02 jan Ár samstöðu og seiglu
Þetta er ár sem verður lengi í minnum haft. Margir munu jafnvel minnast þess sem annus horribilis. Þetta er árið sem hófst á snjóflóðum á Flateyri og í Súgandafirði. Sem betur töpuðust þar einungis veraldlegar eignir og mannbjörg varð. En umhverfið okkar var staðráðið í að minna okkur á að það eru ekki alltaf mannfólkið sem ræður för. Umhverfið hélt áfram að minna á sig með óveðri og rauðum viðvörunum, jarðhræringum við Grindavík, heimsfaraldri sem hefur sett líf okkar nokkuð úr skorðum. Nú síðast með aurskriðum á Seyðisfirði.
Að finna það hvernig umhverfið og náttúran grípur í taumana og setur okkur í hættu, án þess að geta rönd við reist skapar skapar skiljanlegan ótta. En sem samfélag getum við ekki látið stjórnast af ótta. Við höfum brugðist við með samstöðu með íbúum Flateyrar, Grindavíkur og Seyðisfjarðar í gegnum hremmingar þeirra. Við höfum sýnt seiglu okkar í gegnum heimsfaraldurinn. Við kunnum að standa í röð, þvert á allar mýtur, heldur að við látum hagsmuni annarra en okkar sjálfra skipta máli. Við höfum sýnt samkennd og að við séum tilbúin til að verja þau okkar sem veikari eru fyrir. Okkur bar einnig gæfa til að láta viðbrögð almannavarna stýra okkur í gegnum þetta ár. Viðbrögðin hér hafa verið minni pólitík og meiri fagmennska sem gefið hafa okkur öflug og örugg viðbrögð við krísum.
Neyðarstjórn Reykjavíkur, þar sem ég á sæti sem varamaður borgarstjóra, hefur verið starfandi nánast allt árið. Í gegnum starf neyðarstjórnarinnar hef ég fundið hve mikilvægt það er að hafa tilbúnar neyðaráætlanir til að styðjast við í gegnum áföll. En ég hef líka fundið það hvað það er mikilvægt að hafa í stafni fólk sem er skapandi og fljótt að finna lausnir við nýjum vandamálum sem koma upp með skömmum fyrirvara.
Það þarf pólitíska forystu
Auðvitað skiptir líka máli að sýna pólitíska forystu á krísutímum. Vekja von í brjóstum og draga úr óttanum. Þegar kemur að heimsfaraldri hefur það verið hlutverk okkar í sveitarstjórnum að tryggja að leiðbeiningum sóttvarna sé fylgt í starfsemi sveitarfélaganna og hvetja til þess að þvo, spritta og halda tveggja metra reglu. Þegar kemur að efnahagslegum viðbrögðum höfum við svo getað sýnt forystu.
Allar áætlanir ársins breyttust og í vor stóðum við í borginni öll saman og kynntum 13 aðgerða plan sem var einróma samþykkt í borgarráði. Við vissum ekki þá hve lengi kórónuveiran myndi hafa áhrif á tilveruna. Við vonuðumst eftir hinu besta en vorum viðbúin hinu versta með því að stilla upp mismunandi sviðsmyndum. Aðgerðaplanið snérist svo að því hvernig við vildum styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í borginni á erfiðum tímum, því auðvitað er það fólkið sem finnur fyrir afleiðingunum.
Öflug, græn viðspyrna
Nú í lok árs sýndum við enn fremur hvernig við stefnum á öfluga viðspyrnu til að styðja fólk í gegnum erfitt efnahagsástand, með því að samþykkja fjárhagáætlun fyrir næsta ár sem gerir ráð fyrir meiri framkvæmdum en nokkur sinni fyrr. Við samþykktum líka Græna planið sem útlistar forgangsröðun framkvæmdanna. Við ætlum okkur að taka stór græn skref upp úr efnahagskreppunni. Það mikilvægasta nú er að skapa aðstæður til að draga úr atvinnuleysi. Fyrir einstaklingana sem missa vinnuna og fyrir samfélagið allt. Við ætlum líka að nota tækifærið, stuðla að nýsköpun og stórbæta stafræna þjónustu borgarinnar. Í þessari stafrænu bylgju hefur atvinnulífið tekið gríðarlega stór stökk og hið opinbera má ekki vera þar eftirbátur.
Sólin skein í sumar og mun skína aftur
Við vildum líka reyna að gera sumarið aðeins skemmtilegt, eins og aðstæður leyfa, með því að hafa líf í borginni – þrátt fyrir að virða tvo metrana. Við lögðum því áherslu á að styðja hverfin til að vera með hverfahátíðir og líf og fjör. Við fórum líka í átak til að lífga upp á miðborgina með því að vera með marga fjölbreytta og litla viðburði, frekar en að hvetja margt fólk til að safnast saman. Við hvöttum Íslendinga til að sækja borgina heim, fara út að borða og njóta lífsins á góðu sumri. Enda var sumarið gott. En svo kom haustið og faraldurinn gerði okkur aftur lífið erfiðara.
Á nýju ári munum við einnig þurfa að takast á við erfiðleika. Við munum þurfa að sýna pólitískt þor til að verja hugsjónir okkar um frelsi og jafnrétti, sem oft verða að átakamálum í kreppum. Þá verður því haldið á lofti „að nú sé ekki rétti tíminn“, þar sem efnahagslegir erfiðleikar trompi allt annað. En sólin mun birtast okkur aftur, hátt á lofti og þangað til megum við ekki gleyma okkur í myrkrinu.
Sameiginleg verkefni á höfuðborgarsvæðinu
Í sveitarstjórnarmálum á höfuðborgarsvæðinu munum við líka þurfa að sýna þor og dug til að halda áfram að standa saman að sameiginlegum verkefnum. Tvö þeirra vil ég sérstaklega nefna. Annars vegar eru það samgöngumálin, þar sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefur sameinast um samgöngusáttmála og þróun Borgarlínunnar og í þeim tilgangi stofnað með ríkinu Betri samgöngur ohf. Við verðum að gera það auðveldara fyrir fólk að velja sér þann samgöngumáta sem það kýs helst og snúa af þeirri braut að öll hönnun samgöngumannvirkja snúist um einkabílinn.
Á þessu ári höfum við einnig sameiginlega hafið endurskoðun á byggðasamlögum höfuðborgarsvæðisins. Leiðarljósið er að einfalda strúktúrinn, tengja byggðasamlögin betur við sveitarfélögin og gera stjórnun á þeim faglegri og ábyrgð skýrari. Með samstöðu þvert yfir sveitarfélög og þori getum við stýrt báðum þessu mikilvægu verkefnum í höfn
Með áframhaldandi samstöðu, seiglu og þori verður árið 2021 að góðu ári, árinu sem við stígum upp úr hremmingum og göngum til hnarreist til framtíðar.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár, kæru lesendur.
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs