist ekki gegn Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heldur ríkissjóði. Það er ekki krafa Reykjavíkurborgar að kostnaður falli á önnur sveitarfélög.
Jöfnunarsjóður á ekki aðild að þessu máli og dómsorð myndi ætíð fjalla um skyldu ríkissjóðs til að greiða kröfu Reykjavíkurborgar. Við öll sem erum á sveitarstjórnarstiginu vitum að næstu ár verða erfið og erum sammála um að ekki má þar bæta á skerðingar úr Jöfnunarsjóði.
Sveitarfélögum egnt saman
Það sem önnur sveitarfélög óttast er að ríkið muni ganga á sjóði Jöfnunarsjóðs til að greiða skuldir sínar. Þessi ótti er skiljanlegur, í ljósi þess að það hefur ríkið gert áður, gegn mótmælum sveitarfélaga.
Hann er einnig skiljanlegur því ráðherra sveitarstjórnarmála hefur reynt að egna sveitarfélögum saman með því að stilla málinu þannig upp að tap ríkisins sé tap annarra sveitarfélaga. Það er ódýr pólitík, til að verja hagsmuni ríkisins. Í þessu máli talar hann ekki máli sveitarstjórnarstigsins. Ef ríkið gengur í sjóði Jöfnunarsjóðs, sem sína eigin, kallar það á sérstaka ákvörðun ríkisins sem sveitarfélögin þurfa að standa saman gegn.
Viljum sömu úthlutunarreglur
Málið snýst um hvort útiloka megi eitt sveitarfélag frá úthlutunum, á þeirri forsendu einni að sveitarfélagið sé Reykjavík. Án lagastoðar er Reykjavík útilokuð frá því að vera metin eftir sömu úthlutunarreglum og önnur sveitarfélög. Öll sveitarfélög, nema Reykjavík, fá t.a.m. greiðslur vegna barna af erlendum uppruna. Þar á meðal eru stór og stöndug sveitarfélög sem fullnýta ekki sína tekjustofna.
Sem borgarfulltrúa ber mér að gæta hagsmuna Reykvíkinga, grunnskóla Reykjavíkur og allra reykvískra barna. Þetta er sanngirnismál, að borgin sé metin á jafnræðisgrunni við önnur sveitarfélög.
Best hefði verið að leysa málið í viðræðum við ríkið. En ríkið hefur ekki gefið okkur annan kost. Það er því rétt að fjarlæga pólitíkina í málinu og láta dómsstóla úrskurða. Það mun tryggja réttlæti og sanngjarna niðurstöðu.