07 jan Minna frelsi og meira „fullveldi“
Viðskiptasamningur Breta og Evrópusambandsins, sem tók gildi um áramótin, var góð lausn fyrir báða aðila eins og málum var komið.
Fyrir Ísland og þau lönd önnur, sem eftir eru á innri markaði Evrópusambandsins, er þetta eigi að síður mjög stórt skref til baka. Þeir sem eru fylgjandi frjálsum viðskiptum geta með engu móti fagnað meiri takmörkunum og fleiri hindrunum.
Tvær grímur renna á breskan almenning
Ríkisstjórn breska Íhaldsflokksins fagnar hins vegar þessum tímamótum með háfleygum yfirlýsingum. Brexit var samþykkt með mjög naumum meirihluta. Nýjustu kannanir sýna aftur á móti að aðeins 38 prósent eru enn fylgjandi útgöngu en 48 prósent eru á móti.
Hugmyndafræðin, sem varð ofan á í breska Íhaldsflokknum, og naumur meirihluti keypti á markaðsverði í þjóðaratkvæðagreiðslunni, byggði á þeirri staðhæfingu að það væri andstætt fullveldi Stóra-Bretlands að deila ákvörðunum með öðrum þjóðum.
Meðan breska Íhaldsflokksstjórnin hrósar happi yfir því að hafa endurheimt fullveldið benda kannanir hins vegar til þess að tvær grímur hafi runnið á meirihluta þjóðarinnar. Hvað veldur því?
Fullveldi fyrir þingmenn en ekki þjóðina
Í flestra augum eru fullveldi og frelsi nátengd hugtök. Sú tenging byggir á því að stjórnvöld nýti fullveldisréttinn til þess að gefa almennum borgurum og fyrirtækjum þeirra sem mest svigrúm til athafna í viðskiptum, vísindum og listum.
Aftur á móti er ekki sjálfgefið að stjórnvöld nýti fullveldið á þann hátt. Almenningur í Bretlandi virðist smám saman vera að átta sig á því að hugmyndir forystumanna breska Íhaldsflokksins um fullveldi beindust fyrst og fremst að því að auka að nafninu til svigrúm þingmanna til ákvarðana á kostnað athafnafrelsis borgaranna og fyrirtækja þeirra.
Brexit snerist með öðrum orðum um fullveldi fyrir þingmenn en ekki þjóðina.
Nýjar hindranir
Þó að viðskiptasamningurinn tryggi tollfrjáls viðskipti með vörur er verið að reisa margvíslegar nýjar viðskiptahindranir. Skrifræði eykst til mikilla muna á landamærum með auknum kostnaði fyrir stjórnvöld og fyrirtæki. Viðskiptin ganga líka hægar, jafnvel þó að nýja tölvuvædda skrifræðiskerfið gangi snurðulítið fyrir sig.
Þjónustuviðskipti falla fyrir utan samninginn. Þau eru uppistaðan í breskum þjóðarbúskap. Nýjar hindranir, stórar og smáar, rísa upp á þessu sviði. Ýmis verkefni flytjast yfir til meginlandsins. Frjáls för fólks hefur verið aflvaki fyrir lista- og menningarlíf. Nú er dregið úr því frelsi. Nemendaskipti falla niður og frelsi námsmanna skerðist.
Meira í orði en á borði
Til þess að halda tollfríðindum verða Bretar í öllum meginatriðum að fylgja svipuðum samkeppnisreglum og gilda á innri markaði Evrópusambandsins. Komi upp ágreiningur sker alþjóðlegur gerðardómur úr. Aukið sjálfstæði þingmanna er því fremur í orði en á borði.
Evrópusambandið er með samninga við yfir eitt hundrað ríki. Þó að Bretar nái á næstu árum að gera jafn marga samninga munu þeir ekki vega upp á móti skertu athafnafrelsi á innri markaði Evrópu.
Aukið fullveldi þingmanna að nafninu til þýðir minna frelsi almennra borgara og fyrirtækja þeirra. Minna athafnafrelsi þrengir svo möguleika atvinnulífsins til þess að vaxa með sama hraða og samkeppnislöndin.
Áhrif Breta í alþjóðasamfélaginu dvína. Í augum umheimsins hefur fullveldi Breta veikst en ekki styrkst.
Endurómur Miðflokks og Sjálfstæðisflokks
Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa um nokkurt skeið endurómað sömu hugmyndafræði og breski Íhaldsflokkurinn. Báðir flokkarnir eru andvígir því að auka athafnafrelsi með fullri aðild að Evrópusambandinu.
Í báðum flokkum er vaxandi andstaða við aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins. Vegna ágreinings í Sjálfstæðisflokknum tók það ríkisstjórnina til að mynda meira en heilt ár að afgreiða nýjar og bættar evrópskar reglur á sviði orkumála. Ef VG hefði verið jafn sundrað í því máli er eins víst að EES-samningurinn væri í uppnámi.
Nái Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar er hætt við að það verði á kostnað viðskiptafrelsis og neytendaverndar. Það mun veikja sóknarmöguleika íslensks atvinnulífs.