04 feb Reykskynjari án rafhlaðna
Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í vinnu formanna allra stjórnmálaflokka um breytingar á stjórnarskrá. Á köflum var vinnan vönduð, jafnvel skemmtileg þótt dapurleikinn hafi einkennt síðustu daga vinnunnar. Þegar blákaldur veruleiki og hagsmunapólitík stjórnarheimilisins spilaði sterkar inn í vinnuna.
Í upphafi var sammælst um að ræða afmörkuð svið stjórnarskrárinnar og að um hvert og eitt yrði flutt sérstakt þingmál, með annaðhvort breiðri sátt eða auknum meirihluta. Ákvæði um framsal og þjóðaratkvæðagreiðslur hunsaði formaður VG þrátt fyrir samkomulag um annað og leit algerlega fram hjá skýrum vilja almennings um jöfnun atkvæðisréttar. Eitthvað sem ætti ekki að koma á óvart en lengi skal manninn reyna.
Ég tók samt sem áður þátt í vinnunni og lýsti yfir að ég gæti auðveldlega verið sammála þingmálum sem snerta íslenskuna, umhverfismál og svonefndan forsetakafla enda tel ég þau skref í rétta átt. Betra væri að ganga hreint til verks um mína afstöðu í stað útpældrar leikjafræði. Enda mikið í húfi.
Auðlindaákvæði formanns VG gat ég hins vegar ekki með nokkru móti stutt meðan ekki væri ætlunin að virkja þjóðareignina. Ef ekki á að breyta neinu og festa frekar í sessi rétt útgerða yfir fiskveiðiauðlindinni er best að segja það hreint út.
Hér gæti orðið óafturkræft tjón. Í stjórnarskrá verða sett falleg orð um þjóðareign sem hvorki breytir né treystir rétt þjóðarinnar yfir auðlindum sínum. Ákall þjóðarinnar eftir samráði var um virka og raunverulega þjóðareign, ekki sýndarmennsku. Þetta er óskatillaga íhaldsflokkanna og undirstrikar rækilega til hvers þessi ríkisstjórn var stofnuð. Til hvers refirnir voru skornir.
Forsætisráðherra ætlar að selja þjóðinni að setja upp öryggistæki um allt hús en lætur ekki rafhlöðurnar fylgja með. Hún vísvitandi sleppir þeim. Veitir falska öryggiskennd. Þetta er ekki bara óendanlega dapurt heldur stórhættulegt út frá hagsmunum heildarinnar. Ef Alþingi breytir ekki frumvarpi VG er ljóst um hvað næstu kosningar munu snúast. Þá fær þjóðin tækifæri til að tryggja virka þjóðareign og rétta hlut sinn – eða festa í sessi óbreytt ástand.