12 feb Meiri útgjöld, minni skatta
Afstaða stjórnmálamanna til fjármála ríkisins ætti að vera kjósendum umhugsunarefni. Mín upplifun er að þeir skiptist í grófum dráttum í þrennt:
Skattalækkarinn talar sífellt um að lækka skatta (kallar þá stundum álögur, sem er ágætt út frá áróðursgildi). Ég finn vissa samkennd með honum, því að ég er þeirrar skoðunar að samneyslu eigi að stilla í hóf. En það vantar alltaf seinni hlutann í jöfnuna: Hvaða útgjöld á að minnka á móti? Skattalækkanir eru til vinsælda fallnar, en aðhald er orð sem vekur ótta stórs hluta stjórnmálamanna.
Spreðarinn hefur eina lausn á öllum vanda: Setjum meiri peninga í málaflokkinn. Ég hef ekki tölu á öllum þeim ræðum þar sem stjórnmálamenn hafa barið sér á brjóst og hneykslast á stjórnvöldum fyrir að setja ekki meiri peninga til: a) Menntamála. b) Almennatrygginga. c) Samgöngumála. d) Einhverra annarra mála sem eru þeim hugleikin núna.
Stundum þarf auðvitað meiri peninga til einhvers, en spreðarinn talar ekki um verkefnin heldur málaflokkinn. Rökrétt væri að skilgreina vandann, hvernig mætti leysa hann, hvað lausnin kostaði og hvernig afla ætti fjár til verksins. En það er miklu einfaldara að segjast vilja meiri peninga, þá þarf ekki að setja sig neitt inn í málin.
Farþeginn hefur svo engan sérstakan áhuga á fjármálum og lætur aðra um þau.
Þegar ég var fjármálaráðherra lagði ég fram fjármálastefnu þar sem yfirlýst markmið var að draga úr útgjöldum hins opinbera um tæplega 100 milljarða á fimm árum. Slík stefna hafði aldrei verið lögð fram áður og vinstri stjórnin sem tók við felldi hana úr gildi.
Ýmsum stjórnmálamönnum fannst ég ráðast á uppáhaldsbáknið sitt, en sérfræðingar OECD töldu að ég væri gáleysislegur. Þeir sögðu að útgjöldin ættu að vaxa í hlutfalli við fólksfjölda, ekki landsframleiðslu.
Ég sagði þeim að Viðreisn stæði fyrir heldur óspennandi pólitík, m.a. stöðugleika og niðurgreiðslu skulda. Það yrði örugglega hvorki skrifuð bók né gerð kvikmynd um stöðugleika. Með honum öfluðu stjórnmálamenn sér ekki vinsælda. Þeir spurðu þá hvort ég myndi ekki eftir Andrési Velasco Brañes, fjármálaráðherra í Síle.
Ekki gerði ég það, en Andrés þessi hafði ákveðið að byggja upp varúðarsjóð þegar koparverð hækkaði árið 2006. Hann neitaði að eyða skjótfengnum gróða í skyndiumbætur og varð óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. En þegar flóðbylgja skall á og jarðskjálfti skók landið, kom Andrés með sinn sjóð sem var orðinn 30% af VLF. Hann varð þegar í stað hvers manns hugljúfi og atkvæðasegull.
Ég sagðist þá bara verða að bíða rólegur og vonast eftir náttúruhamförum árið 2020, á síðasta ári stjórnarinnar. Svo fór að ríkisstjórnin entist ekki svo lengi og ég hvarf af sviðinu.
Svo kom heimsfaraldur 2020 og þá var gott að skulda lítið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12.2.2021.