04 feb Hvers virði er traust kvenna?
Í byrjun árs voru gerðar breytingar á skimunum fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra ákvað að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar. Fréttirnar komu illa við marga og komu flestum í opna skjöldu enda hafði lítil kynning farið fram á forsendum, ástæðum og afleiðingum þessara breytinga. Þetta samfélagslega mikilvæga verkefni flyst nú alfarið yfir til hins opinbera með aukinni miðstýringu.
Valfrelsi kvenna skert
Eftir hörð viðbrögð við því að ætla að hefja skimun fyrir brjóstakrabbameini fyrst við 50 ára aldur í stað 40 ára tilkynnti heilbrigðisráðherra að fresta ætti gildistökunni hvað varðar aldursviðmið brjóstaskimunar. Ákvörðun stjórnvalda um skimun leghálskrabbameins stendur. Almenningur hefur enn litlar röksemdir heyrt um ástæður þess að nú eigi að skima fyrir leghálskrabbameini á fimm ára fresti í stað þriggja ára eða hvers vegna það er betra að heilsugæslan sinni þessu verkefni nú alfarið.
Að lokum var rannsóknarstofa í Danmörku fengin til að rannsaka sýnin en svo hefur komið í ljós að hópur kvenna mun þurfa að fara aftur í sýnatöku. Á sama tíma liggja 2.000 sýni óhreyfð í pappakössum og hafa gert um nokkurra vikna skeið. Alveg hefur vantað að útskýra hvers vegna Landspítalinn má ekki greina þessi sýni eða hvort stjórnvöld leituðu yfirleitt til Landspítalans um að sinna þessu verkefni. Hvers vegna er betra fyrir almenning að þetta verkefni flytjist til Danmerkur?
Margt bendir til þess að undirbúningur þessa flutnings hafi verið illa unninn. Samfella í þjónustu er ekki tryggð þegar konur þurfa að fara aftur í sýnatöku og standa uppi með takmörkuð svör um hvenær sýni verða greind og af hverjum. Nú síðast heyrist svo í umræðunni að konur sem eru vanar að fara til kvensjúkdómalæknis í skimun fyrir leghálskrabbameini og vilja gera það áfram muni greiða fyrir það fullt gjald en þær sem leita til heilsugæslunnar greiða lægra gjald. Afleiðingin er tvöfalt kerfi.
Stefnan virðist vera að allar konur eigi að fara á heilsugæsluna. Raunverulegt valfrelsi verður því ekki til staðar, nema fyrir þær konur sem geta og vilja greiða hærra gjald fyrir grundvallarheilbrigðisþjónustu. Konur sem eiga erfiða eða sára reynslu af meðgöngu og fæðingu, vegna kynferðisofbeldis eða af öðrum ástæðum þekkja vel hversu miklu skiptir að skoðunin fari fram af lækni sem hefur innsýn í þær aðstæður. Þær aðstæður eru fyrir hendi hjá kvensjúkdómalækninum sem þekkir sögu konunnar. Sú breyting að vilja ýta þessari skoðun nánast alfarið til heilsugæslunnar er í mínum huga afturför.
Miðstýring ofar öllu
Stefna ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur verið að auka miðstýringu í heilbrigðiskerfinu. Við þekkjum nú þegar til dæmis þá absúrd framkvæmd ríkisstjórnarflokkanna sem bjóða skattgreiðendum upp á að sjúklingar séu t.d. sendir í liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar fyrir næstum þrisvar sinnum hærri kostnað frekar en að bjóða fólki mun þægilegri valkost sem er að fara í aðgerð hér heima.
Þessi kostnaðarauki, sem mjög auðveldlega mætti komast hjá, veitir sjúklingum auk þess það óhagræði að þurfa að fljúga til annarra landa að sækja heilbrigðisþjónustu sem auðveldlega má veita hér heima. Þarna fer því saman hærri kostnaður og verri þjónusta.
Miðstýringin virðist ofar öllu hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þögn þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins er áberandi í þessari umræðu, flokka sem tala stundum fyrir annarri stefnu en þeir styðja svo í verki í þingsal.
Ellefta boðorðið
Ein afleiðing þessarar stefnu stjórnvalda er að traust kvenna til kerfisins er laskað. Það mun þurfa átak til að efla traust kvenna til þessa kerfis eftir vinnubrögð stjórnvalda. Allt frá óvæntum fréttum um að skimun fyrir brjóstakrabbameini ætti ekki að hefjast fyrr en við 50 ára aldurinn, yfir í að 2.000 sýni liggja í pappakössum og nú að beina eigi konum frá því að sækja sér þjónustu kvensjúkdómalækna, með því að heilsugæslan sé komin með þetta verkefni. Allt í þágu 11. boðorðsins um að heiðra skuli miðstýringu ofar öllu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021